RAGNHILDI Jónsdóttur brá heldur betur í brún á nýársdag þegar hún sá tvo svarta hrafna hamast við að hrekja hvítan hrafn frá gamla frystihúsinu á Stokkseyri en þar hjá höfðu þeir fyrrnefndu áður gert sér hreiður.

RAGNHILDI Jónsdóttur brá heldur betur í brún á nýársdag þegar hún sá tvo svarta hrafna hamast við að hrekja hvítan hrafn frá gamla frystihúsinu á Stokkseyri en þar hjá höfðu þeir fyrrnefndu áður gert sér hreiður.

"Þetta var alveg stórkostleg sjón og ég er ekki alveg búin að ná þessu ennþá," segir Ragnhildur, sem er meðhjálpari á Stokkseyri. Hún var á leiðinni út í kirkju á nýársdag þegar hún varð vör við undarleg læti í hröfnum sem voru á vappi við frystihúsið.

"Maður fylgist nú alltaf svolítið vel með hröfnunum af því að þeir boða alltaf eitthvað sérstakt," segir hún. "Ég fór því að athuga hvað var í gangi og þá sátu þar tveir hrafnar sem höfðu verpt þarna í hreiður í sumar og fyrrasumar. Ég hélt fyrst að góða veðrið hefði ruglað svona náttúruna í þeim en svo fór ég að horfa á þá betur og trúði ekki mínum eigin augum að sjá þarna hvítan hrafn. Mér datt ekki í hug að þetta væri til."

Hún segir svörtu hrafnana tvo hafa elt hinn hvíta meðbróður sinn og rekið hann í burtu enda hafi hann verið á þeirra svæði. "Svo flaug hann yfir þakið á kirkjunni og þá kom að hrafnager sem hélt áfram að flæma hann í burtu og á endanum flaug hann í vesturátt."

Með hvítan gogg

Að sögn Ragnhildar var fuglinn ekki bara hvítur á skrokkinn heldur var goggur hans einnig alhvítur. Hún segist hafa spurst fyrir um það hjá þeim sem þekkja til fugla, m.a. hjá Náttúrufræðistofnun, hvort þetta gæti verið rétt hjá sér og fengið þær upplýsingar að hvítir hrafnar væru vissulega til þótt þeir væru sjaldséðir eins og segir í máltækinu. "Enda er hrafninn engum líkur þannig að það er ekki hægt að taka feil á þessu."

Hún segist strax hafa farið að hugsa um hvort það boðaði eitthvað að sjá tvo svarta hrafna slást við hvítan hrafn á nýársdag. "Ég er nú að vona að það boði mér gæfu að sjá þetta en ég hef ekki komist að niðurstöðu með það," segir Ragnhildur.