MINNKANDI notkun endurskinsmerkja í skammdeginu er áhyggjuefni. Það getur nefnilega skipt sköpum varðandi líf og dauða hvort gangandi vegfarendur sjást í myrkri eða ekki.
MINNKANDI notkun endurskinsmerkja í skammdeginu er áhyggjuefni. Það getur nefnilega skipt sköpum varðandi líf og dauða hvort gangandi vegfarendur sjást í myrkri eða ekki. Með endurskinsmerki sjá ökumenn okkur í 120-130 metra fjarlægð, en án þeirra í aðeins 20-30 metra fjarlægð. Ökumenn eiga því mun meiri möguleika á að taka tillit til gangandi vegfarenda með endurskinsmerki en þeirra sem eru án þeirra.

Endurskinsmerki eiga að sjást frá öllum hliðum og þau eiga að vera neðarlega á flík. Það er t.d. ágætt að hengja eitt merki í hvorn vasa, og það á að hanga í u.þ.b. 50 sentimetra langri snúru. Hangandi merki sveiflast til á göngu og virka eins og blikkljós þegar bílljós skína á þau.

Fyrir börn er best að kaupa úlpur og galla með áföstu endurskini. Best er að það sé neðarlega, t.d. neðst á úlpukanti eða fremst á ermum. Ef endurskinsmerki eru ekki á flík er hægt að kaupa endurskinsborða til þess að sauma eða líma á fatnað. Einnig eru til endurskinsbelti og skábönd sem á að setja yfir öxl. Skábönd og belti eru mjög hentug fyrir skokkara og göngufólk. Þá eru einnig til endurskinsklemmur sem hægt er að festa á föt og borðar sem hægt er að smeygja um handlegg eða fót. Hlaupaskór eru oft með áföstu endurskini, einnig stígvél og margar skólatöskur. Það er um að gera að velja fatnað, skó eða skólatöskur sem eru með endurskini frá framleiðenda. Endurskinsmerki sem hægt er að líma eru góð til þess að setja á barnavagna og kerrur, ólar á hunda og ketti, á skíðastafi, sleða og bakpoka.

Endurskinsmerki fást í lyfjaverslunum um allt land. Dreifingaraðili er t.d. vinnustofan Ás, Brautarholti 6 í Reykjavík.

Endurskinsmerki eiga að vera CE-merkt, en það þýðir að varan uppfyllir ákveðnar gæðakröfur.

Endurskinsmerki eru ekki bara nauðsynleg fyrir börn, þau eru nauðsynleg fyrir fólk á öllum aldri.

Margrét Sæmundsdóttir, fræðslufulltrúi Umferðarstofu

Frá Landlæknisembættinu