Eyrar, þaðan sem Bjarni Herjólfsson sigldi, voru ein helsta verslunarhöfn landsins um rúmlega 800 ára skeið. Bærinn Drepstokkur er talinn hafa staðið til vinstri á myndinni, nálægt ósum Ölfusár. Eyrarbakki og Stokkseyri eru í baksýn, en í forgrunni er Ósey
Eyrar, þaðan sem Bjarni Herjólfsson sigldi, voru ein helsta verslunarhöfn landsins um rúmlega 800 ára skeið. Bærinn Drepstokkur er talinn hafa staðið til vinstri á myndinni, nálægt ósum Ölfusár. Eyrarbakki og Stokkseyri eru í baksýn, en í forgrunni er Ósey
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Siglingar íslenskra sæfara til Norður-Ameríku um árið 1000 eru Íslendingum vel kunnar. Flestir hafa heyrt um Leif heppna en nafn Bjarna Herjólfssonar er síður þekkt. Sverrir Sveinn Sigurðarson skrifar um atburðarásina allt til leiðangurs Kristófers Kólumbusar árið 1492, sem líklega var farinn meðal annars vegna áhrifa frá siglingum Íslendinga.
UM ALLAN heim er því trúað að Kristófer Kólumbus hafi fundið Ameríku árið 1492. Íslendingar telja sig vita betur, og vísa til tveggja fornsagna, Grænlendinga sögu og Eiríks sögu rauða. Þar er sagt frá sæförum af íslensku bergi brotnu, sem sigldu vestur fyrir Grænland og fundu Helluland, Markland og Vínland hið góða.

Fornleifafundur á L'Anse aux Meadows á Nýfundnalandi í Kanada hefur leitt í ljós þyrpingu húsa sem byggð voru af norrænum mönnum. Aldursgreining gefur ártalið um 1000, sem skýtur styrkum stoðum undir frásagnir íslenskra fornsagna.

En hver fann Ameríku? Meðal okkar Íslendinga hefur nafni Leifs heppna, Leifs Eiríkssonar, verið haldið mjög á lofti. Annar íslenskur sæfari, Bjarni Herjólfsson, hefur hingað til staðið fremur í skugganum. Það jafnvel svo, að margir sem höfundur hefur rætt við muna ekki hvað hann gerði merkilegt, eða kannast ekki við að hafa heyrt á hann minnst. Eins er margt annað áhugavert sem gerðist á næstu öldum eftir fund Vínlands, sem mætti gjarnan njóta athygli ekki síður en sigling Leifs Eiríkssonar.

Bjarni Herjólfsson

Í Grænlendinga sögu segir af Bjarna Herjólfssyni frá bænum Drepstokki. Nú er talið að Drepstokkur hafi staðið austan ósa Ölfusár, um tvo kílómetra vestan við Eyrarbakka. Það svæði hét áður Eyrar. Nafnið Drepstokkur er líklega dregið af orðinu afdrep eða sögninni að drepa niður fæti. Bjarni var farmaður, eða kaupmaður, og átti skip í förum milli Íslands og Noregs. Eitt sinn er hann kom frá Noregi á Eyrar fregnaði hann að faðir hans hefði það sama sumar siglt með Eiríki rauða til Grænlands. Talið er að þetta hafi verið árið 985 eða '86, sem byggt er á lýsingum í Landnámabók og Íslendingabók Ara fróða. Þótti Bjarna brottför föður síns mikil tíðindi og vildi fylgja honum eftir. Voru hásetar hans einnig viljugir að sigla. Mælti þá Bjarni: "Óviturlig mun þykkja vár ferð, þar sem engi vár hefir komit í Grænlandshaf". Engu að síður sigldu þeir frá Eyrum. Eftir þrjá daga hrepptu þeir þoku og hafvillur, og sigldu dögum saman án þess að vita hvert leið lá.

