Björgunarmennirnir frá Akureyri og Reykjavík komnir að flakinu. Hin slasaða flugfreyja er að tala við þá.
Björgunarmennirnir frá Akureyri og Reykjavík komnir að flakinu. Hin slasaða flugfreyja er að tala við þá.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bókarkafli Skelfing grípur um sig hjá þjóðinni þegar glæsilegasta flugvél Íslendinga, Geysir, skilar sér ekki til Reykjavíkur. Hún var á leið frá Lúxemborg með sex manna áhöfn, 18 hunda og sex tonn af lúxusvörum. Óttar Sveinsson segir frá brotlendingu Geysis í um 1.800 metra hæð á Bárðarbungu Vatnajökuls í september árið 1950.

Eftir brotlendinguna reynir áhöfnin að koma sér fyrir í kuldanum. Dagfinnur Stefánsson, 2. flugmaður, virðist sérstaklega þungt haldinn.

Dagfinnur hafði verið meðvitundarlítill en kom til sjálfs sín þegar verið var að hlúa að honum:

"Þegar ég fór að átta mig aðeins leist mér ekki á aðstæður okkar. En ég varð að halda í vonina. Best var að við vorum öll tiltölulega heil þrátt fyrir meiðsl sumra okkar. Þegar ég leit út vonaði ég að stytti upp. En ekkert lát var á stórhríðinni og skafrenningurinn var óskaplegur. Þrátt fyrir sterkan vindinn hafði vélin legið kyrr, hún hreyfðist ekkert, hafði skorðast niður í snjóinn. Þegar við skyggndumst út í sortann fannst mér eins og leitarmenn væru að koma til okkar. En það reyndist ekki rétt - þetta var einhver óskhyggja. Við vissum ekkert hvar við vorum en vonuðum að það væri sem styst frá byggð.

Við höfðum legið í einni kös á vörunum inni í flakinu og reynt að halda á okkur hita. En það var brunagaddur. Óvissan var verst. Heima, á Hringbraut 32, gegnt Þjóðminjasafninu, voru móðir mín og systur. Mér þótti slæmt að geta ekki komið neinum skilaboðum til þeirra. Þær voru örugglega búnar að afskrifa okkur. Faðir minn var stýrimaður á Dettifossi, skipi Eimskipafélagsins. Ég vissi að skipið var á leiðinni heim til Íslands."

Dagfinnur vissi ekki að áhöfnin á Dettifossi hafði, eins og aðrar áhafnir skipa undan suður- og austurströndinni, verið beðin um að leita að Geysi. Stefán Dagfinnsson stýrimaður tók nú þátt í leitinni - hann var að leita að eigin syni.

Dagfinnur reyndi að ímynda sér hvað hefði gerst:

"Ég fór nú að hugsa um í hvað við værum komin. Félagar mínir voru að leita að einhverju til að borða en ég hafði enga matarlyst. Meiðslin, verkirnir og blæðingarnar sáu til þess. Ég sá að vörurnar og hundabúrin voru meira og minna í einni kös. Einhverjir hundar höfðu drepist og einn hafði fundist nær dauða en lífi og varð að aflífa hann. Órói var í þeim sem eftir lifðu. Þarna var bolabítur sem lét ófriðlega. Hann var ekki í búri, hafði losnað og gelti eins og vitlaus væri. Einnig var á meðal okkar stór schäferhundur - hann virtist mannblendnastur og rólegastur þeirra allra. Við sáum á hálsólinni að hann hét Carlo."

Magnús var ekki í vafa um hvað gera skyldi við bolabítinn:

"Hann var afar grimmur að sjá og var að gera alla vitlausa. Lætin í honum voru óskapleg. Ekki var um annað að ræða en að taka í ólina hans, fara með hann inn á klósettið, sem nú var á hvolfi, og loka á eftir honum. Bara til að fá frið.

