Slökkviliðs- og björgunarmenn bera lík út úr næturklúbbnum The Station í West Warwick í Rhode Island eftir eldsvoðann mannskæða í fyrrinótt.
Slökkviliðs- og björgunarmenn bera lík út úr næturklúbbnum The Station í West Warwick í Rhode Island eftir eldsvoðann mannskæða í fyrrinótt.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
AÐ MINNSTA kosti 95 manns fórust þegar eldur blossaði upp á stjörnuljósasýningu á tónleikum rokkhljómsveitar í næturklúbbi í West Warwick í Rhode Island í fyrrinótt.
AÐ MINNSTA kosti 95 manns fórust þegar eldur blossaði upp á stjörnuljósasýningu á tónleikum rokkhljómsveitar í næturklúbbi í West Warwick í Rhode Island í fyrrinótt. Húsið varð alelda á þremur mínútum og mikill troðningur varð þegar fólkið hljóp í ofboði að aðaldyrunum. Yfir 180 manns voru fluttir á sjúkrahús og búist var við að dánartalan myndi hækka þar sem nokkurra var enn saknað.

Eldurinn kviknaði þegar rokkhljómsveitin Great White var að hefja tónleikana og stjörnuljós skutust upp í nokkrar sekúndur. Eldurinn læsti sig um plasthljóðeinangrun á bak við hljómsveitina og breiddist út um loftið á örskammri stundu. Húsið fylltist af þykkum, svörtum reyk og varð alelda áður en slökkvilið kom á staðinn.

Héldu að eldurinn væri hluti af sýningunni

Sjónarvottar sögðu að tónleikagestirnir hefðu í fyrstu haldið að eldurinn væri þáttur í stjörnuljósasýningunni og haldið áfram að fagna hljómsveitinni. Þegar eldurinn tók að breiðast út fóru nokkrir að aðaldyrum hússins en ofsahræðsla greip síðan um sig. Fólkið hljóp að aðaldyrunum en margir komust ekki út vegna troðningsins.

Flest líkin fundust nálægt framdyrum hússins og mörg þeirra voru illa brunnin. Aðrir köfnuðu eða tróðust undir.

"Þau reyndu að fara út sömu leið og þau komu inn. Það var vandamálið," sagði sagði Charles Hall, slökkviliðsstjóri í West Warwick, um 25 km suðvestan við Providence, helstu borg Rhode Island. "Þau notuðu ekki hina neyðarútgangana þrjá."

Hafði ekki leyfi til stjörnuljósasýningar

Slökkviliðsstjórinn sagði að næturklúbburinn hefði staðist eldvarnakröfur við skoðun 31. desember eftir smávægilegar lagfæringar. Skemmtistaðurinn hefði ekki haft leyfi til stjörnuljósasýningarinnar og engin úðunartæki hefðu verið í húsinu, enda hefði þess ekki verið krafist vegna þess að byggingin var tiltölulega lítil.

Jack Russell, aðalsöngvari Great White, kvaðst hafa rætt við framkvæmdastjóra næturklúbbsins fyrir tónleikana og hann hefði samþykkt stjörnuljósasýninguna. Sviðstæknimaður skemmtistaðarins, Paul Vanner, kvaðst þó ekki hafa vitað að hljómsveitin ætlaði að skjóta upp stjörnuljósum. Hann sagði að slíkar sýningar hefðu áður verið haldnar á tónleikum í næturklúbbnum, en alltaf undir eftirliti sérfræðings með tilskilin starfsleyfi. Í þetta sinn hefði enginn eftirlitsmaður verið á sviðinu.

Slökkviliðsstjórinn sagði að 300 manns hefðu mátt vera í húsinu en færri hefðu verið á tónleikunum. Næturklúbburinn nefndist The Station og var í einnar hæðar byggingu sem var reist fyrir um 60 árum.

"Þau gátu ekkert gert"

Aðeins sviðin grind hússins stóð uppi. Hundruð slökkviliðs- og lögreglumanna voru á staðnum og báru illa brunnin lík úr rústunum.

Nokkurra var enn saknað, þeirra á meðal Ty Longley, gítarleikara Great White. Yngstu fórnarlömb eldsins voru á táningsaldri og þau elstu um fertugt.

Robin Petrarca, 44 ára kona á meðal tónleikagestanna, var einn og hálfan metra frá dyrunum en sagði að reykurinn hefði verið svo þykkur að hún hefði ekki séð þær. Hún hrasaði og lenti í troðningnum en komst út. "Þau gátu ekkert gert, eldurinn gaus svo hratt upp."

Tók brunann upp á myndband

Brian Butler var að taka tónleikana upp á myndband fyrir sjónvarpsstöðina WPRI vegna fréttar um öryggismál næturklúbba. Á upptökunni sáust hrúgur af fólki, sem lá hvað ofan á öðru og reyndi að skríða út úr skemmtistaðnum.

"Sumir reyndu strax að forða sér [þegar eldurinn gaus upp] en aðrir sátu bara og sögðu "vá, þetta er snjallt" og ég man þessi orð vegna þess að ég hugsaði með mér að þetta væri ekkert snjallt og nú ættu allir að forða sér út," sagði Butler.

"Fólk reyndi að hjálpa hvað öðru og braut rúður," sagði Butler. "Fólkinu var alveg sama um öll skurðsárin, meiðslin og brunasárin, vildi bara komast út úr byggingunni."

"Hvernig gat þetta gerst?"

"Ég fann allt í einu mikinn hita," sagði Russell, söngvari hljómsveitarinnar, sem stökk af sviðinu ásamt félögum sínum þegar hann gerði sér grein fyrir því að ekki yrði hægt að slökkva eldinn. "Ég sá að plastklæðningin logaði og fyrr en nokkurn varði var allt húsið í ljósum logum."

Söngvarinn kvaðst hafa reynt að skvetta vatni úr flösku á eldinn en án nokkurs árangurs og öll ljósin í húsinu hefðu síðan slökknað. "Það var ótrúlegt hvað eldurinn gaus hratt upp."

Don Garcier, ríkisstjóri Rhode Island, kvaðst furða sig á því að slíkt skyldi geta gerst. "Það vakna alls konar spurningar um hvernig þetta gat gerst og hvers vegna þetta gerðist," sagði ríkisstjórinn. "Slökkviliðsstjórinn sagði að stjörnuljósasýningin hefði ekki verið leyfð. Hvers vegna var þetta þá ekki stöðvað?"

Einn mannskæðasti bruni í sögu Bandaríkjanna

Great White er þungarokkshljómsveit og á meðal þekktust laga hennar eru "Once Bitten, Twice Shy" og "Rock Me". Hún var stofnuð í Los Angeles á níunda áratugnum og plötur hennar hafa selst í sex milljónum eintaka. Hún var tilnefnd til Grammy-verðlauna árið 1990.

Þetta er annað stórslysið í bandarískum skemmtistað á fjórum dögum. 21 fórst og yfir 50 slösuðust í miklum troðningi í næturklúbbi í Chicago aðfaranótt mánudags þegar ofsahræðsla greip um sig eftir að öryggisvörður beitti piparúða til að skilja að áflogaseggi.

Eldsvoðinn í fyrrinótt er mannskæðari en bruninn í byggingu sértrúarsafnaðar í Waco í Texas árið 1993 þegar nær 80 manns fórust. Mannskæðasti bruni sögunnar í bandarískum næturklúbbi varð í nóvember 1942 þegar 491 maður fórst í næturklúbbnum Cocoanut Grove í Boston.

West Warwick. AP, AFP.