Skipið sem Bjarni átti mun hafa verið svonefndur knörr. Knerrir voru sterkbyggð skip sem hentuðu til vöruflutninga og siglinga yfir úthafið. Þeir voru styttri og kubbslegri en hin rennilegu og hraðskreiðu langskip, eða víkingaskip, sem notuð voru í herferðum. Landnámsmennirnir munu hafa siglt til Íslands á knörrum.

Upp að ókunnu landi

Þegar þokunni léttir sigla þeir í einn dag og koma að landi. Þeir ræddu um hvaða land þetta myndi vera, "...en Bjarni kveðst hyggja, at þat mundi eigi Grænland". Landið sem þeir höfðu fyrir augum var ófjöllótt og skógi vaxið, en með smáum hæðum. Bjarni ákvað að þeir skyldu sigla meðfram landinu. Eftir tvo daga koma þeir að öðru landi, og taldi Bjarni það heldur ekki vera Grænland - "því at jöklar eru mjök miklir sagðir á Grænlandi". Þetta land var slétt og viði vaxið. Háseta Bjarna fýsti að fara í land, meðal annars til að sækja við og ferskt vatn. Bjarni hafnaði því í þessu alsendis ókunna landi og sagði að þá skorti ekkert af því, en við það fór mikill óánægjukliður um hópinn. Þeir vinda upp segl og eftir þriggja daga siglingu koma þeir að enn einu landi, háu og fjöllóttu með jökli á. En þeir sáu að land þetta var eyja heldur óvistleg, og sneru þeir því frá landi sigldu á haf út, "...því at mér líst þetta land ógagnvænlegt", sagði Bjarni. Eftir fjögurra daga siglingu komu þeir enn að landi. Við spurningu háseta sinna svarar Bjarni: "Þetta er líkast því, er mér er sagt frá Grænlandi, og hér munum vér at landi halda".

Vísaði Leifi heppna leiðina

Þeir koma að nesi og var bátur á nesinu. Hittu þeir þar Herjólf föður Bjarna. Síðar fór Bjarni á fund Eiríks jarls. Bjarni sagði frá löndum þeim er hann hafði séð. Þótti hann hafa verið óforvitinn að fara ekki í land, og fékk hann af því nokkuð ámæli. Urðu miklar umræður í framhaldi af því um landaleit. Frásögnin af kynnum Bjarna af meginlandi Ameríku er rituð á síður skinnhandrits Flateyjarbókar, sem Danir skiluðu í hendur Íslendinga árið 1971.

Svo segir frá því að Leifur, sonur Eiríks rauða, fór á fund Bjarna Herjólfssonar, keypti af honum skip og réð sér háseta. Segir að því búnu af siglingu Leifs, þar sem þeir komu að landi því er Bjarni hafði sagt þeim frá. Þar segir frá nafngift Hellulands og Marklands, og fundi Vínlands, þar sem landkostir voru afar góðir. Leifur og menn hans byggðu þar hús úr trjám hoggnum á staðnum og höfðu vetursetu. Þarna fundu þeir sjálfsáð hveiti sem eðlilega þóttu mikil tíðindi. Þarna fann einnig einn af mönnum Leifs, Tyrkir Suðurmaður (Þjóðverji), vínvið með vínberjum, og varð svo mikið um að hann talaði lengi á þýsku áður en hann gat sagt Leifi og fleirum frá fundi sínum. Aðspurður kvaðst hann viss um að þetta væri vínviður, "því at ek var þar fæddr, er hvárki skorti vínvið né vínber". Þess vegna nefndi Leifur landið Vínland. Það er af mörgum talið hafa verið þar, sem héraðið New Brunswick er í Kanada, norðan við fylkið Maine í Bandaríkjunum. Á heimleið frá Vínlandi komu þeir að fólki sem hafði orðið skipreka á skeri. Af mannúð bauð Leifur þeim að koma með sér. Var hann frá því nefndur Leifur heppni. Ein af skipbrotsmönnum var Guðríður Þorbjarnardóttir sem síðar giftist Þorfinni karlsefni.