Við karlmennirnir hlóðum betur fyrir dyraopið en á meðan tók Ingigerður til við að sauma á okkur fótabúnað úr efni sem hún fann um borð. Ferðatöskur höfðum við fundið - þetta var farangur fólksins sem til stóð í fyrstu að við flygjum með frá Lúxemborg til Ameríku. Það hafði sent farangurinn á undan sér til Lúxemborgar. Í einni töskunni var te og í annarri súkkulaði. Aftast í vélinni hjá okkur var trékassi með Egils appelsínflöskum. Einar vélamaður var farinn að huga að því að sækja bensín og finna eitthvað til að kveikja í."

Einar hafði viljað kanna til hlítar hvar í ósköpunum það var sem Ingigerður náðist út úr vélinni. Ef hann fyndi rifuna var allt eins víst að hægt yrði að komast inn í eldhúsið:

"Þar sem vörurnar hindruðu algjörlega að við kæmumst fram eftir vélinni var útilokað að reyna að komast að eldhúsinu nema að utanverðu - reyna að skríða inn þar sem Magnús hafði togað Ingigerði út kvöldið áður. Þegar við fórum þangað reyndist það okkur hin mesta ráðgáta hvaðan flugfreyjan hafði eiginlega komið - vélin var gjörsamlega lokuð. Engin göt eða rifur sáust á vélinni sem voru nálægt því nógu stór fyrir flugfreyjuna. Hvernig hafði Magnús eiginlega komið Ingigerði út úr flakinu í náttmyrkrinu? Hafði hún verið komin utan á vélina þegar hann fann hana?

Þetta var mikil ráðgáta.

Eftir að við fundum brauðkassann fórum við strax að hugsa um að við yrðum jafnvel þarna svo dögum skipti. Vel varð að fara með þann litla mat sem við höfðum.

Við fórum að leita betur í farangrinum - hvort þar væri eitthvað til að klæða okkur í eða vefja utan um okkur. Ég ákvað að fara út og kanna hvort eldsneyti væri í tönkunum. Ég skjögraði út í frostið, gekk aftur fyrir vélina og fór undir vænginn. Var allt eldsneytið lekið út? Þarna var blindhríð...

Ég fór að leita að lokinu þar sem eldsneytinu var dælt í vænginn. Þetta var erfitt því nú sneri vængurinn öfugt. Það þýddi auðvitað að lokið sneri niður. Hvernig átti að losa það án þess að bensínið fossaði niður? Ekki hafði ég nein ílát eða verkfæri. Ég ákvað að kanna þetta með því að losa örlítið um lokið. Eftir að ég byrjaði að snúa kom dropi og dropi niður. Jú, ekki bar á öðru, nóg bensín virtist vera í vængnum. Nú lokaði ég aftur, blés skjálfandi á gegnkalda fingurna og ákvað að fara aftur inn í vél. Ég varð að útvega ílát.

Þegar ég kom inn í vél datt mér í hug að fara inn á klósettið sem var aftast - þar sem bolabíturinn var. Þetta var í rauninni kamar og nú var hann á hvolfi eins og allt annað. Ég ákvað að athuga hvort fatan sem fólk gerði þarfir sínar í væri ekki örugglega þarna, dallur úr ryðfríu stáli. Jú, ekki bar á öðru, hann var þarna undir einhverju braki. Ég gat tekið fötuna fram án þess að þurfa að losa úr henni. Hún virtist henta vel sem ílát. Ég hélt aftur út í hríðarkófið, gekk fram með flakinu og undir vænginn á ný. Nú losaði ég lokið og setti fötuna undir. Mér til mikillar gleði lak bensínið í hana á meðan ég hafði tappann skrúfaðan af til hálfs þannig að ekki fossaði út.

Nú átti að vera hægt að kveikja gott bál - fara með fötuna nægilega langt frá vélinni til að skapa ekki íkveikjuhættu og reyna að hita vatn. Við tíndum saman timburkassa og pappakassa. Eldspýtur vorum við með því flestir reyktu. Fötuna höfðum við hlémegin og kveiktum svo í."

