SUÐUR-kóresk sendinefnd hóf í gær viðræður við bandaríska og japanska embættismenn í Washington með það fyrir augum að reyna að finna lausn á deilunni um kjarnorkuáætlanir Norður-Kóremanna.

SUÐUR-kóresk sendinefnd hóf í gær viðræður við bandaríska og japanska embættismenn í Washington með það fyrir augum að reyna að finna lausn á deilunni um kjarnorkuáætlanir Norður-Kóremanna. Áttu S-Kóreumenn einnig viðræður um það við rússneska ráðamenn síðastliðinn laugardag.

Kjarninn í tillögu S-Kóreustjórnar er, að Bandaríkjastjórn taki aftur upp olíuflutninga til Norður-Kóreu gegn því, að stjórnvöld í Pyongyang standi við áður gerða samninga um kjarnorkumálin. Þá er einnig ætlast til, að Bandaríkjastjórn ábyrgist gagnvart N-Kóreu, að ekki verði ráðist á kjarnorkumannvirki í landinu. Hafa ýmsir talsmenn bandarískra demókrata hvatt George W. Bush forseta til að skoða þessar tillögur af fullri alvöru.

Fulltrúi stjórnvalda í Suður-Kóreu, Kim Hang-kyung, átti einnig viðræður við rússneska ráðamenn í Moskvu á laugardag um leiðir til að leysa deiluna um kjarnorkuvopnatilraunir Norður-Kóreumanna. Hitti Kim m.a. Alexander Losjúkov sem er helsti sérfræðingur Rússa í málefnum Asíuríkja.

Brutu samninginn frá 1994

Norður-Kóreumenn lýstu í haust yfir því að þeir væru enn að reyna að smíða kjarnorkuvopn þótt þeir hétu því er þeir gerðu samning við Bandaríkjamenn árið 1994 að leggja af slíkar tilraunir.

Einnig ætla N-Kóreumenn að hefja aftur rekstur tilraunastöðvar í Yongbyon þar sem sérfræðingar telja mögulegt að þeir geti framleitt efni í kjarnorkusprengjur. Rússar hafa þó látið í ljós efasemdir um að N-Kóreumenn hafi raunverulega getu til þess og segja að um blekkingar sé að ræða.

Losjúkov sagði í gær að eining hefði verið um að halda áfram að vinna að því að fá deiluaðila til að setjast að samningaborðinu.

Bandaríkjamenn, sem hafa öflugt herlið í Suður-Kóreu við landamærin að Norður-Kóreu, krefjast þess að N-Kórea hætti tilraununum áður en beinar viðræður hefjist milli ríkjanna tveggja. Bandaríkjamenn hafa lagt til að beitt verði alþjóðlegum viðskiptarefsingum til að þvinga kommúnistastjórnina í norðri til að hætta kjarnorkutilraununum.

Efnahagur N-Kóreu er á vonarvöl, á undanförnum árum hafa hundruð þúsunda manna fallið þar úr hungri og harðstjórn í landinu er grimmdarlegri en víðast annars staðar á byggðu bóli. Herinn er hins vegar stór og vel búinn vopnum.

Alþjóðakjarnorkumálastofnunin í Vín gaf í gær N-Kóreustjórn síðasta tækifærið til að standa við gerða samninga en tilgreindi þó ekki fyrir hvaða tíma hún yrði að gera það.

Washington. AP, AFP.