"ÞETTA eru ákveðin vonbrigði," segir Reinhard Reynisson, bæjarstjóri á Húsavík, um synjun landbúnaðarráðherra á erindi þess efnis að leyfa innflutning á krókódílum frá Bandaríkjunum til Húsavíkur.

"ÞETTA eru ákveðin vonbrigði," segir Reinhard Reynisson, bæjarstjóri á Húsavík, um synjun landbúnaðarráðherra á erindi þess efnis að leyfa innflutning á krókódílum frá Bandaríkjunum til Húsavíkur.

Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra segir að erindinu hafi verið hafnað á faglegum nótum og ekki síst vegna sjúkdómahættu. "Krókódílar eru miklir síklaskrokkar og salmonella gæti fylgt þeim og fylgir þeim hvar sem þeir eru," segir Guðni. Hann segir ennfremur að það sé líka ábyrgðarhluti að flytja dýr í náttúru sem sé allt önnur en þeirra. Skriðdýr séu ekki til í íslenskri náttúru og þau hafi þróast við allt aðrar aðstæður en hér ríki. "Við Íslendingar þurfum að hugsa um það, að við eigum sérstæða náttúru og sérstaka búfjárstofna, sem við erum öfundaðir af, og verðum þess vegna að fara gætilega með innflutning á öllum nýjum dýrategundum og sjá til þess, sé það gert, að þær passi við okkar náttúrulegu aðstæður."

Svínvirkar í Colorado

Reinhard Reynisson segir að hann og orkuveitustjóri Orkuveitu Húsavíkur hafi sýnt málinu áhuga sem einstaklingar en ekki embættismenn með það í huga að nýta heitt affallsvatn til að ala í krókódíla og láta þá eyða lífrænum úrgangi jafnóðum og hann félli til, það er ferskum sláturúrgangi frá fiskeldi og fiskvinnslu, eins og gert sé í Bandaríkjunum með góðum árangri. "Hugmyndin svínvirkar í Colorado og við sáum ekki annað en allar forsendur væru til að láta hana virka vel hérna og engin hætta væri á að þessi dýr blönduðust út í íslenska náttúru."

Reinhard segir að ákvörðun ráðherra byggist á áliti yfirdýralæknis og héraðsdýralæknis og áhugamönnum um innflutning krókódílanna þyki ástæða til að fara nánar í saumana á því áliti. "Okkur finnst að ýmislegt sem kemur fram í þeim álitsgerðum sé dálítið gildishlaðið frekar en að vera endilega byggt á hörðum og yfirveguðum vísindum," segir hann og bætir við að málið verði skoðað í rólegheitum.

Yfirdýralæknir og héraðsdýralæknir lögðu til við ráðuneytið að það hafnaði umsókninni. "Innst í mínu hjarta hef ég alltaf verið sannfærður um það að krókódílar eiga ekki heima í okkar náttúru og gætu valdið hér sjúkdómum, eins og fram kemur í umsögn héraðsdýralæknisins, og ekki síður eru þetta hættuleg dýr við ákveðnar aðstæður og geta skaðað fólk," segir Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra.