Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, flutti um margt mjög athyglisverða ræðu við setningu flokksþings Framsóknarflokksins í gær.
Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, flutti um margt mjög athyglisverða ræðu við setningu flokksþings Framsóknarflokksins í gær. Ræðan ber þess merki að Halldór Ásgrímsson er kominn býsna langt á þeirri vegferð að breyta Framsóknarflokknum úr þeim gamla flokki dreifbýlis og landbúnaðar, sem hann hefur verið frá stofnun sinni, í umbótasinnaðan miðjuflokk sem höfðað geti til kjósenda í þéttbýli ekki síður en dreifbýli.

Í ræðu sinni gaf formaður Framsóknarflokksins mikivæga yfirlýsingu um Evrópusambandið sem vert er að vekja athygli á. Hann sagði:

"Ég tel ekki tímabært fyrir Framsóknarflokkinn að taka endanlega afstöðu til þess á þessu flokksþingi - hér og nú - hvort og þá hvenær er rétt að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Til þess eru óvissuþættirnir enn of margir, umræðan of óþroskuð og staðan í alþjóðamálum of tvísýn. Fyrst er rétt að ljúka samningum vegna áhrifa stækkunar sambandsins á Evópska efnahagssvæðið. En hlutirnir gerast hratt og við þurfum að búa okkur vel undir þessa ákvörðun."

Þessi yfirlýsing er skýr vísbending um að Halldór Ásgrímsson, sem hefur átt mestan þátt í að hreyfa við umræðum um Evrópusambandið hér á landi, mun ekki ganga lengra í þeim efnum en orðið er. Jafnframt er hún til marks um að umræður um hugsanlega aðild Íslands að ESB verða ekki ríkjandi þáttur í þeirri kosningabaráttu sem framundan er.

Í ræðu Halldórs Ásgrímssonar er að finna kafla sem Morgunblaðið fagnar sérstaklega í ljósi skrifa blaðsins á undanförnum mánuðum um nauðsyn þess að efla opinberar eftirlitsstofnanir til þess að fylgjast með því að viðskiptalífið starfi innan settra starfsreglna. Formaður Framsóknarflokksins sagði:

"Framsóknarflokkurinn hefur lagt áherzlu á tvennt varðandi þann þátt á undanförnum árum. Í fyrsta lagi að tryggja Fjármálaeftirliti og Samkeppnisstofnun fjármagn og lagaheimildir til að halda uppi öflugu eftirliti með markaðnum. Með auknu frelsi er nauðsynlegt að ríkisvaldið tryggi eins og kostur er að viðskiptahættir séu löglegir og siðlegir. Í öðru lagi að tryggja sjálfstæði þessara stofnana. Þær eru ekki undir pólitískri stjórn heldur faglegri. Þær taka sjálfar ákvarðanir um rannsóknir mála, eftirlit með starfsemi og allar sínar aðgerðir á eigin forsendum og án afskipta ráðuneyta, ráðherra eða ríkisstjórnar.

Á alþjóðavettvangi og einnig hér innanlands hefur athygli manna beinzt í auknum mæli að hinu flókna valdatafli sem á sér stað í fjármálalífinu. Í kjölfarið hefur sprottið upp umræða um það hvort nægilegt aðhald sé með fjármálamarkaðnum og hvort almennum siðareglum sé þar fylgt og þá hvernig. Við framsóknarmenn höfum lengi barizt fyrir öflugum eftirlitsstofnunum á þessu sviði svo tryggt sé að almennum leikreglum sé fylgt. Með þessu erum við ekki að leggja til að atvinnulífið verði hneppt í fjötra hafta og skrifræðis heldur miklu fremur að jafnræði gildi við mat á aðstæðum þegar í húfi eru gríðarlegar upphæðir og heill atvinnufyrirtækja, einstaklinga og jafnvel byggðarlaga."

Þessi ummæli formanns Framsóknarflokksins eru þýðingarmikil nú um stundir. Væntanlega nefnir hann einungis þessar tvær af fjórum eftirlitsstofnunum hins opinbera vegna þess að þær heyra undir ráðuneyti Framsóknarflokksins. En auðvitað á það sama við um Ríkislögreglustjóraembættið og þá sérstaklega efnahagsbrotadeild þess í þessu samhengi og embætti skattrannsóknarstjóra.

Ummæli formanns Framsóknarflokksins um landbúnaðinn eru sterk vísbending um að flokkur hans sé nú tilbúinn að laga sig að breyttum viðhorfum. En Halldór Ásgrímsson sagði í ræðu sinni um landbúnaðarmálin:

"Landbúnaðurinn er sífellt að færast nær alþjóðlegu umhverfi með meira frjálsræði í viðskiptum. Nýjustu tillögur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar eru lýsandi dæmi um hvers er að vænta. Frjálsari viðskipti, meiri samkeppni og vöruþróun er því umhverfi sem landbúnaðurinn þarf að búa sig undir. Landbúnaðurinn á að líta á þessar aðstæður sem tækifæri. Tækifæri til þess að sækja fram í breyttu umhverfi. Á heimsmarkaði er vaxandi markaður fyrir náttúrulegar afurðir sem neytandinn er tilbúinn að greiða gott verð fyrir. Þarna tel ég að liggi mikil sóknarfæri ef rétt er á haldið."

Á þennan veg hefur formaður í Framsóknarflokki ekki talað áður og þess vegna eru þessi ummæli Halldórs Ásgrímssonar nokkur tíðindi.

Skýrar yfirlýsingar formanns Framsóknarflokksins um lækkun á tekjuskatti einstaklinga vekja einnig mikla athygli. Í ljósi yfirlýsinga Davíðs Oddssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, á Viðskiptaþingi á dögunum um skattalækkanir á næsta kjörtímabili er ljóst að núverandi stjórnarflokkar eru samstiga í þessum efnum. Það markmið Halldórs Ásgrímssonar að lækka tekjuskatt niður í 35,2% eða sömu prósentutölu og tekjuskatturinn fór í þegar staðgreiðsla skatta var tekin upp fyrir 15 árum er skynsamleg.

Þegar á heildina er litið er ljóst að Halldór Ásgrímsson hefur lagt fram býsna heilsteypta stefnu fyrir miðjuflokk í ræðu sinni við upphaf flokksþings Framsóknarflokksins. Það má því gera ráð fyrir að baráttan um atkvæði á þeim vettvangi verði hörð í aðdraganda kosninganna. Staða Framsóknarflokksins í skoðanakönnunum hefur verið erfið að undanförnu. En með þessari ræðu hefur formaður Framsóknarflokksins skapað flokki sínum sterka vígstöðu í upphafi kosningabaráttunnar.