"Í ljóðum sínum reynir hún á þanþol tungumálsins og rannsakar eðli orðanna," segir í umsögn dómnefndar um Evu Ström.
"Í ljóðum sínum reynir hún á þanþol tungumálsins og rannsakar eðli orðanna," segir í umsögn dómnefndar um Evu Ström.
Sænska skáldkonan Eva Ström hlýtur Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2003 fyrir ljóðabókina Revbensstäderna (Rifbeinaborgirnar).
Sænska skáldkonan Eva Ström hlýtur Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2003 fyrir ljóðabókina Revbensstäderna (Rifbeinaborgirnar). Verðlaunaféð nemur um 3,5 milljónum íslenskra króna og verða verðlaunin formlega afhent á þingi Norðurlandaráðs í Osló í október.

Í umsögn dómnefndar um verðlaunabókina er komist svo að orði: "Rödd Evu Ström sker sig úr hópi sænskra skálda. Hún er fyrirmynd yngri skáldakynslóðar og í sífelldri endurnýjun sem höfundur. Í ljóðum sínum reynir hún á þanþol tungumálsins og rannsakar eðli orðanna. Bókin Revbensstäderna ber ríkulegan vott um heillandi dirfsku hennar, kraft, líkamlega nálgun og skerpu sem hún beitir í lýsingum sínum á hlutskipti mannsins."

Revbensstäderna er sjötta ljóðabók Evu Ström sem fædd er 1947 og starfaði sem læknir árin 1974-1988 áður en hún sneri sér alfarið að ritstörfum. Eftir hana liggja ljóðabækurnar Den brinnande zeppelinaren 1977, Steinkind 1979, Akra Kärleken till matematiken 1989, Brandenburg 1993, Berättelser 1997. Hún hefur skrifað skáldsögurnar Det mörka alfabetet 1982, Samtal med en daimon 1986, Mats Ulfson 1991, Bröd 1999 og leikritin Den generösa kvinnan 1987, Den tatuerade mannen 1987, Tiden min mitt vilddjur 1988, Paddakvariet 1988, En tunn hinna av is 1990.

Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur segir um ljóðlist Ström: "Ef til vill má segja að Eva Ström reyni að átta sig á mannseðlinu með því að skoða það í ljósi þess sem köllum "óeðli" og hún beinir röntgenaugum sínum að manneskjunni og í sýn hennar slær saman hinu læknisfræðilega, trúarlega og heimspekilega. Hún beinir sjónum ekki aðeins að barnaníðingi, heldur einnig að klæðskiptingum, heimilisleysingjum og eins þeim sem dýrka líkama sinn í heilsuræktinni."

Ström segir sjálf um höfundarverk sitt: " Ringulreiðin og sköpunin, viðkvæmnin og hrunið, óttinn og fegurðin eru meðal viðfangsefnanna auk hinna líffræðilegu þátta tilverunnar, kynferðis, frjósemi, öldrunar og dauða."