"MÉR líst nokkuð vel á það sem ég hef séð í leikjunum við Slóvena. Það er þó greinilegt að eitt og annað vantar ennþá vegna meiðsla nokkurra leikmann," sagði Júlíus Jónasson, þjálfari ÍR og þrautreyndur landsliðsmaður í handknattleik, er hann var spurður að því hvernig honum litist á það sem hann hefði séð í tveimur fyrstu æfingaleikjum íslenska landsliðsins fyrir HM gegn Slóveníu á laugardag og sunnudag.

Varnarleikurinn gekk betur eftir því sem á leið fyrri leikinn og þá fjölgaði hraðaupphlaupunum um leið. Sóknarleikurinn í fyrsta leiknum var að mínu mati góður og þar kom í ljós að liðið er mjög vel undir það búið að leika gegn 3/2/1 vörn, en mest áhersla hefur verið lögð á það í undirbúningnum nú fyrst til að byrja með. Leikkerfin gengu mjög vel gegn framliggjandi vörn.

Í leiknum á sunnudagskvöldið fannst mér sóknarleikur íslenska liðsins hiksta talsvert gegn flatri 6/0 vörn Slóvena. Það gerist sennilega vegna þess að menn eru enn sem komið er ekki eins vel undir það búnir að leika gegn flatri vörn. Það atriði á hins vegar alveg örugglega eftir að batna þegar á líður undirbúninginn fyrir HM og menn fara að vinna í því atriði," sagði Júlíus.

Róbert og Sigurður sterkir

Júlíus sagði ennfremur að ljósu punktarnir í leikmannahópnum væru Róbert Sighvatsson sem leikið hafi afar vel og nýtt sín færi alveg framúrskarandi vel, Sigurður Bjarnason hafi verið afar traustur, ekki bara í vörn heldur einnig í sókninni þar sem hann hefur ekki fengið mörg tækifæri með landsliðinu síðustu ár.

"Vörnin á bara eftir að styrkjast að mínu mati. Það er alveg ljóst að þegar Sigfús [Sigurðsson] kemur inn í hana mun hún batna mikið, um leið fær liðið mun fleiri hraðaupphlaup," sagði Júlíus.

Lítið er um afgerandi rétthentar skyttur í íslenskum handknattleik í dag og hörgull á þeim í landsliðinu þar sem leikstjórnendurnir Dagur Sigurðsson og Patrekur Jóhannesson verða að leysa það hlutverk. Júlíus segir upp koma einkar sérstaka stöðu í íslenskum handknattleik því í gegnum tíðina hafi alltaf verið til sterkar rétthentar skyttur. "Nú er staðan sú að hörgull er á rétthentum skyttum og þegar litið er yfir þann hóp ungra manna sem eiga eftir að banka á dyr landsliðsins á næstu árum þá kemur í ljós að það er mun meira til af örvhentum skyttum en rétthentum. Það gæti því orðið nokkur höfuðverkur þegar fram líða stundir en eins og staðan er á þessu augnabliki þá tel ég að ekki sé um stórvandamál að ræða," segir Júlíus sem hrífst ekki af þeirri hugmynd að fá Julian Róbert Duranona inn í landsliðshópinn fyrir HM.

Of seint að fá Duranona

"Mér finnst einfaldlega oft seint að kalla Julian til leiks núna og setja hann í leik landsliðsins. Í öðru lagi þá er ég ekkert endilega viss um að hann sé í svo góðri leikæfingu þótt hann hafi staðið sig vel í tveimur leikjum með Wetzlar í þýsku deildinni um jólin," segir Júlíus og reiknar með að Dagur, Sigurður og Patrekur beri hitann og þungann af skyttustöðunni vinstramegin á meðan heimsmeistaramótið stendur yfir.

Júlíus telur ennfremur að markvarslan verði ekki íslenska landsliðinu fjötur um fót þegar komið verður til Portúgals. Hún batni með bættri vörn. "Það voru tiltölulega einföld atriði að bregðast í vörninni sem ég held að ekki eigi að vera mikið mál að laga. Um leið þá batnar markvarslan og ég sé ekki að hún eigi að verða vandamál þegar á hólminn verður komið."

Hægra hornið hefur lítið verið nýtt í tveimur fyrstu landsleikjunum, nær því ekkert hefur verið leikið upp á Einar Örn Jónsson sem virðist ætla að verða aðalkostur Guðmundur Þ. Guðmundssonar, landsliðsþjálfara, í þeirri stöðu líkt og á EM í fyrra. Júlíus tekur undir þá skoðun að Ólafur hafi leikið of mikið inn á miðjuna og því hafi Einar fengið úr of litlu að moða. "Ólafur hefur hins vegar sýnt það að hann á afar auðvelt með að spila upp hægri hornamanninn og því á ekkert að vera því til fyrirstöðu að hann haldi því áfram þótt svo hafi ekki verið til þessa," sagði Júlíus Jónasson, þjálfari ÍR.

Ef marka má tvo fyrstu leikina þá sagðist Júlíus ekki sjá nein sérstök atriði í leik landsliðsins sem hann teldi ástæður til að hafa áhyggjur af. Það sem miður hafi farið væri hægt að bæta með markvissri vinnu á næstu vikum. "Hið jákvæða er hins vegar það hversu vel liðið getur leikið gegn framliggjandi vörn en það hefur á stundum reynst erfitt."

Eftir Ívar Benediktsson