Hjörtur Magni Jóhannsson, prestur Fríkirkjunnar í Reykjavík, gagnrýndi í prédikun sl. sunnudag tölvubréf, sem Jón Helgi Þórarinsson, formaður Prestafélags Íslands, sendi á póstlista presta 27. febrúar síðastliðinn. Í tölvubréfinu segir m.a.

Hjörtur Magni Jóhannsson, prestur Fríkirkjunnar í Reykjavík, gagnrýndi í prédikun sl. sunnudag tölvubréf, sem Jón Helgi Þórarinsson, formaður Prestafélags Íslands, sendi á póstlista presta 27. febrúar síðastliðinn.

Í tölvubréfinu segir m.a.: "Vitum við hvort að börnin sem ætla að fermast hjá okkur í vor eru í söfnuði okkar eða ekki? Þau geta verið skírð en skráð í allt annað trúfélag, enda fer trúfélagaskráning eftir skráningu móður. Ekki er víst að fólk geri sér alltaf grein fyrir þessu. Það hlýtur að vera eðlilegt að börn sem fermast í þjóðkirkjusöfnuði séu í þjóðkirkjunni [...] Og síðan er eðlilegt að við bendum foreldrum viðkomandi fermingarbarns eða barna á þetta og segjum eðlilegt að þau séu í söfnuðinum. Við eigum viðkomandi eyðublöð um skráningu í trúfélög.

Við þurfum að vera vakandi yfir þessu atriði - og getum þannig án efa fjölgað enn hraðar í þjóðkirkjunni sem er mikilvægt í alla staði - við fáum fyrr fleiri presta til starfa og fleiri bera byrðarnar með okkur þegar fram í sækir. Börn þessara barna verða síðan skráð eftir trúfélagi þeirra ... Þetta er snjóbolti sem er fljótur að hlaða utan á sig."

Hjörtur Magni benti í prédikun sinni á að unglingar á fermingaraldri vildu gjarnan fylgja sínum bekkjarsystkinum og fríkirkjuungmenni vildu þannig mörg fermast í sinni hverfisþjóðkirkju. Þetta er eðlilegt og allnokkur dæmi eru jafnframt um að börn, sem skráð eru í þjóðkirkjuna, vilji fermast í einhverjum af fríkirkjusöfnuðunum. Eðli málsins samkvæmt eru þó fyrrnefndu dæmin án efa miklu fleiri, enda er þjóðkirkjan margfalt stærri en fríkirkjusöfnuðirnir samanlagðir.

Ummæli formanns Prestafélagsins í áðurnefndu tölvubréfi eru óheppileg, alveg burtséð frá því hvort þau voru sett fram sem óformleg orðsending, eins og fram kemur í yfirlýsingu Jóns Helga í Morgunblaðinu í dag. Ekki er hann einasta formaður í félagi, þar sem a.m.k. sumir prestar fríkirkjusafnaðanna eiga jafnframt aðild, heldur vekur það, að bréf af þessu tagi verður opinbert, upp spurningar um það hvort þjóðkirkjan hyggist neyta aflsmunar í samkeppni við önnur trúfélög um fylgismenn og sóknargjöld, sem eru veigamikill fjárhagsgrundvöllur kirknanna í landinu.

Morgunblaðið hefur verið og er þeirrar skoðunar að það sé óréttmætt að halda því fram að trúfélögum sé mismunað fjárhagslega af hálfu ríkisins. Ríkið sér um að innheimta sóknar- eða félagsgjöld fyrir öll trúfélög og hið beina framlag ríkisins til þjóðkirkjunnar er byggt á samkomulagi ríkis og kirkju um kirkjujarðirnar. Þjóðkirkjan nýtur hins vegar í krafti stærðar sinnar, hlutverks, hefðar og sögu mikillar sérstöðu. Stuðningsmenn þjóðkirkjunnar hafa lagt áherzlu á að sú sérstaða felist m.a. í því að hún veiti öllum landsmönnum þjónustu, burtséð frá trúfélagsaðild. Þannig sagði hér í leiðara blaðsins 19. október sl. þar sem málefni kirkjunnar voru til umræðu: "Þjóðkirkjan starfar um allt land og fer ekki í manngreinarálit þegar fólk þarf á aðstoð hennar að halda, spyr aldrei um trúfélagsaðild heldur veitir öllum þjónustu."

Þjóðkirkjan hlýtur að virða rétt annarra trúfélaga. Það er ekki viðeigandi að kirkjan krefjist þess að þeir, sem til hennar leita, skipti um trúfélag. Það á að vera ákvörðun hvers og eins. Sömu háttvísi eiga forystumenn annarra trúfélaga að sjálfsögðu að sýna þjóðkirkjufólki, sem til þeirra leitar.