9. febrúar 2003 | Sunnudagsblað | 1558 orð | 2 myndir

Líf í litum

Valdimar Bergstað og Baldvin Valdimarsson segja málningu hafa breyst mikið á þeim 50 árum sem  Málning hf. hefur starfað.
Valdimar Bergstað og Baldvin Valdimarsson segja málningu hafa breyst mikið á þeim 50 árum sem Málning hf. hefur starfað.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í því grámóskulega veðurfari sem oft er hlutskipti okkar Íslendinga eru litir á húsum og í herbergjum þýðingarmiklir. Málning hf. hefur í 50 ár framleitt málningu fyrir íslenskan markað. Guðrún Guðlaugsdóttir ræddi við Valdimar Bergstað og Baldvin Valdimarsson um ýmis atriði í starfsemi fyrirtækisins og sögu þess.
Hvar hafa dagar lífs þíns lit sínum glatað?" spyr Jóhann Jónsson skáld í hinu fræga kvæði sínu Söknuði og vísar þar með til mikilvægis litanna í lífi okkar mannanna - okkur finnst litlaus tilvera lítt eftirsóknarverð bæði í beinni og óbeinni merkingu.

Í fimmtíu ár hefur fyrirtækið Málning hf. séð um að útvega Íslendingum efnivið til þess að gera umhverfið litríkara.

"Þetta er nú örugglega nóg til að "mála allan heiminn", segir blaðamaður Morgunblaðsins þegar hann stendur við hlið Baldvins Valdimarssonar framkvæmdastjóra og horfir yfir lager Málningar í hinu nýja og glæsilega húsnæði fyrirtækisins við Dalveg í Kópavogi. Þar standa málningardósir í þessu líka magni í ótal stálhillum.

"Þetta er nú furðu fljótt að fara, einkum stendur Kjörvarinn stutt við á vorin og sumrin," svarar Baldvin og hlær þegar blaðamaður flautar svolítinn stúf af dægurlaginu "Ég skal mála allan heiminn elsku mamma".

Það er létt yfir öllu hjá Málningu, bæði húsnæði og mannskap, og gamansemin ekki langt undan. Á heljarstórum málningarhrærivélum standa nöfn nokkurra kvenna sem hafa látið að sér kveða í starfi fyrirtækisins. Halldóra er stærsta vélin, þá er Mæja, Sóley og Solla. Vélin Gíslína hefur hins vegar sérstöðu.

"Gíslína er dregið af nafni Gísla Guðmundssonar, annars af efnaverkfræðingum fyrirtækisins," segir Baldvin.

Blaðamaður sér hvergi Sollu.

"Hún er komin út í port og ný og öflugri vél er að koma hingað inn í staðinn," svarar Baldvin. Hann getur þess að Solla "heitin" hafi verið tekin að lýjast enda eina málningarhrærivélin sem komst af úr brunanum mikla 13. júlí 1987 er húsnæði Málningar á Kársnesbraut brann til kaldra kola.

"Hér eru brunavarnir einstaklega vandaðar, - brennt barn forðast eldinn," segir Baldvin á leið okkar upp í fundarherbergi. Þar ætlum við tvö og Valdimar Bergstað, faðir Baldvins og stjórnarformaður fyrirtækisins, að ræða saman eftir að Baldvin hefur lóðsað blaðamann gegnum hinar ýmsu deildir fyrirtækisins sem starfa í tveimur stórum langbyggingum sem byggðar eru áfastar stórum hring sem rúmar skrifstofur, söludeild og fleira. Fallegar myndir eftir ýmsa listamenn prýða veggi - enda er löng hefð fyrir að húsamálun og listmálun skarist.

Það voru börn og tengdabörn Péturs Guðmundssonar í Málaranum sem stofnuðu Málningu hf. sem nú er að stærstum hluta í eigu þeirra Valdimars Bergstað og konu hans Halldóru Baldvinsdóttur og tveggja sona þeirra.

"Frændsystkini mín eiga um 20% hlut í fyrirtækinu," segir Baldvin.

