Það viðrar vel til útiverka þessa dagana, en skjótt skipast veður í lofti.
Það viðrar vel til útiverka þessa dagana, en skjótt skipast veður í lofti.
ENN einu sini er komið nýtt ár og fyrstu dagana eru allir uppteknir af að venja sig við að skrifa rétt ártal, þeir sem á annað borð þurfa eða vilja skrifa eitthvað.

ENN einu sini er komið nýtt ár og fyrstu dagana eru allir uppteknir af að venja sig við að skrifa rétt ártal, þeir sem á annað borð þurfa eða vilja skrifa eitthvað.

Áramótaskaupið er enn til umræðu og auðvitað síðustu stórtíðindi úr pólitíkinni, sem varð miklu viðburðaríkari í lok síðasta árs en við var búist, setti vissulega lit á lífið.

Þessi vetur hefur verið óvenjulegur fram að þessu, það er nánast enginn vetur kominn enn þá, aðeins myrkur meirihluta sólarhringsins, það er óumflýjanlegt. En stöðugt rauðar tölur á skjánum hjá veðurfræðingunum.

Þetta hefur talsverð áhrif á þá sem láta sig lagnir og lagnakerfi varða, bæði iðnaðarmenn og húseigendur. Þegar svona vel viðrar verða menn síður varir við hvort eitthvað er að hitakerfinu, hvort ofnlokarnir vinna rétt eða hvort óþarflega mikið eyðist af heitu vatni.

Hins vegar má búast við að víða bregði mönnum illa ef skyndilega kólnar þó vonandi fáum við ekki sömu fimbulkuldana og eru austast í Evrópu, í Finnlandi og Rússlandi. Þar hefur tveggja stafa tala sýnt frostið og það jafnvel yfir 20°C. Við slíku frosti þarf tæpast að búast hérlendis, þó ekki útilokað.

Hvað er framundan?

Sumir vilja rýna í kristalskúlu, aðrir fara til miðils til að reyna að sjá inn í framtíðina, sumir láta sér nægja að lesa spádóm völvu Vikunnar.

Eitt er víst; á eftir vetri kemur vor og tíminn er ótrúlega fljótur að líða. Áður töluðu menn um að "þreyja þorrann og góuna" en ef að líkum lætur verður góan liðin fyrr en nokkurn varir, hvað þá þorrinn.

Íslendingar hafa ýmsa lesti, eins og flestar þjóðir, einn er sá að láta hlutina dragast fram á síðustu stundu en rjúka þá til og ætla að drífa allt af á svipstundu. Þetta hefur það í för með sér að hérlendis er oft fórnað litlum tíma í undirbúning, sem svo aftur kemur niður á framkvæmdinni.

Það liggur við að það sé freistandi að fara út í garð núna og hefjast handa eins og vorið sé komið. Það væri þó ekki ráðlegt, frost og snjór getur verið á næsta leiti.

En væri ekki ráð að hefjast handa og fara að undirbúa vorverkin? Var einhver að hugsa um að helluleggja stéttir og plön og þá að sjálfsögðu að leggja snjóbræðslu um leið? Þá er vissulega tímabært að hefjast handa en þó eiga þau verk að vera innanhúss en ekki utan. Hvernig væri nú að vinna svolítið á óíslenskan máta og "fórna" svolitlum tíma í undirbúning? Eða er það nokkur fórn? Síður en svo, sá tími skilar sér aftur við framkvæmd verksins.

Íslendingar er mjög gjarnir á að finna upp hjólið, ætli nokkur þjóð hafi fundið það jafnoft upp og landinn. Þetta er oft æði tvíbent, það er engin ástæða til að hver og einn sé að reka sig á sömu vandamálin og gera sömu mistökin og svo margir hafa gert á undan.

Það eru vissulega til margir handlagnir heimilisfeður og ekki síður heimilismæður sem geta t.d. lagt hellur listilega vel, ef þau á annaðborð vita hvernig standa á að verki. Sumir telja að það sé ekkert mál "að henda niður slöngum", með öðrum orðum að leggja snjóbræðslukerfi.

En undirlag, efnisval, dýpt á slöngum, lengd þeirra, þjöppun og ótalmargt fleira skiptir sköpum um endanlegan árangur.

Þess vegna er heillavænlegast að leita til þeirra sem sérþekkingu hafa, það er ergilegt að standa á illa lögðu plani, með snjóbræðslukerfi undir fótum sem bræðir sums staðar, annars staðar ekki.

Það er líka ástæða til að hyggja að því hvort ekki þurfi að endurnýja lagnakerfi, hvort frárennslislagnir undir grunnum gömlu húsanna sé í lagi og hvort ekki þurfi að stilla hitakerfið.

Þótt jarðvarminn sé ódýrari en sá varmi sem notaður er í nágrannalöndum okkar er óþarfi að sóa og eyða með tilheyrandi aukakostnaði.

Tökum vorið snemma innanhúss.