LANDAMÆRADEILD sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli vísaði í síðustu viku sjö rúmenskum ríkisborgurum frá landinu. Þegar fólkið kom til landsins sótti það um hæli en dró síðan hælisumsóknina til baka og var því þá vísað úr landi.
LANDAMÆRADEILD sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli vísaði í síðustu viku sjö rúmenskum ríkisborgurum frá landinu. Þegar fólkið kom til landsins sótti það um hæli en dró síðan hælisumsóknina til baka og var því þá vísað úr landi. Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli segir að þegar um slíkan fjölda einstaklinga sé að ræða í einni og sömu ferðinni vakni óhjákvæmilega grunsemdir um að um skipulagða brotastarfsemi sé að ræða.

Í tilkynningu frá embætti sýslumannsins segir að ólöglegir innflytjendur sæki í auknum mæli til Íslands í atvinnuleit. Landamæradeild sýslumannsembættisins hafi í samvinnu við Útlendingastofnun brugðist við því með hertu eftirliti með dvalar- og atvinnuleyfum við komu erlendra ríkisborgara til landsins.

14 vísað úr landi

Það sem af er árinu 2003 hefur lögreglan á Keflavíkurflugvelli vísað 14 erlendum ríkisborgurum úr landi, þar af þremur Bandaríkjamönnum, þremur Lettum, sjö Rúmenum og einum Eþíópíumanni. Af þessum 14 var 12 vísað frá vegna skorts á dvalar- eða atvinnuleyfum. Er þar um að ræða verulega aukningu miðað við síðustu 2 ár en í fyrra var 64 erlendum ríkisborgurum vísað frá, þar af 14 vegna skorts á dvalar- eða atvinnuleyfum. Á árinu 2001 var 103 einstaklingum vísað frá landinu, þar af 9 vegna skorts á áðurnefndum leyfum.

Verulegt umstang getur fylgt frávísun erlendra ríkisborgara frá landinu, m.a. vegna þess að í mörgum tilvikum þurfa lögreglumenn frá embættinu að fylgja þeim úr landi til ákvörðunarstaðar þeirra.