Arinbjörn Kolbeinsson fæddist á Úlfljótsvatni í Grafningshreppi í Árnessýslu 29. apríl 1915. Hann lést í Reykjavík 19. nóvember síðastliðinn og var útför hans gerð frá Dómkirkjunni 28. nóvember.

Nú er látinn samstarfsmaður og vinur til margra ára á sýklafræðideild Landspítalans. Arinbjörn Kolbeinsson var fyrsti íslenski læknirinn sem sérhæfði sig í og stundaði sýkla- og ónæmisfræði eingöngu. Hann hlaut góða þjálfun í sérnámi á merkum stofnunum austan hafs og vestan. Framan af starfsævi Arinbjörns mætti bakteríufræðin nokkrum mótbyr frá starfsbræðrum hans vegna tilkomu sýklalyfjanna og trúar á að þar með væri allur vandi við lækningu sýkinga leystur. Þegar frá leið varð mönnum þó ljóst að nýju lyfin juku þörfina fyrir vandaðar bakteríufræðilegar greiningar en ekki öfugt.

Arinbirni tókst að þróa og móta starfsemi sýklafræðideildarinnar þannig að hún varð á við það sem best gerðist. Við sem undir þetta ritum stöndum í mikilli þakkarskuld við Arinbjörn. Þegar íslenskir læknar leggja sig eftir sérgreinum sem eru fámennar er mögulegur vinnustaður fyrir ævistarfið e.t.v. aðeins einn.

Því má telja það stóra vinninginn í lífsins happdrætti að eignast yfirmann eins og hann. Arinbjörn var góður stjórnandi. Hann hafði lagt sig eftir stjórnunarfræðum og beitti þeirri kunnáttu vel. Hann hafði lag á því, með mildum aðferðum, að fá starfsliðið til þess að leggja sig fram þótt fast væri tekið í ef nauðsyn bar til. Hann var einstakt ljúfmenni í daglegri umgengni, mikill húmoristi og alltaf tilbúinn að ræða sín mörgu áhugamál og miðla af mikilli þekkingu. Í félagslífi starfsfólksins var hann hrókur alls fagnaðar og tækifærisræður hans rómaðar. Arinbjörn var mikill áhugamaður um stjórnmál og félagsmál og kom afar víða við. Hann lagði mörgum þjóðþrifamálum lið og okkur sem fylgdust með honum úr návígi er ljóst að honum varð oft mikið ágengt án þess að það færi alltaf hátt. Þegar Arinbjörn varð sjötugur var þörfin fyrir starfskrafta hans enn brýn. Hann féllst því á að starfa áfram í hálfu starfi og árin urðu sex. Nú hefur hans verið sárt saknað úr starfinu á sýklafræðideildinni í áratug. Um leið og við þökkum hans mikla framlag til sýklafræðideildarinnar og Landspítalans sendum við Sigþrúði og öðrum ástvinum og vinum innilegar samúðarkveðjur.

Ólafur Steingrímsson,

Karl G. Kristinsson.

Kveðja frá Múlabæ og Hlíðabæ

Á þeim aldri þegar flestir eru að setjast í helgan stein var Arinbjörn Kolbeinsson enn önnum kafinn í starfi sínu sem læknir og við margháttuð félagsstörf. Meðal annars tók hann þátt í að koma á fót fyrstu dagvistarstofnuninni fyrir aldraða á Íslandi árið 1983. Það var Múlabær og var hann þar fulltrúi fyrir Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands, en auk hennar áttu SÍBS og Samtök aldraðra hlut að stofnun Múlabæjar. Múlabær er í húsi SÍBS í Ármúla 34 í Reykjavík. Reynslan af Múlabæ þótti það góð að sömu aðilar stofnuðu Hlíðabæ 1996, dagvistarstofnun fyrir einstaklinga með heilabilun, sem er í húsi í eigu Reykjavíkurborgar á Flókagötu 53. Einnig þar var um nýja starfsemi að ræða í þágu sjúklingahóps sem stækkað hefur hratt á síðustu árum. Sjaldan reynir eins á hæfileika fólks eins og þegar ryðja þarf brautina á nýjum sviðum líkt og var á fyrstu árum Múlabæjar og Hlíðabæjar. Mikil reynsla og frábærir forystuhæfileika Arinbjarnar nutu sín þar vel meðan heilsa hans leyfði, en hann var 83ja ára þegar hann lét af stjórnarsetu. Við sem áttum því láni að fagna að starfa með honum á þessum árum minnumst hans með sérstöku þakklæti og virðingu.

Fyrir hönd stjórnar og starfsfólks Múlabæjar og Hlíðabæjar,

Davíð Gíslason.

Davíð Gíslason.