Fólki fannst gaman að vera nálægt Bolla, enda var hann léttur í lund. Hann var líka besti kokkurinn í hópnum. Hann var alinn upp á Ísafirði, gamall skáti og íþróttamaður og hafði tileinkað sér orðtakið "hjálpaðu þér sjálfur". Bolli hafði fundið kaffivélina sem nota mátti sem eldstæði. Einnig hafði fundist pottur. En öll "eldamennska" varð strangt tiltekið að fara fram úti - í hríðinni ef því var að skipta.

Guðmundur Sívertsen virtist lagnastur með hundana. "Við skulum endilega taka þennan schäferhund út úr búrinu," sagði hann og benti á Carlo. "Þetta eru vitrir hundar og hann getur hjálpað okkur." Menn urðu nú sammála um að gefa hundinum brauðbita og vatnssopa. En bara honum, engum öðrum. Fólkið varð að ganga fyrir með mat og drykk.

Í matarkassanum sem fundist hafði reyndust vera þrettán brauðsneiðar. Einnig höfðu 24 lítil súkkulaðistykki fundist í töskum, ellefu flöskur af Egils-appelsíni voru í trékassanum aftur í, ein dós af appelsínudjúsi og sykur. Þetta var allt og sumt fyrir sex fullorðna.

Allur vökvi var farinn að frjósa. Glerflöskurnar voru ísjökulkaldar þegar tekið var á þeim. Ef einhver ætlaði að fá sér sopa varð að setja flöskuna inn á sig til að vökvinn þiðnaði.

"Verðum við hér matarlítil svo dögum skiptir? Hvenær slotar veðrinu? Verðum við hér þangað til...? Hvar erum við eiginlega?"

Hugsanir fólksins reikuðu víða.

Ingigerður var orðin þreytt eftir langa daga, svefnlitla nótt, slösuð, svöng og óttaslegin:

"Við héldum okkur vera á Mýrdalsjökli. Strákarnir skrifuðu miða og bundu um hálsinn á schäferhundinum Carlo. Þeir ætluðu að reyna að senda hann af stað til að freista þess að láta fólk niðri í byggð vita um okkur. Aðallega að við værum öll á lífi - en vissum ekki hvar við værum. Við ætluðum að athuga hvort hundurinn gæti ekki bjargað okkur. En hann hreyfði sig ekki, þetta dýr vildi hvergi fara."

...

Ingigerður gat rimpað saman einhvers konar skóbúnaði á félaga sína. Hún var að niðurlotum komin eftir strangan og kvalafullan dag:

"Við höfðum hundana sem eftir lifðu í skotinu aftast í vélinni til að halda á okkur hita. Þeir höfðu átt þátt í að halda í okkur lífinu þótt stækjan af þeim væri óskapleg og sultarýlfrið skerandi."

Föstudagurinn 15. september var að kvöldi kominn. Áhöfnin á Geysi lagðist fyrir klukkan átta - áður en myrkrið skall á. Öll voru þau örþreytt, svöng og þyrst. Flest fundu þau til sársauka en þó mismikils. Dagfinnur hafði legið fyrir og sofið nær allan daginn.

Í Gæsavötnum var átta manna leiðangur úr Reykjavík veðurtepptur. Á öðrum stað á hálendinu, við Kverká, tjaldaði hópur Norðlendinga í skjóli við bíl. Menn höfðu háttað sig niður í svefnpoka eftir að kvöldsálmur var sunginn. Vindhviður og krapadembur léku óveðurstónlist á tjalddúknum. Leiðangursmenn höfðu í útvarpsviðtækinu heyrt að Geysis væri saknað. Þeir vissu ekki, frekar en aðrir, að vélin hafði brotlent á Vatnajökli kvöldið áður. Í næsta nágrenni við þá.

Þetta föstudagskvöld bað fólk á flestum heimilum á Íslandi þess að áhöfn Geysis væri á lífi. Flestir töldu þó líklegast að fólkið hefði farist, sennilega í sjónum áður en komið var að Vestmannaeyjum.

