William Kristol
William Kristol
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
SAMSKIPTI Bandaríkjanna og Íraks eru mikið í sviðsljósinu þessa dagana og margir sem velta vöngum yfir mögulegri árás Bandaríkjahers á Írak og sögunni þar að baki.
SAMSKIPTI Bandaríkjanna og Íraks eru mikið í sviðsljósinu þessa dagana og margir sem velta vöngum yfir mögulegri árás Bandaríkjahers á Írak og sögunni þar að baki. Sérfræðingar hafa ekki látið sitt eftir liggja við að velta hinum ýmsu hliðum málsins fyrir sér og leita svara við margvíslegum spurningum, enda hefur bókaútgáfa ekki farið varhluta af þessari þróun.

Nú í byrjun árs hefur t.d. verið gefin út bókin The War over Iraq: Saddam's Tyranny and America's Mission , eða Stríðið um Írak: Harðstjórn Saddams og köllun Bandaríkjanna eftir þá William Kristol og Lawrence F. Kaplan. Í bók sinni takast höfundarnir á við spurningar á borð við þær hvort að stríð sé raunverulega nauðsynlegt, hvað geti áunnist með því og hvaða sýn á utanríkisstefnu Bandaríkjanna liggi að baki þeirri staðfestu að Saddam Hussein þurfi að fjarlægja úr valdastóli. Kristol og Kaplan eru hlynntir aðgerðum gegn Saddam og útskýra ástæður skoðana sinna ítarlega í bókinni.

Það sem fjölmiðlarnir segja ekki

BÓK Norman Solomons, sem einnig kom út á þessu ári, Target Iraq: What the News Media Didn't Tell You , eða Skotmarkið Írak: Það sem fjölmiðlarnir segja þér ekki. Solomon þykir draga fram ljóta mynd af veruleikanum, en í skrifum sínum leitast hann við að afhjúpa hinn ljóta veruleika stríðs og þær afleiðingar sem því fylgja, sem og hvernig fjölmiðlar bregðist þeirri skyldu sinni að upplýsa almenning um öll þau málefni sem Íraksdeilunni tengjast. Auk þess geymir bókin nokkrar af ræðum Bush um málið, þar sem ræðurnar eru skoðaðar línu fyrir línu og texti þeirra rannsakaður.

Illviðri í aðsigi

THE Threatening Storm , sem útleggja má sem Illviðri í aðsigi, er verk Bandaríkjamannsins Kenneth M. Pollack, eins helstu sérfræðinga um málefni Íraks, en í bók sinni leitast hann við að draga upp mynd af þeim málefnum sem Bandaríkin verða að takast á við verði ráðist á Írak. Pollack hefur sl. fimmtán ár starfað sem sérstakur sérfræðingur í málefnum Íraks fyrir CIA, bandarísku leyniþjónustuna, og þykir hann flestum fróðari um Saddam Hussein. Hann var t.d. einn af aðeins þremur sérfræðingum CIA sem sá fyrir árás Íraka í Kúveit 1990.

Það sem starfshópur Bush vill ekki að þú vitir

Að lokum má svo nefna bók þeirra William Rivers Pitt og Scott Ritter, War on Iraq: What Team Bush Doesn't Want You to Know . Þar fjalla höfundarnir um þær rökræður sem undanfarið hafa átt sér stað í Washington og víðar um mögulega árás á Írak. Og ræðir Pitt m.a. við Ritter, sem er fyrrum starfsmaður vopnaeftirlitsnefndar SÞ, um þau rök sem liggi að baki stefnu Bush-stjórnarinnar.