Ég var sem sagt með eindæmum myrkfælið barn og er reyndar enn ekki svo svöl í skammdeginu. En á sama tíma og ég er sjúklega myrkfælin hef ég alla tíð verið álíka sjúk í hryllingsmyndir.

Dimmur og þröngur gangur. Óhugnanleg hljóð og hvísl úr öllum áttum. Hún hleypur um í örvæntingu og reynir að finna leið út. Skúffurnar á veggjunum í kringum hana opnast ein af annarri. Upp úr þeim rís fólk, eða nei, þetta er ekki fólk, heldur rotnandi lík, þeirra á meðal kona í brúðarkjól með ungabarn í fanginu. Slörið fellur yfir höfuðkúpu með þurrkuðum skinntægjum og galtómum augntóftum.

Á milli útglenntra fingranna stari ég ellefu ára gömul á sjónvarpsskjáinn og finn hjartað hamast í brjóstinu. Þori ekki að horfa. Þori samt ekki fyrir mitt litla líf að missa af neinu. Í kringum mig sitja bekkjarsysturnar og eru flestar svalari en ég en súpa hveljur þegar söguhetja myndarinnar berst við rotnandi líkin og virðist vera að láta í minni pokann fyrir viðbjóðnum.

Enn þann dag í dag, átján árum síðar, get ég næstum rakið í smáatriðum söguþráð þessarar andstyggilegu hryllingsmyndar sem ég sá í ellefu ára afmæli bekkjarsystur minnar. Hvernig stúlka sem vildi ganga í systrareglu í bandarískum háskóla þurfti að ganga í gegnum þá þolraun að gista eina nótt í líkhúsi sem var nú líflegra en búast mátti við. Andvökunætur mínar í kjölfarið voru ófáar og satt best að segja finnst mér ennþá óþægilegt að rifja þetta upp. Ég man ekki hvað myndin heitir enda skiptir það ekki máli. En ég get fullyrt að þarna var á ferðinni sú mynd kvikmyndasögunnar sem mest áhrif hefur haft á mig. Það þarf ekki að fjölyrða um ábyrgðarleysi foreldranna sem leyfðu okkur stelpunum að horfa á óhugnaðinn en staðreyndin er sú að ég var myrkfælin fyrir og sá veikleiki þúsundfaldaðist eftir að ég sá kvikmyndina um stúlkugreyið í líkhúsinu.

Nokkrum árum seinna eignaðist ég kött. Sá er reyndar enn í fullu fjöri en sömu sögu er ekki hægt að segja um hamsturinn minn sem týndi lífinu langt fyrir aldur fram. Eitt kvöld þegar ég var þrettán ára gömul var ég nefnilega svo upptekin við að horfa á framliðna áhöfn Draugaskipsins reyna að tortíma forvitnum aðkomumönnum að ég heyrði ekki hamstursvesalinginn há baráttu upp á líf og dauða við köttinn í næsta herbergi. Kisi hafði að lokum betur og klippti hausinn af nagdýrinu á meðan gestir Draugaskipsins báru sigur úr býtum yfir kolgeggjaðri en steindauðri áhöfninni.

Ég var sem sagt með eindæmum myrkfælið barn og er reyndar enn ekki svo svöl í skammdeginu. En á sama tíma og ég er sjúklega myrkfælin hef ég alla tíð verið álíka sjúk í hryllingsmyndir. Ég sótti sérstaklega í að horfa á slíkar myndir en efast um að foreldrar mínir hafi vitað af þessari þráhyggju. Ég var svo langt leidd að ég fann adrenalínið spýtast um æðarnar bara við tilhugsunina um öfgakenndan og óraunsæjan hryllinginn sem finna mátti á myndbandaleigum, verða vitni að í kvikmyndahúsum eða var á dagskrá sjónvarpsins á árum áður. Ég hef því átt mínar mestu spennustundir stjörf af hræðslu fyrir framan sjónvarpsskjá en um leið hafa þessar sömu stundir markað óafturkræf spor á sálartetrið. Af augljósum ástæðum er ég því fylgjandi ströngu kvikmyndaeftirliti og að forráðamenn leyfi börnum ekki að horfa á hvað sem er. Ástæðan er ekki síst sú að ég held að enn í dag hafi ég ekki beðið þess bætur að hafa ung að árum t.d. horft á Rauðhærðu afturgönguna eða söguna um Djáknann á Myrká. Þulur sjónvarpsins vöruðu vissulega við því að myndirnar væru ekki við hæfi viðkvæmra eða ungra barna en hvorugum hópnum vildi ég nú nokkurn tíma tilheyra. Starfsheitið djákni er líka í mínum huga brennt þjóðsögunni um þann eina sanna, sem unni Garúnu, jafnt lífs sem liðinn.

Hinn heiftúðugi hundur Cujo, Freddy vinur minn Krueger, Carrie, árásargjarni bíllinn Christine, andsetna stúlkan í Exorcist og fleiri óvandaðir einstaklingar eru því enn góðkunningjar mínir þó að áratugur og nokkur ár til séu síðan ég leit þau síðast augum. Ég hætti sem betur fer að horfa á hryllingsmyndir þegar ég komst til vits og ára. Ekki vegna þess að mig skorti áhuga, því fer víðsfjarri, heldur fór ég smám saman að gera mér grein fyrir því að það væri hvorki hollt fyrir mig né mína nánustu sem þurftu að vakna upp af værum svefni á næturnar þegar ég þóttist skelfingu lostin sjá hina og þessa söguhetjuna vitja mín í myrkrinu. Ég hef því ekki enn séð vinsælar kvikmyndir á borð við Sixth Sense og The Others og það þurfti meira að segja að tala mig inn á að sjá Ghost á sínum tíma því nafnið lofaði nú ekki góðu.

En svo er ég í bíói um daginn. Var búin að planta mér í sætið og beið spennt eftir Reese Witherspoon og Josh Lucas knúsast í Sweet Home Alabama þegar sýnishorn úr mynd sem fjallar um ryðgað skemmtiferðaskip er siglir stjórnlaust um hafið með steindauða áhöfn innanborðs fyllir salinn með tilheyrandi tónlist og óhljóðum. Ég stari stórum augum á tjaldið og spennan færist yfir mig. Ætti ég... ætti ég að skella mér í bíó og sjá endurgerð Draugaskipsins? Það getur varla sakað... ég er nú orðin stór stelpa. En á leiðinni heim um kvöldið kemur yfir mig óþægileg tilfinning. Áhöfn Draugaskipsins gæti átt eftir að heimsækja mig, er það ekki? Því hef ég nú tekið þá skynsamlegu ákvörðun að fresta öllum skipsferðum næsta áratuginn eða svo en minnast þess í stað lítils og loðins vinar míns sem kvaddi þennan heim kvöldið sem ég var síðast um borð í Draugaskipinu.

Eftir Sunnu Ósk Logadóttur sunna@mbl.is