Ritstjórar Morgunblaðsins stóðu í þeirri trú. Þennan dag höfðu þeir ritað forystugrein sem til stóð að birta daginn eftir, í laugardagsblaðinu:

"Sá sorglegi atburður hefur nú gerst, að ein af millilandaflugvélum okkar Íslendinga hefur farist með sex manna áhöfn.

Öll þjóðin harmar þennan atburð og sendir venzlamönnum hins unga flugfólks, sem fór þessa síðustu ferð Geysis, innilegar samúðarkveðjur...

Íslenska þjóðin harmar örlög Geysis og áhafnar hans. En ef þau verða til þess að hvetja til enn aukinnar varúðar og öryggis í flugmálum okkar, þá er hins unga flugfólks að nokkru minnzt."

Morgunblaðið var nú komið í prentun með þessum texta, svo og Þjóðviljinn og Tíminn. Í öllum blöðunum var sagt frá því að leit sem spannaði 95 þúsund ferkílómetra svæði á landi og sjó, næstum jafnstórt svæði og Ísland allt, hefði verið árangurslaus með öllu. Ugg setti að fólki - fyrst vélin finnst ekki eftir þessa umfangsmiklu leit - hvar er hún þá? Sennilega á hafsbotni."

...

Kominn var laugardagur 17. september. Á heimili Ingigerðar Karlsdóttur flugfreyju hafði foreldrum hennar, þeim Þóru Ágústsdóttur og Karli Óskari Jónssyni, ekki orðið svefnsamt. Þau gátu ekki hætt að hugsa um dóttur sína. Hvar hún væri og hvort hún væri lifandi.

Ingigerður átti uppblásna önd sem faðir hennar hafði eitt sinn gefið henni. Öndina hafði Ingigerður sem skraut á gólfinu í herbergi sínu. Þennan morgun hafði Karl farið snemma á fætur og einhverra hluta vegna komið auga á öndina.

Eftir nokkra stund kom Karl til Þóru og sagði:

"Heyrðu Þóra, hún Inga okkar er farin!"

"Hva, af hverju segirðu þetta? Ég er alveg viss um að hún Inga fær að lifa lengur!"

"Nei, öndin hennar er farin á hliðina inni í herbergi hjá henni."

"Hvaða vitleysa er þetta, Kalli minn? Ég er alveg sannfærð...við skulum ekki halda þetta út af öndinni. Við skulum halda áfram að trúa því að dóttir okkar sé lifandi."

Vonir Hjalta, unnusta Ingigerðar, um að hann sæi kærustu sína aftur á lífi voru farnar að dvína. Hann óttaðist að hún fyndist jafnvel aldrei. Hjalti var ekki ókunnugur dauðanum. Hann hafði verið sex ár við nám í Chicago í Bandaríkjunum. Í ágúst 1943, þegar heimsstyrjöldin hafði verið í algleymingi, fór hann með skipi vestur um haf í skipalest. Þá horfði hann nokkrum sinnum á samferðaskip skotin niður. Í eitt skiptið sá hann kanadískan tundurspilli skotinn niður í um 200 metra fjarlægð - herskipið varð logandi sprengivíti þar sem tugir manna stukku í ískalt Atlantshafið - fyrir augum hans. Þá hafði hann fundið sterkt til vanmáttar síns og þess hve smár maðurinn er gagnvart svo skelfilegum atburðum.

Dagfinnur Stefánsson var að vakna í fleti sínu í frostköldu flaki Geysis. Hann hafði nú sofið meira og minna í tæpan hálfan annan sólarhring, að undanskilinni stund þegar búið var um sár hans daginn áður. Er hann loks vaknaði fannst Einari félaga hans hann minna helst á skógarbjörn að vakna af dvala. En heldur var hann ótótlegur, með blóðuga plástra við munn og nef. Hægra augnalokið var mjög sigið og mar við brotin kinnbein. Dagfinnur virtist þó vera að jafna sig. Einar dáðist að æðruleysi hans og karlmennsku.

