BSRB og ASÍ gagnrýna þær hækkanir á komugjöldum sjúklinga í heilbrigðiskerfinu sem heilbrigðisráðherra tilkynnti í gær og segja þær bitna á þeim sem minnst mega sín.

BSRB og ASÍ gagnrýna þær hækkanir á komugjöldum sjúklinga í heilbrigðiskerfinu sem heilbrigðisráðherra tilkynnti í gær og segja þær bitna á þeim sem minnst mega sín. Heilbrigðisráðherra bendir hins vegar á að komugjöld fyrir börn, aldraða og öryrkja séu mun lægri en fyrir almenna sjúklinga. Hann óttast ekki að hækkanirnar muni ógna stöðugleikanum í þjóðfélaginu.

Gjöldin hækka frá 50 og upp í 500 krónur og á hækkunin að taka gildi þann 15. janúar næstkomandi. Alls eru tekjur ríkissjóðs vegna hækkananna áætlaðar um 83 milljónir króna á ári. Þar af greiða þeir sem leita til heilsugæslunnar um 27 milljónum krónum meira fyrir þjónustuna á heilu ári en áður en þeir sem leita til sérfræðilækna greiða samtals um 56 milljónum krónum meira en áður. Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra bendir á að fyrir utan lægri komugjöld fyrir aldraða, öryrkja og börn en aðra sé í gildi reglugerð um endurgreiðslur til þeirra sem eru undir tekjumörkum. Þá eigi hækkanirnar ekki að koma neinum í opna skjöldu þar sem þær hafi í raun verið ákveðnar í fjárlögum sem samþykkt voru í desember síðastliðnum.

"Það var gerð grein fyrir því í athugasemdum fjárlaga að þetta væri ein af forsendunum fyrir því að ná heilbrigðiskaflanum saman."

Í ályktun BSRB um málið segir að athuganir hafi leitt í ljós að efnalítið fólk veigri sér við að leita sér lækninga og geti ekki keypt sér nauðsynleg lyf vegna peningaleysis. Er hækkununum mótmælt.

Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ, segir hækkanirnar koma á óvart enda séu þær úr takti við aðgerðir verkalýðshreyfingarinnar og stjórnvalda í fyrra til að hafa hemil á verðbólgunni. Þá stingi hækkanirnar í stúf við umræðuna um fátækt í samfélaginu. "Auðvitað er hluti af því fólki sem á hvað bágast í okkar samfélagi sjúklingar sem verða þarna fyrir enn frekari hækkunum á nauðsynlegri þjónustu," segir hann.