Málning hf. fljótt öflugt á markaðinum

"Fljótlega eftir að fyrirtækið Málning tók til starfa varð það öflugasta málningarfyrirtækið á markaðinum og hefur haldið þeirri stöðu nokkuð vel," segir Baldvin. "Jafnvel bruninn umtalaði breytti ekki stöðunni. Það bjargaði okkur þegar bruninn varð að við áttum talsverðan lager í geymsluhúsnæði og söludeild fyrirtækisins, sem þá var á Lynghálsi 2, og þar tókst fyrir dugnað og samheldni starfsfólks að hefja framleiðslu á ný aðeins nokkrum dögum eftir brunann, - og það kom sér vel því þetta var mikið "málningarsumar", gott veður og málning seldist einstaklega vel. Um verslunarmannahelgi þetta sumar unnu menn t.d. við málningarframleiðsluna á vöktum bæði nótt og dag," segir Valdimar.

Framleiðslan var svo flutt í október að Funahöfða 9, þar sem fyrirtækið starfaði þar til árið 1999 að það flutti í fyrrnefnt þriggja hæða stórhýsi á Dalvegi 18 sem Ingimundur Sveinsson arkitekt hannaði og var tilnefnt til menningarverðlauna DV á sínum tíma.

"Með tilliti til brunahættu vildum við að húsið sem fyrirtækið starfar nú í væri þrjár aðskildar einingar," segir Baldvin. Þess má geta að Málning á einnig stórt hús sem stendur nokkru neðar á sömu lóð, þar sem m.a. lögreglan í Kópavogi og sýslumaðurinn hafa starfsemi sína.

Þeir feðgar Valdimar og Baldvin blaða í gamalli viðskiptabók frá fyrstu árum Málningar. Í hana hafa endurskoðendur fært viðskiptabókhald með vandvirknislegri skrift.

"Í þessari bók má glöggt sjá hve uppgangur Málningar var ör á fyrstu árunum. Þessi bók bjargaðist frá brunanum af því að hún var hjá endurskoðunarskrifstofunni Mancher og fannst þegar verið var að taka þar til fyrir fáum árum," segir Valdimar.

"Það var framsýni föður míns að þakka að gengist var í að fá lóð á þessum góða stað hér við Dalveginn fyrir margt löngu. Hann var þess snemma fullviss að hér yrði "nafli" höfuðborgarsvæðisins, sem kom svo á daginn. Áður hafði staðið til að byggja á Lynghálsinum yfir allt fyrirtækið.

Margt ræður gæðum málningar

Nú spyrja menn gjarnan hvað iðnfyrirtæki sé að gera á svona góðum stað. En hafa ber í huga að þetta er ekki aðeins iðnfyrirtæki, hér er líka þjónusta fyrir málarameistarana með meiru."

Hjá Málningu hf. starfa um 45 manns og hefur verið svo síðustu árin. "Frekar hefur fækkað í framleiðsludeildinni en fjölgað að sama skapi í sölu- og markaðsdeild. Það ríkir hörð samkeppni á þessum markaði, bæði við aðra málningarframleiðendur í landinu og innflutta málningu," segir Baldvin.

"Útlendingar eru furðu viljugir að senda hingað málningu á verði sem ekki sést annars staðar í Evrópu. En auðvitað haldast í hendur verð og gæði. Ódýr málning er ekki sama vara og sú dýrari.

Margt ræður gæðum málningar, svo sem mismunandi hráefni og magn þeirra, t.d. ræður títanhvíta hulunni og gerð bindiefnis þvottheldni, svo dæmi sé tekið. Kröfur á íslenskum markaði til málningar eru mjög miklar, meiri en t.d. annars staðar á Norðurlöndum. Við höfum verið í samstarfi við ýmsa erlenda aðila sem finnst við leggja mikið upp úr þáttum sem þeir einfaldlega eiga ekki við. Við eigum hlut í færeysku málningarfyrirtæki sem heitir Strandamálning, en það fyrirtæki framleiðir ýmsar vörur með framleiðsluleyfi frá okkur."

En skyldi málning hafa breyst mikið á þeim 50 árum sem Málning hf. hefur starfað?

"Já, hún hefur breyst mikið. Spread Satin var fyrsta vatnsþynnta málningin sem sett var á íslenskan markað og það gerði fyrirtækið Málning. Fólk var að vonum tortryggið fyrst, - hafði ekki kynnst nema olíumálningu áður. Vatnsþynnta málningin var auðvitað mikið framfaraspor og þannig var það líka þegar vatnsþynnta lakkið kom á markaðinn í Kópal-línunni, sem tók við af Spread Satini árið 1973. Kópalvörur eru stór hluti af vöruúrvali Málningar nú, í þeirri línu er m.a. að finna málningu með engum lífrænum leysiefnum. Eitt það nýjasta frá fyrirtækinu nú er vatnsþynnt epoxý-lakk. Við máluðum gólfin í verksmiðjunni og lagernum með því, ég hefði ekki haft trú á að slíkt væri hægt fyrir nokkrum árum. En þetta vatnsþynnta epoxý-lakk er mjög slitsterkt, það hefur sýnt sig. Nýjasta kynslóðin á þeim vettvangi er Epox I. Þetta vatnsþynnta og lyktarlausa lakk er vara sem fyrirtækið Málning hefur sjálft þróað í sinni vöruþróunardeild."