Þegar Geysisfólkið leit út um morguninn var skafrenningur. "Það sama áfram," hugsaði Dagfinnur og minntist þess er hann horfði út skamma stund daginn áður. Ekkert skyggni, engin von til að fá nokkra hugmynd um hvar þau væru niðurkomin. Ekki var á það hættandi að ganga af stað:

"...Það var alveg sama í hvaða átt maður rýndi - engin kennileiti var að sjá. Hvergi dökkur díll svo orð væri á gerandi. Nú sem áður fannst mér eins og menn væru að koma til okkar utan úr sortanum. Þetta voru tálsýnir."

Ákveðið var að reyna að nota daginn til að útbúa hlífðarföt vegna væntanlegrar brottferðar sem varla yrði fyrr en daginn eftir, á sunnudag. Þarna voru stórir strangar af prýðilegu ullarefni. Eins konar sokkar voru útbúnir, bundnir eða saumaðir, vettlingar og renningar til að vefja um fætur. Félagarnir höfðu fundið nál og tvinna í einni ferðatöskunni sem átti að fara vestur um haf. ...

Hendur Ingigerðar voru bláar af kulda þar sem hún sat við sauma. Hundarnir geltu og spangóluðu. Þeir voru orðnir mjög órólegir. Svangir. Nánast það eina sem hundur hugsar í stöðu sem þessari er að fá eitthvað að éta og drekka. En slíkt var ekki á boðstólum hér, nema kannski einhver vökvi.

Nú var mikið farið að ræða um að ef ekki tækist að finna út staðsetningu vélarinnar og fólkið neyddist til að halda kyrru fyrir í henni - þá væri rétt að aflífa hundana. Miklu nær væri að gera slíkt en að láta þá drepast þarna úr sulti. Hægt yrði að geyma þá í hjarninu til matar. Þetta yrði léleg fæða en matur engu að síður. Beðið var með að taka ákvörðun að sinni.

Einar tók þátt í umræðunum um örlög hundanna:

"Við vorum farin að gjóa augum á hundana - ræða hvernig kjötið af þeim væri á bragðið ef til þess kæmi. Vissulega gaf þetta von til að halda lífi lengur ef skyggnið yfir jöklinum batnaði ekki.

Ég vissi að við urðum að vera undir það búin að láta eins mikið á okkur bera og mögulegt var. Í slíkum tilfellum er ekkert betra en bensíneldur því hann reykir rosalega - gerir svarta bólstra. Mér fannst heldur ekki ólíklegt að hann gæti jafnvel stigið upp í gegnum ský ef svo bæri undir. En bálið varð að loga eins lengi og mögulegt var því ef flugvél kæmi eða í henni heyrðist fyrir ofan var of seint að fara að kynda þegar hún flygi yfir. Bensín varð því að vera í fötunni með loga í og við myndum svo skvetta meiru á þegar heyrðist í vél - reyna að mynda reykský. Ég ákvað að hafa nú alltaf bensín í fötunni og fylgdist vel með."

...

Hvar sem fólk á Íslandi kom saman var fyrsta umræðuefnið yfirleitt Geysir: á götuhornum, í verslunum, á vinnustöðum, heimilum og í skólum. Á Hofteigi var Guðný Magnúsdóttir, þriggja ára dóttir flugstjórans, úti að leika sér. Agnete, móðir hennar, lá í rúminu en nú var sú stutta að koma inn. Hún átti erindi við mömmu:

"Dóttir mín gekk til mín þar sem ég lá í rúminu. Hún horfði á mig og sagði:

"Af hverju eru krakkarnir að segja að pabbi sé dáinn?"

Börnin úti höfðu greinilega verið að segja við Guðnýju litlu að pabbi hennar væri dáinn. Ég var ekki búin að afskrifa áhöfn Geysis - eða hafði ekki haft kjark til að segja barninu frá því sem var að gerast. Aldrei hafði ég heyrt um að fólk lifði flugslys af.""

Útkall - Geysir er horfinn eftir Óttar Sveinsson kemur út hjá Stöng. Bókin er 222 síður að lengd.