13. mars 2003 | Íþróttir | 199 orð

Alla, Garcia og Vassell fá ríkisborgararétt

ALLSHERJARNEFND Alþingis samþykkti á fundi sínum í gær að mæla með að nokkrir erlendir ríkisborgarar fengju íslenskan ríkisborgararétt.
ALLSHERJARNEFND Alþingis samþykkti á fundi sínum í gær að mæla með að nokkrir erlendir ríkisborgarar fengju íslenskan ríkisborgararétt. Í þeim hópi eru þrír íþróttamenn, handknattleiksmaðurinn Jaliesky Garcia Padron úr HK, handknattleikskonan Alla Gokorian hjá ÍBV, og körfuknattleiksmaðurinn Keith Vassell, sem leikur með Hamri í Hveragerði.

Alla, sem er rússnesk, hefur búið hér á landi síðan 1998 er hún kom til liðs við Valsstúlkur. Eftir eitt ár þar fór hún til Gróttu/KR og var með liðinu í þrjú ár áður en hún gekk til liðs við Eyjastúlkur fyrir yfirstandandi tímabil.

Garcia, sem er frá Kúbu, er öflug rétthent skytta og hefur verið með markahæstu leikmönnum Íslandsmótsins síðustu þrjú tímabil. Garcia hefur verið orðaður við íslenska landsliðið og svo gæti farið að hann léki sinn fyrsta landsleik þegar um aðra helgi þegar Ísland mætir Þýskalandi í vináttulandsleik ytra.

Vassell kom hingað til lands árið 1998 og lék með KR-ingum í körfunni. Hann lék í eitt ár með vesturbæjarfélaginu, var ekki ráðinn árið eftir en kom síðan á ný og lék í tvö keppnistímabil með liðinu og þjálfaði jafnframt kvennalið félagsins um tíma. Hann hóf yfirstandandi keppnistímabil ekki hér á landi en kom til landsins um áramótin og hefur leikið með Hamri í Hveragerði síðan.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.