HJALLASTEFNAN ehf. hefur sótt um að reka grunnskóla á Garðaholti í Garðabæ fyrir 5-9 ára börn. Fyrirtækið rekur nú þegar stærsta leikskólann í bænum auk annars í Hafnarfirði.

HJALLASTEFNAN ehf. hefur sótt um að reka grunnskóla á Garðaholti í Garðabæ fyrir 5-9 ára börn. Fyrirtækið rekur nú þegar stærsta leikskólann í bænum auk annars í Hafnarfirði. Ásdís Halla Bragadóttir, bæjarstjóri Garðabæjar, segist vita til þess að margir foreldrar séu áhugasamir um að börnin þeirra geti haldið áfram í skóla á vegum Hjallastefnunnar. "Erindið verður tekið til umfjöllunar í næstu viku og mér finnst spennandi að sjá hvort ekki sé forsenda fyrir því að Garðabær taki þátt í því að koma nýjum einkareknum grunnskóla á laggirnar."

Margrét Pála Ólafsdóttir, eigandi fyrirtækisins Hjallastefnunnar, segir að þegar hafi verið sótt um lóð í Hafnarfirði við hlið leikskólans Hjalla til að byggja slíkan grunnskóla og að sú umsókn sé í vinnuferli hjá Hafnarfjarðarbæ. "Viðtökur eru afar jákvæðar en ljóst að það mun taka talsverðan tíma að vinna það mál til enda. Við höfum hins vegar verið að leita í á annað ár að leiguhúsnæði til þess að hefja grunnskólastarf og byrja að þróa hugmyndir okkar, sem við höfum unnið með í leikskólastarfi með góðum árangri, áður en kæmi til varanlegra bygginga."

Börn af leikskólunum Ásum í Garðabæ og Hjalla í Hafnarfirði sem Hjallastefnan rekur, myndu hafa forgang um skólavist en jafnframt gætu önnur börn sótt um skólavist ef rými leyfði, að sögn Margrétar Pálu.

Óskir frá foreldrum

"Það er ekki síst að ósk foreldra að við reynum að þróa aðferðirnar áfram upp á grunnskólastig," segir Margrét Pála, en aðferðirnar lúta m.a. að jafnréttisáherslum í kynjaskiptu skólastarfi, umbúðalausri kennslu og sérstökum viðhorfum og aðferðum í umhverfi, búnaði og samskipta- og hegðunarkennslu.

Margrét Pála segir að hugmyndin sé sú að reka grunnskóla upp að níu ára aldri. "Í dag eru þrettán leikskólar í landinu sem starfa eftir Hjallastefnunni, en hvað tilraun á grunnskólastigi á eftir að sýna í framtíðinni er auðvitað óvíst. Verið getur að við eigum t.d. eftir að halda úti fleiri en einum tilraunaskóla af þessari gerð. En okkar kappsmál er að komast af stað og geta byrjað að bjóða börnum og foreldrum upp á þennan valkost hið fyrsta. Okkar reynsla er sú að best sé að byrja smátt og fá að vaxa upp."