HEILBIGÐISRÁÐUNEYTIÐ tilkynnti í gær hækkanir á hlutdeild sjúklinga í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu frá 15. janúar næstkomandi. Þetta þýðir að hlutur sjúklinga í komugjöldum í heilbrigðisþjónustunni mun hækka úr 50 í 500 krónur.

HEILBIGÐISRÁÐUNEYTIÐ tilkynnti í gær hækkanir á hlutdeild sjúklinga í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu frá 15. janúar næstkomandi. Þetta þýðir að hlutur sjúklinga í komugjöldum í heilbrigðisþjónustunni mun hækka úr 50 í 500 krónur. Áætlaðar tekjur ríkissjóðs vegna hækkananna eru 83 milljónir króna á ári.

Með breytingunum hækkar almennt komugjald á heilsugæslustöð úr 400 krónum í 500 krónur, gjald fyrir lífeyrisþega og börn hækkar úr 200 krónum í 250 krónur og gjald fyrir börn með umönnunarkort hækkar úr 100 krónum í 150 krónur. Almennt gjald fyrir komu á heilsugæslustöð utan dagvinnutíma hækkar úr 1.100 krónum í 1.140 krónur, sambærilegt gjald fyrir lífeyrisþega og börn hækkar úr 500 krónum í 600 krónur en gjald fyrir börn með umönnunarkort verður óbreytt eða 300 krónur.

Kostnaður sjúklinga vegna þjónustu sérfræðinga hækkar einnig eftir 15. janúar en þá mun gjald fyrir viðtal og skoðun hjá barnalækni hækka úr 938 krónum í 1.127 krónur. Sé barnið með afsláttarkort hækkar gjaldið úr 275 krónum í 350 krónur og hið sama gildir sé barnið með umönnunarkort.

Sé tekið dæmi af heimsókn til almenns lyflæknis sem felur í sér viðtal, skoðun og hjartalínurit hækkar gjald almennra sjúklinga úr 2.978 krónum í 3.340 krónur. Sé sjúklingurinn með afsláttarkort hækkar gjaldið úr 1.106 krónum í 1.287 krónur.

Ekki í takt við annað verðlag

Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ, segir hækkanirnar koma sér í opna skjöldu. "Við áttum alls ekki von á að horfa upp á hækkanir í heilbrigðiskerfinu og síst af öllu af þessari stærðargráðu, því þetta virðist vera svona 20-30 prósent."

Hann segir hækkanirnar úr takt við aðgerðir verkalýðshreyfingarinnar og stjórnvalda í fyrra til að tryggja stöðugleika auk þess sem þær stingi í stúf við umræðu um velferðarkerfið og fátækt í samfélaginu. "Auðvitað er hluti af því fólki, sem á hvað bágast í okkar samfélagi, sjúklingar sem verða þarna fyrir enn frekari hækkunum á nauðsynlegri þjónustu," segir hann.

Þá segir hann að þessar hækkanir nú séu að hluta til hækkanir sem voru dregnar til baka í fyrra í því augnamiði að halda rauða strikinu svokallaða. "Okkur er fullljóst að það er ekki verðstöðvun í landinu en það breytir því ekki að við sjáum ekki að þessar hækkanir, sem hafa dunið á okkur síðustu vikurnar og eru enn að koma fram, séu í takt við annað verðlag. Þær eru ekki í takt við breytingar á launum, a.m.k. á almennum vinnumarkaði, og ekki í takt við verðbólguna. Við erum í öllu falli ákaflega ósátt við þessa þróun."

Ákveðið í fjárlögum í desember

Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra segir að hækkanirnar hafi í raun verið ákveðnar í fjárlögum sem samþykkt voru á Alþingi í desember og því ættu þær ekki að koma neinum á óvart. "Það var gerð grein fyrir því í athugasemdum fjárlaga að þetta væri ein af forsendunum fyrir því að ná heilbrigðiskaflanum saman," segir hann.

Hann bendir á að komugjöldin í heilsugæslunni séu jafnhá núna og þau voru árið 2001. "Þá má geta þess að komugjöldin fyrir börn, aldraða og öryrkja eru miklu lægri en fyrir aðra auk þess sem við höfum í gildi reglugerð um endurgreiðslur til þeirra sem eru undir tekjumörkum."

Hann segir hækkanirnar nú aðeins brot af þeim hækkunum sem voru í farvatninu í fyrra og óttast ekki að þær muni ógna stöðugleikanum. "Ég lét sérstaklega fara yfir það áður en ég gaf út reglugerðina og að mati þeirra sem um það fjölluðu á það ekki að vera."

Lækniskostnaður stóraukist á árunum 1990 til 2001

Í ályktun BSRB um málið segir að samtökin mótmæli hækkununum. "Í ítarlegri úttekt, sem BSRB gekkst fyrir á útgjöldum sjúklinga vegna veikinda, kom fram að lyfjakostnaður, komugjöld og annar lækniskostnaður hafði stóraukist á árunum 1990 til 2001. Í mörgum tilvikum hafði kostnaðurinn margfaldast. Þetta er alvarleg þróun, ekki síst í ljósi þess að athuganir hafa sýnt að efnalítið fólk veigrar sér við að leita sér lækninga og getur ekki keypt sér nauðsynleg lyf vegna peningaleysis. BSRB hefur lagt áherslu á að vinda þyrfti ofan af þessum kostnaði sjúklinga en ekki viðhalda honum eða auka hann eins og nú er gert," segir í ályktuninni.