Guðjón Arngrímsson
Guðjón Arngrímsson
ÞAÐ ER erfitt fyrir flugfélag að hafna fullyrðingum farþega um að þeir hafi orðið mjög hræddir vegna atvika sem koma upp í flugi og að ekki hafi verið veittar nægar upplýsingar.

ÞAÐ ER erfitt fyrir flugfélag að hafna fullyrðingum farþega um að þeir hafi orðið mjög hræddir vegna atvika sem koma upp í flugi og að ekki hafi verið veittar nægar upplýsingar. Fólk verður ávallt hrætt ef eitthvað ber út af í flugi en fyrsta skylda flugáhafnar er að einbeita sér að því að bregðast við vandanum og lenda vélinni, allt annað hlýtur að víkja meðan unnið er að því. Þetta grunnatriði vill stundum falla í skuggann af fréttum um skelfilega lífsreynslu farþeganna," segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Flugleiða, þegar hann er spurður um flugatvikið við Malaga.

Talað fjórum sinnum við farþegana

Guðjón segir að farþegarnir með Flugleiðavélinni hafi fengið góðar upplýsingar. "Hægri hreyfill vélarinnar bilaði skömmu eftir flugtak. Flugstjórinn stöðvaði hreyfilinn, sneri vélinni við og flaug inn til lendingar. Við bilunina heyrðist hvellur og glampar sáust úr farþegarýminu. Á þeim tólf til fimmtán mínútum sem þetta flug tók gaf áhöfnin fjórum sinnum upplýsingar um það sem gerðist. Flugstjórinn og fyrsta flugfreyja skýrðu farþegum frá því að hreyfill hefði bilað, að slökkt hefði verið á honum, að ekkert væri að óttast, að snúið yrði inn til lendingar í Malaga og beðist væri velvirðingar á þessum óþægindum."

Guðjón leggur áherslu á að þegar frávik eins og þetta verði skömmu eftir flugtak sé öryggi flugsins algjört forgangsatriði áhafnarinnar. Hún styðjist við vinnureglur, þjálfun og reynslu til að koma í veg fyrir að hætta skapist. "Við viljum held ég öll að þessi forgangsröð sé einmitt þannig, þótt það sé einnig mikilvægt að upplýsa farþega um það sem er að gerast. Krafan um upplýsingagjöf má þó aldrei trufla vinnu áhafnar við að tryggja öryggið. Við viljum fremur fá á okkur gagnrýni fyrir skort á upplýsingum en fyrir skort á öryggi."

Guðjón segir að atvikið verði ekki rannsakað sérstaklega og þarna hafi ekki verið um nauðlendingu að ræða. "Flugstjórarnir slökktu einfaldlega á öðrum hreyflinum þegar eldur kom upp og lentu á hinum. Þegar búið var að skoða vélina var henni flogið heim á báðum hreyflum þannig að það var nú ekki meira að en það."

Aðspurður hvort flugfreyjur eigi að setjast í sæti og spenna öryggisbelti við aðstæður sem þessar segir Guðjón svo vera, það sé hluti af öryggisreglum. "Ef ástandið er metið þannig geta þær gengið um og róað farþega. En reglurnar eru mjög einfaldar; þar til flugstjórinn gefur merki um annað eiga flugfreyjur að halda kyrru fyrir í sætum sínum eins og aðrir. Það er einfaldlega verið að hugsa um líf og limi þeirra eins og farþeganna."

Guðjón segist engan veginn vilja gera lítið úr ótta fólks: "Það hafa verið nefndar tölur um að í venjulegu flugi eigi á milli 10 og 20% farþega við umtalsverða flughræðslu að stríða og þegar eitthvað bregður út af hækkar sú prósentutala hratt."

Guðjón segir að Flugleiðir telji sig hafa staðið vel að málum við að koma fólki á hótel og síðan heim. "En það er ómögulegt að fara út í opinber skoðanaskipti við farþega um slíkt, jafnvel þótt viðkomandi farþegi hafi augljóslega einhverja sérshagsmuni að leiðarljósi. Það er því mjög snúið mál þegar birtast æsifregnir í fjölmiðlum eins og í þessu tilviki. Við höfum farið yfir þessi mál með okkar fólki og við getum ekki séð að það hafi staðið sig illa."