SKÁKFÉLAGIÐ Hrókurinn efnir til fjölskylduhátíðar á Kjarvalsstöðum við Flókagötu í Reykjavík á morgun, sunnudag, kl. 13 - 17.
SKÁKFÉLAGIÐ Hrókurinn efnir til fjölskylduhátíðar á Kjarvalsstöðum við Flókagötu í Reykjavík á morgun, sunnudag, kl. 13 - 17. Skákmeistarar á Stórmóti Hróksins taka þátt í hátíðinni ásamt fjölmörgum Íslendingum og gefst gestum kostur á að taka þátt í risafjöltefli við þá. Götuleikhúsið verður með uppákomu í tilefni dagsins, efnt verður til risafjölteflis og hraðskákeinvígis.

Efnt verður til tvískákkeppni og munu þar Jónsi úr hljómsveitinni Í svörtum fötum og Birgitta Haukdal söngkona mætast á skákborðinu og verða bæði með stórmeistara sér til fulltingis. Fleiri tvískákkeppnir eru á dagskrá og meðal þeirra sem koma við sögu eru Logi Bergmann Eiðsson fréttamaður, Ólafur Þórðarson landsliðsþjálfari og KK. Þá munu Birgitta Haukdal og KK taka lagið saman, Geirfuglarnir koma fram og Bubbi Morthens mun lýsa fyrir áhorfendum hraðskákeinvígi milli Villa úr sjónvarpsþættinum At og Sveppa úr Popp TV.

Frídagur er í Stórmóti Hróksins á Kjarvalsstöðum á sunnudaginn, og munu flestir keppendanna taka þátt í hátíðinni með einum eða öðrum hætti. Meðal þeirra verða Alexei Shirov, Ivan Sokolov, Luke McShane, Stefán Kristjánsson, Macieja o.fl. Þá verður Friðrik Ólafsson sérstakur gestur hátíðarinnar og mun tefla fjöltefli við liðsmenn úr skákfélagi eldri borgara.

Aðgangur er ókeypis og verður boðið upp á grillaðar Goðapylsur og gosdrykki frá Ölgerðinni, auk góðgætis af ýmsu tagi, segir í fréttatilkynningu.