Trúverðugleiki sögunnar

Þær skoðanir hafa komið fram að sagan af Bjarna Herjólfssyni sé ekki fyllilega trúverðug, þar sem ekki er minnst á Bjarna í Eiríks sögu rauða (Þorfinns sögu karlsefnis), sem rituð var í skinnhandriti Hauksbókar. Þar segir frá siglingu Leifs Eiríkssonar og fundi Vínlands:

"Lætr Leifr í haf ok er lengi úti ok hitti á lönd þau, er hann vissi áðr enga ván til. Váru þar hveitiakrar sjálfsánir og vínviðr vaxinn. Þar váru þau tré, er mösurr heita, og höfðu þeir af þessu öllu nökkur merki, sum tré svá mikil, at í hús váru lögð."

Svo mörg voru þau orð. Þarna er ekki sagt frá Bjarna Herjólfssyni, sem fær suma til að efast um söguna af honum. En þegar betur er að gáð stangast textar í Grænlendinga sögu og Eiríks sögu rauða í raun ekki á. Þarna er augljóslega verið að lýsa Vínlandi, sem Leifur heppni vissi ekki af þegar hann kom þar að með mönnum sínum. Hins vegar er engin lýsing á Hellulandi og Marklandi.

Hér er vert að gaumgæfa, að í Eiríks sögu rauða segir af siglingu Þorfinns karlsefnis, í kjölfar Leifs heppna, á ellefu blaðsíðum í hinu "klassíska" broti og leturstærð Íslendingasagna. Söguritari er hins vegar einkennilega fáorður um siglingu Leifs heppna sem vissulega var stórmerkilegur atburður, með fundi Vínlands hins góða. Þessar þrjár setningar hér að ofan eru það eina sem stendur um siglingu Leifs heppna til Vínlands í Eiríks sögu, og er Vínland ekki einu sinni nefnt á nafn. Á móti var greint nákvæmlega frá þeim atburðum á sex blaðsíðum í Grænlendinga sögu. Í Eiríks sögu er málið því afgreitt mjög stuttaralega og augljóslega hlaupið yfir mörg mikilvæg atriði í frásögninni.

Sama vissa um tilvist þeirra

Ef sú staðreynd að Bjarni er ekki nefndur í Eiríks sögu gerir tilvist hans vafasama, verður jafnvel að beita sömu reglu um flest það sem við teljum okkur vita um siglingu Leifs heppna, en mest af því, sem við teljum okkur vita um hann er að finna í Grænlendinga sögu. Eins má nefna að sá atburður þegar Hellulandi og Marklandi var gefið nafn er eignaður Þorfinni karlsefni í Eiríks sögu, en ekki Leifi heppna. Hvað Bjarna varðar má taka fram að fjallað er um Herjólf föður hans og siglingu hans með Eiríki rauða til Grænlands, í Landnámabók, og er frásögnin þar svipuð og í Grænlendinga sögu. Þetta endurspeglar að Íslendinga sögur eru ekki hárnákvæm sagnfræði heldur sögur sem gengu mann fram af manni. Þær voru ekki skráðar fyrr en löngu eftir að atburðir höfðu átt sér stað.

Vegna þessa er það skoðun höfundar, að vissa okkar um tilvist Bjarna Herjólfssonar og siglingu hans fyrir rúmum 1.000 árum sé líklega ekki síðri en sú vissa sem við teljum okkur hafa um tilvist og athafnir Leifs heppna og t.d. Þorfinns karlsefnis. Því er varla ástæða til að tortryggja sérstaklega eina persónu úr fornsögunum, Bjarna Herjólfsson farmann, en halda nafni annarra á lofti um leið.

En hver fann Ameríku? Af framansögðu má draga þá ályktun að Bjarni Herjólfsson og hásetar hans hafi fyrstir manna af evrópskum uppruna litið augum meginland Ameríku. Þeir fundu Ameríku, þótt þeir hafi að vísu verið að leita annars. Það var hins vegar Leifur heppni sem hélt af stað til að kanna löndin, hann fann Vínland og nam land fyrstur manna af evrópskum uppruna á meginlandi Norður-Ameríku. Báðir atburðir voru stórmerkir, en Leifur heppni hefði ef til vill ekki siglt ef ekki hefði verið fyrir frásögn Bjarna Herjólfssonar og þá staðreynd, að Bjarni seldi honum skipið sem hann sigldi á.

Fregnir berast víða

Í Grænlendinga sögu segir einnig af því þegar Þorfinnur karlsefni fór ásamt konu sinni Guðríði og um sextíu mönnum og fimm konum til Vínlands, en þurfti loks frá að hverfa eftir harkalega árekstra við frumbyggja. Á Íslandi, að Þorfinni látnum, gerðist Guðríður nunna og fór í pílagrímsför til Rómar. Varla þarf að efast um hvaða sögu hún hafði að segja prelátum þar á bæ.

Árið 1075 lauk þýski söguritarinn Adam frá Brimum við að rita sögu erkibiskupsdæmisins Hamborgar og Bremen, sem bar nafnið "Gesta Hammaburgensis Ecclesiae Pontificum". Í sérstökum hluta ritsins sem nefnist "Descriptio Insularum Aquilonis", lýsir Adam löndum í norðri, en norðurlönd ásamt þeim löndum sem þeim tengdust heyrðu undir erkibiskupsdæmið. Auk Íslands og Grænlands segir hann meðal annars frá nálægu landi, Vínlandi, þar sem vínber vaxi villt og gefi af sér hin bestu vín, og að hveiti vaxi í miklu magni án þess að því hafi verið sáð. Þessar upplýsingar fékk hann beint frá konungi Dana, Svend II Estridsen. Þetta er elsta lýsing á Ameríku í evrópskum ritum, mun eldri en íslensku fornritin.

Paschal II páfi og Eiríkur biskup

Smám saman urðu þessar fregnir heyrinkunnar og viðurkenndar á æðstu stöðum. Árið 1112 gekk íslenskur klerkur, Eiríkur Gnúpsson "upsi", á fund Paschals II páfa í Róm. Á fundi þeirra varð Eiríkur biskup biskup yfir "Grænlandi og Vínlandi in partibus infidelium". Á öðrum stað í heimildum er talað um biskup yfir Grænlandi og hinum ystu svæðum, á latínu "Episcopus Groenlandiae regionumque finitarium". Hér getur ekki verið um að ræða rugling við Ísland, enda var Gissur Ísleifsson þar biskup fyrir. Þetta er merkilegt mál. Að senda prest á staðinn er eitt, en allt annað að sjálfur páfinn samþykki nýja stöðu biskups sem er mjög há staða innan kirkjunnar, á svæði sem m.a. tilheyrir meginlandi Ameríku. Þetta er rækileg sönnun fyrir því að vissan um landafundi Íslendinga var traust í Evrópu þegar í byrjun 12. aldar. Hins vegar virðist sem þeir hafi að miklu leyti gleymst á þeim öldum sem í hönd fóru.

Íslenskur biskup siglir til Vínlands

Árið 1121 er fært í sex íslenska annála að Eiríkur hafi siglt í vestur og hafi Vínland verið áfangastaður. "Eirik Grænlendinga biskup leitade Vínlands," sagði m.a. í Gottskálks annál þetta ár, en annálar voru gjarnan mjög stuttorðir. Var nýlenda norrænna manna á Vínlandi, sem biskupinn sjálfur hugðist heimsækja? Kaþólska kirkjan var vel skipulögð á þeim tíma, og ávallt opin fyrir möguleikum á að útbreiða kristindóminn. Skjöl í safni Vatíkansins sýna, að í páfagarði létu menn sér annt um andlega velferð íbúa á Grænlandi, en kirkjan innheimti þar sóknargjöld í sextán kirkjum á tímabili. Jafnframt mun á mörgum stöðum í skjölunum vera minnst á heiðingja sem búi í löndum vestan Grænlands, og staðfastan áhuga kirkjunnar á að flytja fagnaðarerindið til þeirra. Á einum stað í heimildum segir að ein slík viljayfirlýsing komi fram í skjali frá sama ári og Kólumbus sigldi yfir hafið, eða árið 1492.

