Ragnheiður Sigurðardóttir, deildarstjóri á vökudeild.
Ragnheiður Sigurðardóttir, deildarstjóri á vökudeild.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
VÖKUDEILD hóf starfsemi sína 2. febrúar 1976 og hefur alla tíð síðan verið á þriðju hæð í kvennadeild Landspítalans.
VÖKUDEILD hóf starfsemi sína 2. febrúar 1976 og hefur alla tíð síðan verið á þriðju hæð í kvennadeild Landspítalans. Fyrstu árin var öll starfsemin á einni hæð en árið 1986 var húsnæðið aukið um helming og deildin fékk viðbótarpláss á annarri hæð, einnig í húsi kvennadeildar.

Eftir það var deildinni skipt þannig að veikustu börnin voru á þriðju hæðinni en þau sem voru komin yfir mestu veikindin og að ná sér voru flutt í húsnæðið á annarri hæðinni, en það var við endann á sængurkvennadeildinni þar sem mæðurnar lágu eftir fæðingu. "Þannig að um leið og börnin fóru að hressast fluttum við þau niður til þess að þau væru á sömu hæð og mæður þeirra og helst sem næst þeim," segir Ragnheiður Sigurðardóttir, deildarstjóri á vökudeild. "Það má segja að á meðan starfsemin var öll á sama stað hafi oft verið þröngt og erfitt um vik bæði hvað varðaði hjúkrun og umönnun og líka hvað varðaði heimsóknir og aðstöðu fyrir foreldra, en ýmislegt breyttist um 1986 og tækifæri okkar til að þróa enn frekar bæði læknis- og hjúkrunarmeðferðir jókst til muna. Heimsóknir foreldra og þátttaka þeirra í umönnun barnanna breyttist líka heilmikið og það varð auðveldara um vik fyrir okkur að sinna foreldrunum og styðja við þá."

Ragnheiður segir að nú þegar flutt verður í nýtt og glæsilegt hús fái starfsfólk vökudeildar enn tækifæri til að þróa og bæta starfsemina. "Núna undanfarið höfum við verið að endurskoða sem flesta þætti í starfseminni og velta fyrir okkur hvernig við getum bætt þjónustuna þannig að skjólstæðingarnir nóti góðs af. Það verður setustofa og aðstaða fyrir foreldrana þar sem þeir geta sest niður og hvílt sig. Það er ýmislegt sem breytist hjá okkur með tilkomu þessa nýja spítala."

Oft þröng á þingi

Á vökudeild eru 25 stöðuheimildir hjúkrunarfræðinga, 8 stöðuheimildir sjúkraliða og 4 stöðuheimildir lækna en alls starfa 45 manns á deildinni. Eins og sést á meðfylgjandi mynd hefur oft verið þröng á þingi á vöku deild. "Við erum með pláss fyrir 15 börn á deildinni, og þangað til í nóvember í fyrra höfðu mest verið þar 26 börn þar í einu. Í nóvember og desember sl. voru allt upp í 30 börn á deildinni og hafa aldrei verið fleiri," segir Ragnheiður.

Flestir skjólstæðingar vökudeild ar eru fyrirburar og veik nýfædd börn, en samkvæmt skilgreiningu eru fyrirburar börn fædd innan við 37 vikna meðgöngu. Að sögn Ragnheiðar eru yngstu börnin allt frá 5-600 grömmum og allt niður í 24 vikna gömul en eðlileg meðganga er 40 vikur. "Þannig að þessi börn eiga fyrir höndum kannski 14-16 vikna legu á deildinni ef allt gengur að óskum." Ragnheiður segir að það sé sem betur fer ekki mjög algengt að börn fæðist svo mikið fyrir tímann. "Það eru um 360 börn sem leggjast inn á deildina á ári og annar eins fjöldi, eða um 360 börn, koma til eftirlits í styttri tíma, börn sem t.d. hafa lent í erfiðri fæðingu og þarfnast eftirlits og umönnunar.

Úr 32 vikum í 26

Ragnheiður segir að mikil þróun hafi orðið í hjúkrun og lækningum veikra nýbura síðustu ár og áratugi og t.d. var sagt fyrir 25 árum að barn sem fæddist eftir 32 vikna meðgöngu ætti nokkuð góðar lífslíkur en að í dag eigi barn sem fæðist eftir 26-28 vikur álíka góðar lífslíkur og það sem fæddist eftir 32 vikna meðgöngu fyrir 25 árum. "Það eru alltaf að koma fram ný lyf og tæki sem gera okkur kleift að hjálpa þessum börnum. Við höfum reynt að fylgjast vel með því nýjasta í nágrannalöndunum í meðhöndlun fyrirbura og ég get sagt að við erum fyllilega sambærileg við það sem best gerist þar," segir Ragnheiður Sigurðardóttir.