Tilkoma Jens Ólafssonar söngvara "hefur verið sem vítamínsprauta" á rokksveitina Brain Police.
Tilkoma Jens Ólafssonar söngvara "hefur verið sem vítamínsprauta" á rokksveitina Brain Police.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Master Brain, þriggja laga stuttskífa rokksveitarinnar Brain Police. Sveitina skipa Höddi, Jenni, Gulli og Jónbi. Þeir nota slagverk, rafbassa, rafgítar og rödd.
Brain Police hafa nú sungið sína eyðimerkursöngva í hartnær fjögur ár. Breiðskífan Glacier Sun kom út fyrir þremur árum síðan en í millitíðinni hefur sveitin verið misvirk og stundum reyndar í dái. Það hefur varla verið hvetjandi að frumburðurinn leið talsvert fyrir slælegan hljóm, jafnframt sem söngvaraleysi hefur hrjáð sveitina lengi vel.

Það er því fengur að Jens Ólafssyni söngvara sem bættist í hópinn fyrir skömmu en áður var hann í hinni norðlensku Toy Machine. Tilkoma hans hefur verið sem vítamínsprauta á sveitina, enda Jens frábær rokksöngvari og smellur eins og fituborin flís að sveittu eyðimerkurrokkinu.

Hljómsveitin er þannig orðin feikigóð hljómleikasveit og krafturinn skilar sér prýðilega inn á plötuna. Tónlistin er sem fyrr rokk í anda eyðimerkursveita eins og Queens of the Stone Age, Kyuss og Fu Manchu; neðanjarðarform sem sjaldan hefur notið meiri almennra vinsælda en nú, einkanlega vegna fyrst nefndu sveitarinnar. Tónlist þessa leikur Brain Police af miklum þéttleika og lögin rokka feitt. Allt á réttri leið hjá piltunum, helst vil ég kvarta undan frumlegheitunum sem eru full lítil. Hitt ber á að líta að eyðimerkurrokkið býður svosem ekki upp á mikla túlkunarmöguleika. Málið númer eitt, tvö og sjö er að rokka. Og það gera Brain Police svo sannarlega - af meiri krafti en nokkru sinni fyrr.

Arnar Eggert Thoroddsen