Í dag kynni mörgum að finnast það byltingarkenndar upplýsingar að íslenskur biskup hafi verið á siglingu til Ameríku í erindagjörðum páfans í Róm, 371 ári fyrir siglingu Kólumbusar! Tilvist þessa merkilega biskups virðist vera gleymd flestum hér, og mætti gjarnan minnast hans betur og hinnar einstöku stöðu hans í veraldarsögunni.

Timbur sótt til Labrador

Þó að ekki sé miklar fregnir að hafa af tilraun Eiríks biskups til að finna Vínland voru menn af íslenskum uppruna ekki hættir að sigla til austurstrandar Norður-Ameríku. Íbúar á Grænlandi virðast gegnum aldirnar hafa siglt til Marklands (Labrador á austurströnd Kanada) að sækja timbur, sem erfitt var að fá á Grænlandi. Síðast var getið um slíka ferð í annálum, þar sem skip með 17 manna áhöfn, flæktist til Íslands. "Þa kom ok skip af Grænlandi minna at vexti enn sma Islandz för. Þat kom i Straum fiörð inn ytra. Þat var akkeris laust. Þar voru á .xvij. menn ok höfðu farit til Marklandz enn siðan vordit hingat hafreka." Þetta var fært í Skálholts annál árið 1347, með fornum rithætti þess tíma. Hér er líklega átt við Straumfjörð á Mýrum, sem var verslunarstaður og verstöð frá miðöldum.

Kristófer Kólumbus á Íslandi

Í febrúarmánuði árið 1477, fimmtán árum fyrir sögufræga siglingu árið 1492, kom ítalskur sæfari að nafni Kristófer Kólumbus til Íslands. Frá þessu segir í ævisögu Kólumbusar, sem á frummáli heitir Historia del Almirante Don Cristóbal Colón. Ævisagan var skrifuð af syni hans Ferdinand Kólumbus að honum látnum. Söguna skrifaði hann m.a. sem andsvar við tilraunum spánsku krúnunnar til að gera lítið úr hlut Kólumbusar í landafundunum miklu. Sú rimma snerist, eins og svo margar aðrar, um tilkall til valda og auðæfa. Leiðangur Kólumbusar var farinn með fulltingi Ísabellu drottningar af Spáni gegn samkomulagi um verulega upphefð Kólumbusi til handa ef leiðangurinn bæri árangur. Afkomendur hans höfðu hins vegar verið þvingaðir til að afsala sér þeim forréttindum að miklu leyti. Það er athyglisvert að ein af rökum spánsku krúnunnar í því máli voru að Kólumbus hefði fengið hugmyndina að leiðangri sínum hjá öðrum, sem vekur spurningar um hvort slíkur orðrómur hafi verið á kreiki á þeim tíma?

Í stuttri frásögninni lýsir Kólumbus Íslandi sem eyju jafn stórri og Englandi, og gefur upp sínar mælingar á staðarhnitum. Hann segir að Englendingar sigli þangað með vörur sínar, einkanlega frá Bristol. Hann segir að hafið við landið hafi ekki verið frosið þegar hann var þar, en sjávarföll hafi verið mjög mikil. Kólumbus skrifaði þennan stutta texta, ásamt fleiri svipuðum, til að sýna að hann hefði víða farið og væri fær um að leiða leiðangurinn yfir Atlantshafið til að leita Indía.

Ýmsir telja í dag að Kólumbus hafi komið að Rifi á Snæfellsnesi eða til Grindavíkur með enskum kaupmönnum frá Bristol. Hann var þá 26 ára að aldri.

