Gilið á Akureyri er mjög varasamt í hálku eins og ökumaður þessa bíls fékk að reyna um helgina.
Gilið á Akureyri er mjög varasamt í hálku eins og ökumaður þessa bíls fékk að reyna um helgina.
LÚMSK hálka hefur verið á götum Akureyrar í blíðviðrinu undanfarna daga. Ökumenn hafa ekki farið varhluta af því, enda nokkuð verið um umferðaróhöpp.

LÚMSK hálka hefur verið á götum Akureyrar í blíðviðrinu undanfarna daga. Ökumenn hafa ekki farið varhluta af því, enda nokkuð verið um umferðaróhöpp. Grófargilið er sérstaklega varasamt við þessar aðstæður og að minnsta kosti tveir ökumenn hafa lent í vandræðum þar síðustu daga. Skömmu eftir miðnætti aðfararnótt sunnudags skall hurð nærri hælum er ökumaður missti vald á bíl sínum í Gilinu þannig að hún stakkst fram af kantinum í beygjunni á móts við Myndlistarskólann. Aðstoð dráttarbíls þurfti til að koma bílnum af stað aftur og reyndist hann lítið skemmdur. Á gamlársdag fór fólksbíll sömu leið í Gilinu en í því tilfelli slapp ökumaðurinn einnig með skrekkinn.

Mikið um rúðubrot í bænum

Töluvert hefur verið um rúðubrot í grunnskólum bæjarins að undanförnu og þá hafa óprútnir menn verið að gera sig heimakomna í geymslum fjölbýlishúsa. Fimm rúður voru brotnar í Lundarskóla, tvær rúður í Brekkuskóla og þrjár rúður í Síðuskóla, auk þess sem þar voru níu útiljós skemmd og m.a. kveikt í einu þeirra. Þá var rúða brotin í versluninni Sirku og einnig í Sundlaug Akureyrar.