Næst er rætt um litina og vinsældir þeirra.

"Marmarahvítt er langvinsælasti liturinn í dag og hrímhvítt hefur verið mjög mikið selt. En tískan í litum á málningu tekur breytingum, - það er líf í litunum og við því þarf að bregðast. Við erum með mjög öflug litakerfi. Hvítu litirnir, sem við seljum svona mikið af, eru "standard"-litir, en litaafbrigði eru svo blönduð á staðnum í tölvuvélum. Við urðum fyrstir til að koma með á markaðinn hér litablöndunarkerfi um 1970 og 1988 komum við fyrstir með tölvustýrðar litablöndunarvélar. Við erum líka með litakort sem eru í sífelldri endurnýjun. Ef við erum ekki "á tánum" í því hvaða litir eiga að vera á litakortum okkar bitnar það á sölunni. Litakortin hjá okkur hafa breyst mikið í gegnum tíðina og í dag hefur fólk úr þúsundum lita að velja."

Sterkir í utanhússmálningu

En hver skyldi vera mest selda vara Málningar?

"Við erum mjög sterkir í utanhússmálningu, svo sem Steinvara 2000, Steinakrýl, Steintexi og viðarvarnarefnum eins og Kjörvara, sem er mikið seld vara og algjörlega þróuð hjá okkur," segja þeir feðgar.

Þegar Baldvin fylgir blaðamanni að útidyrum að gömlum og góðum sið að loknu samtalinu í fundarherberginu leggur hann lykkju á leið sína til að benda blaðamanni á djúpa gryfju úti í porti sem í eru tankar sem geyma hráefni, svo sem upplausnarefni til málningargerðar.

"Við dælum hráefninu inn með tölvustýrðum hætti eins og þörf krefur hverju sinni," segir Baldvin og bendir blaðamanni áður en inn er farið á Sollu "heitna" málningarhrærivél sem stendur rétt hjá geymslugryfjunni og er furðu hress að sjá eftir reynslu sína í brunanum.

Við rekum líka nefið aðeins inn á rannsóknarstofurnar þar sem bæði er verið að vinna að nýjum vörum og skoða ný umhverfisvæn hráefni sem gætu nýst til málningarframleiðslunnar.

"Kópal Glitra er dæmi um endurhannaða vöru sem hefur verið mjög vel tekið," segir Baldvin.

Við eigum líka leið hjá söludeildinni.

"Hér koma fagmenn og húseigendur til þess að fá ráðleggingar. Fólk vill kannski mála yfir steinmulning sem var vinsælt utanhússefni áður fyrr, en það er ekki sama hvaða efni eru notuð til þess. Þá má nefna klæðningar sem fluttar voru inn og áttu að vera viðhaldsfríar um áratuga skeið en reyndust svo málningarþurfi samkvæmt rannsóknum eftir 7 til 10 ár. Ef við vitum um hvaða klæðningu er að ræða getum við sagt hvaða efni á að nota hverju sinni.

Það er töluvert mikið í húfi, bæði fyrir kaupendur og okkur, að rétt efni séu fengin og þau notuð á þann hátt sem mælt er fyrir um. Þess vegna höldum við námskeið einu sinni til tvisvar á ári fyrir afgreiðslufólk verslana og fagmenn til að þeir séu alltaf sem best upplýstir. Hingað er líka mikið hringt með fyrirspurnir," segir Baldvin. Hann lýkur samtali okkar með því að geta þess að það sé engin tilviljun að Málning er sterk á svellinu hvað t.d. utanhússmálningu varðar:

"Málning hefur alla tíð lagt mikið upp úr vöruþróun og rannsóknum á málningu, þannig að hún falli sem best að íslenskum aðstæðum. Við höfum verið nánast eina málningarverksmiðjan sem hefur tekið þátt í allflestum rannsóknaverkefnum sem hér hafa farið fram á vegum Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins í yfirborðsmeðhöndlun. Við þurfum að vita hvar við getum bætt okkur, - það er grundvallaratriði."

gudrung@mbl.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.