Álit Tavianis

Hvaða áhrif hafði heimsókn Kólumbusar á fyrirætlanir hans um að sigla yfir Atlantshafið til Indía? Ítalinn Paolo Emilio Taviani er talinn fremsti fræðimaður Ítala á sviði þess sem lýtur að Kólumbusi og siglingum hans. Að sögn Tavianis leikur enginn vafi á því að Kólumbus hafi fengið upplýsingar um landafundi þeirra Bjarna, Leifs og annarra Íslendinga. Einnig sé vel hugsanlegt að sjálf hugmyndin um að Asíu væri að finna handan við hafið hafi fæðst meðan hann dvaldi á Íslandi. Kólumbus hafi í það minnsta aldrei hugleitt að sigla yfir Atlantshafið eða að reyna að komast til austurlanda fjær, áður en hann kom til Íslands. Hins vegar má merkja af heimildum að hann hafi byrjað að vinna þeirri hugmynd brautargengi þegar árið 1478, einu ári eftir að hann kom frá Íslandi. Taviani telur því að á Íslandi hafi fyrsti þáttur í fyrirætlunum Kólumbusar hafist.

Önnur atriði virðast hafa styrkt hann í trúnni. Á Írlandi kom Kólumbus auga á fólk sem honum þótti torkennilegt útlits. "Fólk frá Cathay kom austur eftir. Við sáum mörg undur og sérstaklega í Galway á Írlandi; mann og konu með einkennilegt útlit." Cathay er öðru nafni Kína. Líklega hefur Kólumbus þarna rekist á Inúíta frá Grænlandi og haldið þá vera frá austurlöndum, frá Kína.

Kólumbus taldi að ummál jarðar væri nálægt 30.000 kílómetrar. Þar var hann á öðru máli en gríski spekingurinn Eratosþenes, sem á þriðja árhundraði f.Kr. reiknaði út að ummál jarðar væri 36.690 kílómetrar. Fyrir utan það að gríski spekingurinn skyldi átta sig á því að jörðin væri hnöttur er merkilegt hve hann var nærri réttu lagi, en ummál jarðar er um 40.000 kílómetrar. Þessi skekkja leiddi til þess að Kólumbus taldi að Austur-Asía, með Kína og Japan, væru í viðráðanlegri fjarlægð handan við Atlantshafið. Íslenskir sæfarar höfðu hins vegar ekki komist til Kína fimm öldum fyrr, heldur til heimsálfu sem enginn í Evrópu eða Asíu vissi enn að væri til. Þar munaði um 10.000 kílómetra af ummáli jarðar.

Ef álit Tavianis er rétt má ljóst vera, að siglingar Leifs heppna, Bjarna Herjólfssonar og annarra íslenskra sæfara eru settar í allt annað og stærra samhengi en margir hafa hingað til gert sér í hugarlund.

Í ævisögu Kólumbusar getur Ferdinand um nokkra þætti sem sannfærðu Kólumbus um að halda í leiðangurinn yfir hafið. Meðal þeirra voru fullyrðingar lærðra manna í fornöld um að sigla mætti frá Spáni eða Afríku til vesturs, og ná til Indía á aðeins nokkrum dögum. Þetta kom fram í ritum gríska spekingsins Aristótelesar (384-322 f.Kr.) og Rómverjans Lucius Annaeus Seneca (ca. 4 f.Kr.-65 e.Kr.). Seneca var leiðandi hugsuður í Róm, höfundur leikverka og einkakennari Nerós Rómarkeisara um tíma. Eftir hann liggja m.a. leikverkin Ödipus og Agamemnon, Trójukonur og Medea.

Stýrimaðurinn Tiphys

Ferdinand Kólumbus tiltekur einnig sérstaklega spásögn sem kemur fram í leikverki Senecas, Medeu, og gaman er að velta fyrir sér á léttum nótum. Segir hann að talið sé fullvíst að spásögn þessi hafi ræst í föður sínum, aðmírálnum Kristófer Kólumbusi, en í þá daga trúðu menn gjarnan á slíkt með öðru. Í spásögninni segir: "Sá tími mun koma á síðari árum, að höfin munu losna úr þeim böndum sem þau hafa verið fjötruð í, þegar að gríðarstór lönd verða uppgötvuð og Tiphys mun afhjúpa nýjan heim, og ultima Thule verður ekki lengur hið fjarlægasta af öllum löndum." Tiphys er persóna úr leikverkinu Medeu, og var stýrimaður Argónautanna sem héldu af stað að leita hins gullna reyfis. Í ensku máli þýðir argonaut einnig einstaklingur sem leitar einhvers sem felur í sér hættu, en getur jafnframt verið afar ábatasamt.

Ultima Thule hefur í raun merkinguna "hið ysta land". Það nafn var gjarnan notað yfir Ísland fyrr á öldum, og síðar Grænland. Í efnisorðalista í ævisögu Kólumbusar er Thule raunar þýtt sem Ísland. Hér er gaman að leika sér með ímyndunaraflið. Það á í raun ekki síður við að setja þá Bjarna Herjólfsson og síðar Leif Eiríksson í hlutverk persónunnar Tiphys, sem losa höfin úr böndum, afhjúpa nýjan heim með uppgötvun gríðarstórra landa, sigla beinlínis frá Ultima Thule og gera að verkum að það land er ekki lengur það fjarlægasta af öllum löndum!

Frá Eyrum til Ameríku

Það er í raun kostulegt hvað ferðir Bjarna og Leifs heppna falla vel að hinni fornu rómversku spásögn. Kannski væri hægt að nota hana sem hluta þeirrar viðleitni að efla hér menningartengda ferðaþjónustu? Íslendingar hafa nú þegar gefið tóninn varðandi þátt sinn í sögu landafunda, og án efa mun sá hluti þjóðararfsins bjóða upp á áframhaldandi möguleika: Bjarni Herjólfsson, sem sigldi frá Eyrum til að leita Grænlands en kom upp að ströndum meginlands Norður-Ameríku fyrstur Evrópumanna. Og Leifur heppni sem kannaði löndin í kjölfarið, og nam fyrstur manna af evrópskum uppruna land á meginlandi Norður-Ameríku. Minjar um hann eða þá sem á eftir komu eru í dag áþreifanlega sýnilegar í fornleifunum á L'anse aux Meadows á Nýfundnalandi. Þær eru til vitnis um þann þátt sem norrænir sæfarar af íslenskum uppruna eiga í sögu landafunda.

Helstu heimildir

Grænlendinga saga. Eiríks saga rauða. Landnáma. Íslendingabók Ara fróða. Skálholts annáll. Ring of Seasons, höf. Terry G. Lacy, Háskólaútgáfan, 1998. Modern Sagas. The Story of the Icelanders in North America, höf. Thorstina Walters, North Dakota Institute for Regional Studies, 1953. The life of the Admiral Christopher Columbus, by his son Ferdinand, höf. F. Kólumbus, Rutgers University Press, 1992. Leif Eiriksson Discoverer of America AD 1003, höf. E. Gray, Oxford University Press, 1972. The Frozen Echo - Greenland and the Exploration of North America, höf. K. Seaver, Stanford University Press, 1996. Explorations in America before Columbus, höf. Hjalmar R. Holland, Twayne Publishers, 1962. The finding of Vinland the Good, höf. A.M. Reeves, London, 1890. Christopher Columbus, The Grand Design, höf. Paolo Emilio Taviani, útg. Istituto Geografico de Agostini, 1985. Et skjebnemöte vest for havet, höf. Thor Heyerdahl, Gyldendal Norsk Forlag, 1992. The Catholic Encyclopedia, Volume I. og aðrar alfræðiorðabækur. Dansk Nationalmuseums Marinarkæologisk Forskningscenter, bréfasamskipti.

Höfundur er viðskiptafræðingur og starfar hjá Sveitarfélaginu Árborg.