Búið er að hanna og teikna mannvirkið, en það verkefni var falið Sigríði Sigþórsdóttur hjá VA-arkitektum.
Búið er að hanna og teikna mannvirkið, en það verkefni var falið Sigríði Sigþórsdóttur hjá VA-arkitektum.
Stór áform eru nú uppi um byggingu ferðaþjónustu- og veitingahúss á Eyrarbakka og hafa að verkefninu staðið sameiginlega fjórir einstaklingar, sem allir eiga uppruna sinn að rekja til staðarins.

Stór áform eru nú uppi um byggingu ferðaþjónustu- og veitingahúss á Eyrarbakka og hafa að verkefninu staðið sameiginlega fjórir einstaklingar, sem allir eiga uppruna sinn að rekja til staðarins. Búið er að hanna og teikna mannvirkið, en það verkefni var falið Sigríði Sigþórsdóttur hjá VA-arkitektum sem jafnframt teiknaði hið nýlega veitinga- og þjónustuhús við Bláa lónið. Reiknað er með að stofna um bygginguna hlutafélag sem síðan leigir út veitingaaðstöðu með öllum búnaði og aðstöðu til verslunarreksturs. Kostnaðaráætlun vegna byggingarinnar hljóðar upp á um 100 milljónir króna og er nú verið að leita að heppilegum fjárfestum til að taka þátt í verkefninu. Áætlað er að hefja framkvæmdir sem fyrst og yrði húsið rekið á heilsársgrundvelli. Síðar mætti hugsanlega bæta við gistiaðstöðu.

Forsprakki fjórmenninganna, Sveinbjörn Birgisson, segist hafa þá trú að slíkt mannvirki, sem sé bæði sérstætt og falli skemmtilega að náttúrunni, geti laðað að fjölmarga ferðamenn, ekki síst með tilkomu fyrirhugaðs Suðurstrandarvegar, sem skapa mun beina tengingu frá flugvallarsvæðinu og austur til Eyrarbakka. Auk erlendra ferðamanna, sem í auknum mæli eru að flýja mengun í leit að hreinni náttúru, er fyrirhuguðu ferðaþjónustuhúsi einnig ætlað að höfða til Íslendinga, sem eru á ferð um Suðurland.

Minnir á innviði skips

Gert er ráð fyrir að mannvirkið hýsi móttöku fyrir ferðamenn með almennri upplýsingaþjónustu, veitingaaðstöðu og sölubúðum auk þess að vera samkomustaður fyrir heimamenn. Aðalveitingasalur fyrir allt að 50 manns yrði ávallt opinn sem almennur veitingasalur, en jafnframt yrði möguleiki á að leigja hann út til einkasamkvæma eða hópa án þess að loka húsinu fyrir almenningi á annatíma. Í tengslum við ferðaþjónustuhúsið, sér Sveinbjörn fyrir sér uppbyggingu á tjaldstæði ásamt uppbyggingu á afþreyingu ýmiskonar. Gert er ráð fyrir að mannvirkið rísi á lóð niðri við sjó vestan við höfnina, í nálægð við hafið annars vegar og gróið láglendi og lítt snortna náttúru hins vegar. Við efnisval í húsinu hefur Sigríður tekið mið af nánasta umhverfi. Húsinu er ætlað að standa niður undan grasi grónum halla, sem teygir sig yfir þak þess. Ryðgaðar klæðningarplötur, sem minna á skipsskrokk varða aðkomuleiðina og mynda skjól við innganginn. Viðarklæðningu á útveggjum byggingarinnar er ætlað að minna á hliðar gömlu hafnarinnar. Innri frágangur líkist svo innviðum í skipum.

Styrkleikar og veikleikar

Samkvæmt skýrslu um stefnumótun í ferðamálum í sveitarfélaginu Árborg, sem Eyrarbakki nú tilheyrir, er talið að lítil afþreying, lítið gistirými og takmörkuð þjónusta sé meðal helstu veikleika Eyrarbakka. Þegar styrkleikar svæðisins eru á hinn bóginn upp taldir er gott aðgengi allan ársins hring, skýr ímynd, gömul vel upp gerð hús og ströndin talin til kosta auk tveggja safna og veitingastaðarins Rauða hússins.