Kynningarfundur var haldinn í Giljaskóla vegna komu flóttafólksins til Akureyrar. F.v. Úlfar Hauksson, formaður stjórnar Rauða kross Íslands, Sigrún Árnadóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins, og Hafsteinn Jakobsson, framkvæmdastjóri Akureyrardeildar Rauð
Kynningarfundur var haldinn í Giljaskóla vegna komu flóttafólksins til Akureyrar. F.v. Úlfar Hauksson, formaður stjórnar Rauða kross Íslands, Sigrún Árnadóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins, og Hafsteinn Jakobsson, framkvæmdastjóri Akureyrardeildar Rauð
AKUREYRARBÆR samþykkti á síðasta ári að taka á móti flóttamönnum frá fyrrum lýðveldum Júgóslavíu og eru þeir væntanlegir til landsins þann 25. mars nk. og norður til Akureyrar daginn eftir.
AKUREYRARBÆR samþykkti á síðasta ári að taka á móti flóttamönnum frá fyrrum lýðveldum Júgóslavíu og eru þeir væntanlegir til landsins þann 25. mars nk. og norður til Akureyrar daginn eftir. Hér er um að ræða samstarfsverkefni Akureyrarbæjar, Rauða kross Íslands og félagsmálaráðuneytisins, sem stendur straum af kostnaði við verkefnið.

Í vikunni var boðað til kynningarfundar vegna komu flóttafólksins, þar sem m.a. var farið yfir hlutverk bæjarfélagsins, hlutverk Rauða krossdeildar, starf sjálfboðaliða, auk þess sem farið var yfir það úr hvernig umhverfi flóttafólkið kemur. Alls koma 6 fjölskyldur til Akureyrar og er fólkið á aldrinum 2ja ára til 55 ára, 11 börn og 13 fullorðnir.

Pétur Bolli Jóhannesson, verkefnisstjóri hjá Akureyrarbæ, sagði að undirbúningur vegna komu flóttafólksins hefði gengið vel. Búið er að finna fólkinu húsnæði í Gilja- og Síðuhverfi og verið er að safna húsgögnum, húsbúnaði og fatnaði. Þá er verið að leita eftir stuðningsfjölskyldum, sem einnig hefur gengið þokkalega, að sögn Péturs Bolla. Hann sagði að það þyrfti 18 stuðningsfjölskyldur í þetta verkefni, eða þrjár á hverja nýbúafjölskyldu.

Pétur Bolli sagði að unnið hefði verið að fræðslu- og heilbrigðismálum en að ekki væri enn farið að skoða atvinnumöguleika fólksins, þar sem ekki væri gert ráð fyrir að það ynni fyrstu þrjá mánuðina. Fólkið fær strax kennslu í íslensku og samfélagsfræðum en í haust munu börnin svo ganga í grunnskóla í sínu hverfi. Verkefnið stendur yfir í eitt ár en eftir það á fólkið að geta staðið á eigin fótum.

Flóttafólkið er af serbneskum uppruna en það var hrakið frá heimilum sínum í Króatíu og hefur dvalið í flóttamannabúðum í 6-8 ár, við afar bágborin kjör og litla sem enga heilbrigðisþjónustu. Akureyrardeild Rauða krossins sér um að safna húsbúnaði og fatnaði fyrir fólkið og þangað geta þær fjölskyldur sem vilja veita fólkinu stuðning einnig snúið sér.