Frá starfi leikstofu barnadeildar Landspítala - háskólasjúkrahúss í Fossvogi.
Frá starfi leikstofu barnadeildar Landspítala - háskólasjúkrahúss í Fossvogi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Thorvaldsenskonur byrjuðu á að styrkja barnadeild Landskots árið 1972 og þær eru búnar beinlínis að tæknivæða deildina ásamt öðru, þau ár sem liðin eru síðan," segir Auður Ragnarsdóttir, hjúkrunardeildarstjóri á barnadeild Landspítala -...

Thorvaldsenskonur byrjuðu á að styrkja barnadeild Landskots árið 1972 og þær eru búnar beinlínis að tæknivæða deildina ásamt öðru, þau ár sem liðin eru síðan," segir Auður Ragnarsdóttir, hjúkrunardeildarstjóri á barnadeild Landspítala - háskólasjúkrahúss í Fossvogi, en henni er ofarlega í huga að minnast gjafmildi Thorvaldsensfélagsins í Reykjavík, nú þegar umrædd barnadeild er að sameinast Barnaspítala Hringsins hvað líður.

"Ég útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur árið 1975 og fór þá strax að starfa á barnadeild Landakots. Það hafa orðið gríðarlega breytingar í barnahjúkrun á þessum tíma, einkum hefur orðið mikil sérhæfing meðal hjúkrunarfræðinga. Legutími er alltaf að styttast og sjúklingar eru nú almennt veikari en áður. Að hluta til er þessi þróun vegna tilkomu göngu- og dagdeilda, þannig að það eru veikustu börnin sem eru lögð hér inn.

Foreldrar voru farnir að koma inn á barnadeildir í ákveðna heimsóknartíma þegar ég hóf störf í hjúkrun, en í upphafi starfs barnadeilda þótti ekki æskilegt að foreldrar kæmu mikið inn á sjúkrahús til barna sinna. Auðvitað voru einstaka undantekningar þegar um var að ræða mjög mikið veik börn.

Síðan þróaðist þetta og foreldrarnir fóru að vera æ meira á deildinni. Starfsfólkið þurfti nokkra aðlögun í þessum efnum, það voru viðbrigði að hafa áhorfendur að flestu því sem verið var að gera. En menn hafa löngu gert sér grein fyrir að þetta er langbest fyrir barnið og gerir alla umönnun þess mun auðveldari.

Thorvaldsensfélagið kom til skjalanna þegar þessi þróun var kominn nokkuð á veg. Þær gáfu húsgögn - rúm, góða stóla, lampa og fleira til að betur færi um foreldrana meðan þeir sinntu barni sínu á sjúkrahúsinu. Áður höfðu þær gefið margar góðar gjafir, svo sem tæki til að mæla lífsmörk barna inni á stofum, hitakassa og hitaborð fyrir mikið veik ungbörn.

Þegar systurnar fluttu úr húsnæði sínu á þriðju hæðinni á Landakoti í kjölfar þess að ríkið tók við rekstri sjúkrahússins var innréttuð leikstofa og foreldraherbergi á barnadeildinni. Thorvaldsenskonur gáfu útbúnað í þessa aðstöðu.

Meðan deildin var á Landakoti voru þrengslin slík að foreldrarnir urðu að sofa á dýnum á gólfinu. Þegar barnadeildin flutti í Borgarspítalann í Fossvogi gáfu þær ný sjúklingarúm og fjölmargt fleira. Væru ekki fyrir hendi frá okkur ákveðnar óskir um hvað þyrfti að kaupa létu þær okkur gjarna vita að deildinni væri ætluð ákveðin fjárhæð og óskuðu eftir að yfirlæknir og þeir aðrir sem að málinu kæmu veltu fyrir sér hvað mest lægi á að kaupa hverju sinni.

Við fluttum einungis með okkur frá Landakoti gömlu smábarnarúmin. Þau eru enn í notkun og hafa staðið sig mjög vel.

Thorvaldsenskonur hafa löngum verið stórgjöfular. Þær keyptu m.a. nokkra svokallaða "Lazyboy-stóla" fyrir foreldra sem þurfa að sitja lengi við sjúkrarúm barna sinna og þótti mikil bragarbót, þær sáu og um að sjónvarpsvæða stofurnar, svo eitthvað sé nefnt í viðbót af öllu sem þær hafa látið af hendi rakna til barnadeildarinnar hér. Hefði þessara gjafa ekki notið við hefði deildin verið mun snauðari að tækjum og húsgögnum, það er alveg víst að aðbúnaður hefði þá verið allur af skornari skammti.

Góður aðbúnaður auðveldar mjög alla hjúkrun, ekki síst þegar þróunin er í þá átt að börnin sem inni liggja eru mjög veik. Hér hefur í reynd verið rekin barna- og fjölskylduhjúkrun. Það þarf að hlúa að foreldrum í þessum aðstæðum - sjá um að leysa þá af svo þeir komist í mat og geti hvílt sig.

Ekki aðeins hafa foreldrar dvalið hér langdvölum með börnum sínum heldur hafa systkini sjúklinganna líka verið hér af og til.

Heimahjúkrun hefur verið komið á í áranna rás og nú er í umræðunni að koma á sjúkrahústengdri heimahjúkrun fyrir börn.

Gert er ráð fyrir að hinn nýi Barnaspítali Hringsins taki til starfa snemma á næsta ári. Það er mikið undirbúningsstarf búið að standa yfir; hvernig best megi standa að sameiningu barnadeilda Landspítalans. Í hinu nýja og glæsilega húsi Barnaspítalans við Hringbraut er gert ráð fyrir tveimur lyfjadeildum, einni handlækningadeild og á fyrstu hæð verða dag- og göngudeild og bráðamóttaka barna.

Flestir starfsmenn fara til starfa á barnasviði Barnaspítala Hringsins

Á barnadeildinni í Fossvogi hefur verið starfrækt mjög blönduð 23 rúma deild fyrir börn á öllum aldri, nánast frá fæðingu og upp í 18 ár. Meirihluti starfsmanna hér fer til starfa á barnasviði hins nýja barnaspítala.

Áfram verða þó ákveðnar sérgreinar barnalækninga í Fossvogi, þ.e. heila- og taugaskurðlækningar, háls-, nef- og eyrnalækningar og bæklunarlækningar og áfram verður einnig tekið á móti slösuðum börnum.

Starfsfólkið héðan mun sækja um vinnu við ákveðnar einingar á hinum nýja stað eftir sérhæfingu sinni. Þetta leiðir af sér að hópurinn hér mun sundrast. Þau börn sem þurfa að dvelja í Fossvogi njóta þjónustu frá Barnaspítala Hringsins. Mikil eining hefur verið hér meðal starfsfólks sem margt hefur unnið saman í áraraðir. Við erum því að fara, ef svo má segja, í gegnum ákveðið "sorgarferli". En um leið og við kveðjum með söknuði það nána samstarf sem hér hefur ríkt hlökkum við auðvitað til að taka til starfa á nýjum vettvangi. Við erum vongóð um að það takist að færa saman það besta úr "menningarheimum" barnadeildanna sem nú eru að sameinast.

Við þessi tímamót vonumst við einnig til að geta á einhvern hátt minnst sem vert er þeirrar miklu velvildar og aðstoðar sem barnadeildin hér hefur notið frá hendi Thorvaldsensfélagsins í Reykjavík."