Trezza Azzopardi, Mál og menning 2002, 264 bls, Vilborg Davíðsdóttir þýddi.

Mikil er mannanna grimmd og miskunnarleysi örbirgðarinnar lítil takmörk sett. Þær fengu heldur betur að finna fyrir því Cauci-systurnar sem þessi saga segir frá. Faðir þeirra er spilasjúkur innflytjandi frá Möltu og fjölskyldan býr í Wales á sjöunda áratugnum þar sem systurnar alast upp við skefjalaust ofbeldi, óreglu og fátækt sem setur mark sitt á þær fyrir lífstíð. Slys og hjátrú eru einnig partur af örlagaglettum þeim sem leika þær grátt.

Við fylgjumst með þessari ógæfusömu fjölskyldu í gegnum augu og hugsanir yngsta systurinnar Dolores, sem á fullorðinsaldri kemur til baka og rifjar upp æskuna allt aftur til þess þegar hún var mánaðargömul. Vissulega er mjög sérstakt að lýsa atburði út frá sjónarhóli svo ungs barns en því stílbragði beitir Trezza Azzopardi framarlega í bókinni og það gengur fyllilega upp hjá þessari bresku og ungu konu sem er mikill stílsnillingur. Henni tekst á átakalausan hátt að læðast inn í sálarlíf persóna í bókinni og hún setur hlutina í óvænt samhengi sem verður til þess að lesandinn upplifir á sérstakan og sterkan hátt hvernig viðkomandi líður, t.d. þegar "hávaði skrapast utan í hugsanir...og orð streyma upp eftir hrygglengjunni".

Hún flakkar um í tíma og rúmi og stundum hoppar hún nokkrum sinnum á milli tveggja atriða sem eiga sér stað samtímis. Þetta tekst henni að gera á svo myndrænan hátt að atburðir og fólk stíga ljóslifandi upp af blaðsíðunum og lesandanum líður eins og hann sé að horfa á kvikmynd. Næmleiki Trezzu Azzopardi fyrir smáatriðum er af þeim toga að stemmning og umhverfi skila sér vel og stundum læðist lykt að vitum. Eins tekst henni að gera sársauka svo myndrænan að hann verður nánast áþreifanlegur.

Eftir situr hugsun um margslungið mannlegt eðli og hversu hæpið getur verið að treysta minningum. Kannski finnst okkur að við höfum upplifað það sem okkur var sagt um sjálf okkur og tvær manneskjur muna sama atburðinn stundum á mjög ólíkan hátt. Auk þess höfum við stundum lagt vitlaust saman í fortíðarminningum og sitjum uppi með niðurstöðu sem við höldum vera staðreynd.

Við lestur þessarar bókar verður ljóst hversu miklu skiptir hvernig sagt er frá og ekki síður hvernig tekst til með þýðinguna en þar hefur Vilborg Davíðsdóttir greinilega ekki kastað til höndunum þar sem lipurleiki og fjölbreyttur orðaforði ráða ríkjum.

Felustaðurinn er áhrifamikil og sérlega vel skrifuð bók. Engan skyldi undra að hún hafi verið tilnefnd til Booker-verðlaunanna því hæfileikar Trezzu Azzopardi skila sér vel í þessari fyrstu bók hennar.

Kristín Heiða Kristinsdóttir