UPP úr áramótunum s.l. barst mér bréf frá RÚV um að ég ætti að skila skýrslu um viðtæki og greiðslu afnotagjalda af þeim. Þar sem greiðsla þessara gjalda er óbreytt frá því sem verið hefur taldi ég enga ástæðu til að gera mér rellu af þessu, þetta væri...
UPP úr áramótunum s.l. barst mér bréf frá RÚV um að ég ætti að skila skýrslu um viðtæki og greiðslu afnotagjalda af þeim.

Þar sem greiðsla þessara gjalda er óbreytt frá því sem verið hefur taldi ég enga ástæðu til að gera mér rellu af þessu, þetta væri e.t.v. einhver mistök hjá RÚV að krefja mig um sérstaka skýrslu. Gjöldin eru greidd gegnum banka og hefir það ekki brugðist svo ég viti; þegar bankinn tók þetta að sér var það gert í samráði við RÚV, að sjálfsögðu. RÚV getur því fylgst með greiðslunum hjá sér stympingalaust ef yfirmenn þar á bæ kæra sig um. Gangi tækið úr sér verður það væntanlega yngt upp, en greiðslurnar verða óbreyttar.

Í öðru bréfi, sem var að berast er krafa um að skila skýrslu og lögð áhersla á að um sé að ræða ítrekun. Vitnað er til laga varðandi gjaldskyldu og verð ég að segja það hér að ég hefi ekki dregið þá skyldu í efa, þvert á móti hefi ég reynt að baktryggja að allt skili sér á réttum tíma.

Í bréfi RÚV er klykkt út með þessu: "Berist ekki svar við fyrirspurn okkar mun tækjaleitardeild taka málið til afgreiðslu. Ríkisútvarpið er í eigu allra Íslandinga. Þess vegna greiða öll heimili og fyrirtæki afnotagjaldið."

Þetta síðasta er að vísu ekki alveg rétt. Það rétta er að samkvæmt lögunum, sem vitnað er til í bréfinu, ber öllum eigendum viðtækja að greiða afnotagjald af þeim.

Ekki er, að því er ég best veit, í þessum lögum né öðrum lagt á herðar skilvísum greiðendum að skila RÚV skýrslum um þetta.

Ég skora því á þennan hóp að sleppa því að ansa þessu ömurlega erindi.

ÓLAFUR GUÐMUNDSSON,

Hraunbæ 70, Reykjavík.

Frá Ólafi Guðmundssyni: