Skógarbóndinn Hákon lét sig ekki muna um að keyra 600 km leið svo hann gæti lesið upp úr kveri sínu fyrir Húsvíkinga og nærsveitarmenn.
Skógarbóndinn Hákon lét sig ekki muna um að keyra 600 km leið svo hann gæti lesið upp úr kveri sínu fyrir Húsvíkinga og nærsveitarmenn.
MENNINGIN blómstrar sem aldrei fyrr á aðventunni og það gerði hún svo sannarlega á verkstæði Bílaleigu Húsavíkur á dögunum er fyrirtækið bauð til menningarstundar sem vel var sótt.

MENNINGIN blómstrar sem aldrei fyrr á aðventunni og það gerði hún svo sannarlega á verkstæði Bílaleigu Húsavíkur á dögunum er fyrirtækið bauð til menningarstundar sem vel var sótt. Kunnu bæjarbúar og nærsveitarmenn vel að meta þessa nýbreytni í menningarlífinu enda ekki á hverjum degi sem slíkar uppákomur eru á vinnustöðum bæjarins.

Dagskráin var með ágætum og þeir listamenn sem fyrstir stigu á stokk voru Ingimundur Jónsson gítarleikari og Aðalsteinn Ísfjörð harmónikkuleikari og fluttu þeir nokkur lög þar á meðal jólalög. Næstur á stokkinn var maður ekki alveg Þingeyingum ókunnugur, skógarbóndinn úr Fljótsdal, Hákon Aðalsteinsson, sem eitt sinn bjó á Húsavík. Las hann úr nýútkomnu kveri sínu, Imbru auk þess að fara með gamanmál við góðar undirtektir áheyrenda. Að lokinni dagskrá áritaði hann svo bókina fyrir þá sem þess óskuðu. Að lokum tóku svo þeir Rangárbræður, Baldvin Kr. og Baldur Baldvinssynir lagið við undirleik Juliet Faulkner. Sungu þeir nokkur lög fyrir viðstadda, þar á meðal lagið "Hríslan og lækurinn" sem þeir sungu sérstaklega fyrir Hákon skógarbónda. Hákon sagði þá sín tré ekki bara vera hríslur, þau elstu væru orðin um þriggja metra há.

Þorvaldur Árnason, framkvæmdastjóri Bílaleigu Húsavíkur, og starfsfólk hans var að vonum ánægt með þessa velheppnuðu uppákomu. Hann sagði að það hefðu verið starfsmenn fyrirtækisins sem hefðu átt hugmyndina að þessu, "enda sumir hverjir miklir söngmenn sem syngja með Karlakórnum Hreim".