LÚMSK hálka hefur verið á götum Akureyrar í blíðviðrinu undanfarna daga. Ökumenn hafa ekki farið varhluta af því, enda nokkuð verið um umferðaróhöpp. Grófargilið er sérstaklega varasamt við þessar aðstæður og að minnsta kosti tveir ökumenn hafa lent í vandræðum þar síðustu daga. Skömmu eftir miðnætti aðfararnótt sunnudags skall hurð nærri hælum er ökumaður missti vald á bíl sínum í Gilinu þannig að hún stakkst fram af kantinum í beygjunni á móts við Myndlistarskólann. Aðstoð dráttarbíls þurfti til að koma bílnum af stað aftur og reyndist hann lítið skemmdur. Á gamlársdag fór fólksbíll sömu leið í Gilinu en í því tilfelli slapp ökumaðurinn einnig með skrekkinn.