[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
"Því hefur verið haldið fram að bágborið atvinnuástand í Þýskalandi megi rekja til þess að peningastefna á evrusvæðinu henti því ekki. Þessi skoðun er byggð á misskilningi því vandann má að mestu rekja til úreltrar þýskrar vinnulöggjafar."

UNDANFARINN áratug var árlegt meðaltal hagvaxtar í Þýskalandi 1,4%, sem var helmingi minna en hérlendis og tæpur fimmtungur af hagvexti á Írlandi. Vegna þessa hefur atvinnuleysi verið viðvarandi vandamál í Þýskalandi um langt skeið, nálægt 8% af vinnuaflinu síðan 1995, á meðan ástandið batnaði víða, sérstaklega í smærri ríkjum ESB. Því hefur verið haldið fram að bágborið atvinnuástand í Þýskalandi megi rekja til þess að evran og peningastefna á evru-svæðinu henti því ekki. Þessi skoðun er byggð á misskilningi því efnahagsvandann má að mestu rekja til úreltrar þýskrar vinnulöggjafar.

OECD er helsti samráðsvettvangur um efnahagsstjórn þrjátíu ríkja sem hafa lýðræði og starfsemi á frjálsum markaði að leiðarljósi. Hagdeild OECD hefur í áratugi unnið að greiningu á forsendum hagvaxtar og atvinnusköpunar á tímum hnattvæðingar. Í þeirri vinnu hafa áhrif löggjafar og reglugerða, sem lúta að vinnumarkaði, á atvinnusköpun verið skoðuð ýtarlega. Niðurstaða þeirrar vinnu er skýr. Vinnulöggjöf Þýskalands er úr takti við alþjóðlega þróun. Með því að binda um of hendur fyrirtækja og einstaklinga á markaði dregur úr getu þeirra til að laga sig að kröfum markaðarins. Gölluð vinnulöggjöf tengist oft ófullnægjandi samkeppni á vöru- og þjónustumörkuðum. Afleiðingin er sú að fyrirtæki skapa færri störf, það dregur úr nýsköpun og hægir á framleiðniþróun. Allt eru þetta atriði sem vega að rótum sjálfbærs hagvaxtar.

Þessi þróun hefur jafnframt veikt fjárhagslega afkomu þýska ríkisins. Stuðningur við fjórar milljónir atvinnulausra hefur kallað á aukna skattheimtu. Þýska ríkisstjórnin hefur lagt nýja skatta á atvinnurekstur sem draga frekar úr samkeppnishæfni fyrirtækjanna. Þýskaland er því sýnilega komið í ákveðinn vítahring, þar sem löggjöfin truflar starfsemi á markaði og kostnaður vegna atvinnuleysis kallar á aukna skattheimtu sem veikir atvinnusköpun enn frekar.

OECD hefur í mörg ár bent á ýmis atriði í löggjöf landsins, sem þarf að breyta til að atvinnusköpun geti verið með eðlilegum hætti. Ríkisstjórn Gerhards Schroeders hefur ekki brugðist rétt við vandanum. Í raun hafa viðbrögð ríkisstjórnarinnar orðið til að auka vandann. Það sést á því að þrátt fyrir mikið atvinnuleysi hafa launahækkanir verið talsverðar vegna þess að samkeppni um ný störf er aðallega meðal þeirra sem þegar eru starfandi. Háar atvinnuleysisbætur og háir skattar valda því að ekki er eftirsóknarvert fyrir hina atvinnulausu að leita sér að vinnu. Við þessar aðstæður skapar bótakerfið vítahring - fátæktargildru - fyrir hina atvinnulausu þar sem fjarveran rýrir reynslu og getu þeirra á vinnumarkaði og möguleika til betur launaðra starfa.

Eins og meðfylgjandi mynd sýnir hefur atvinnusköpun í Þýskalandi verið með minnsta móti í OECD-ríkjunum. Þetta ófremdarástand er ekki hægt að laga með því að lækka vexti frekar. Það sést best á því að atvinnusköpun annars staðar í ESB hefur víða verið með ágætum við svipað vaxtastig undanfarinn áratug. Þá hefur atvinnusköpun í öðrum ESB-ríkjum í niðursveiflunni síðustu tvö ár einnig verið meiri en í Þýskalandi.

Benda má á að einn helsti vandi hagstjórnar undanfarin ár hefur verið mikil lækkun á verði hlutabréfa, sem hefur dregið úr bjartsýni neytenda og fjárfesta og þar af leiðandi eftirspurn í hagkerfinu. Niðursveiflan í heimsbyggðinni undanfarin missiri hefur leitt til þess að vextir hafa víða verið lækkaðir óvenju mikið. Sú þróun er óháð evrunni.

Vextir á evrusvæðinu eru nú 2,75%, sem er með því lægsta sem verið hefur í Þýskalandi frá stríðslokum. Evrópski seðlabankinn hefur átt erfitt með að lækka vexti vegna launabólgu í Þýskalandi. Þá eru raunstýrivextir í Þýskalandi um 1,5%, en til samanburðar eru þeir mun hærri á Íslandi, eða um 4%.

Það er því ekki vaxtastiginu á evrusvæðinu að kenna eða að gengi þýska marksins hafi verið of hátt við upptöku evrunnar hversu lítill hagvöxturinn hefur verið í Þýskalandi. Í því samhengi má benda á að þýska markið var hátt metið í áratugi fyrir inngöngu Þjóðverja í evrusamstarfið vegna velgengni hagkerfis þeirra. Til að viðhalda þeirri velgengni þurfa Þjóðverjar að laga hagkerfi sitt að kröfum nútímans. Að takast á við það myndi jafnframt draga úr óvissu fjárfesta í Þýskalandi með framvinduna.

Það er því röng ályktun að peningastefnu Evrópska seðlabankans og evrunni fylgi of mikið aðhald fyrir þýska hagkerfið. Í raun myndi það breyta litlu fyrir Þjóðverja að hafa eigin mynt. Það er vegna þess að viðvarandi efnahagsvandi Þjóðverja er ekki til kominn vegna vaxtastigsins eða evrunnar heldur á hann einkum rætur að rekja til úreltrar vinnulöggjafar.

Áhrif evrunnar eru jákvæð fyrir Þýskaland eins og önnur lönd Evrópu. Þar sem evran eykur virkni sameiginlegs markaðar Evrópu er hún forsenda meiri hagvaxtar í álfunni. Áskorun Þjóðverja felst í því að uppfæra leikreglur heimamarkaðarins til að geta nýtt sér betur sóknarfærin sem fylgja evrunni.

Eftir Þorstein Þorgeirsson

Höfundur er hagfræðingur Samtaka iðnaðarins.