Bandaríkin 2002. Skífan VHS. (84 mín.) Öllum leyfð. Leikstjórn David Gumpel. Aðalhlutverk Steve Whitmire, Bill Baretta.

UNGA fólkið er of ungt til að muna eftir hinum gömlu góðu Prúðuleikurum sem sýndir voru í Sjónvarpinu annað hvert föstudagskvöld á móti Skonrokki, öllum þessum óborganlegu brúðum eins og Kermit, Fossa, Svínku, Gunnsa, Daggadropa, Sænska kokkinum, Skúta og Hrólfi og Dýra svo einhverjir séu nefndir. Þættirnir voru kostulegir - í minningunni að minnsta kosti - og því orðnir heilagir í huga manns. Óþægindatilfinning grípur mann þegar einhver fitlar við slíkt, reynir að endurvekja gamla, annarra manna snilld.

Það kom því þægilega á óvart að sjá þessa bráðskemmtilegu og spánýju barnamynd um froskinn Kermit á yngri árum, þegar hann tekur þá stóru ákvörðun að yfirgefa heimkynni sín, mýrina og freista gæfunnar, ákvörðun sem síðar leiðir til þess að hann gerist kynnir í prúðuleikhúsinu. Ekki jafnast hún á við gömlu fyrirmyndina en þessi nýja útgáfa stendur þó fyrir sínu og er prýðisskemmtun fyrir unga sem eldri.**½

Skarphéðinn Guðmundsson