KÍTÓSAN, efni sem unnið er úr rækjuskel á Siglufirði, er notað í nýja gerð sáraumbúða sem framleiddar eru fyrir bandaríska herinn. Talið er að umbúðirnar, sem ætlað er að stöðva miklar útvortis blæðingar, eigi eftir að bjarga þúsundum mannslífa.

KÍTÓSAN, efni sem unnið er úr rækjuskel á Siglufirði, er notað í nýja gerð sáraumbúða sem framleiddar eru fyrir bandaríska herinn. Talið er að umbúðirnar, sem ætlað er að stöðva miklar útvortis blæðingar, eigi eftir að bjarga þúsundum mannslífa.

Primex ehf. á Siglufirði sérhæfir sig í framleiðslu á kítíni og kítósani, sem unnið er úr rækjuskel. Fyrirtækið hefur gert samning við bandaríska fyrirtækið HemCon um notkun kítósans í nýja gerð sáraumbúða sem HemCon hefur þróað í samstarfi við við bandaríska herinn, sem býr sig nú af kappi fyrir átök við Persaflóa.

Jóhannes Gíslason, rannsókna- og þróunarstjóri Primex, segir að HemCon noti kítósan í framleiðslu sáraumbúða sem séu sérstaklega hannaðar til að ráða við erfiðar blæðingar. Hann segir að kítósan sé jákvætt hlaðin fjölsykra og náskyld mikilvægri fjölsykru í mannslíkamanum.

"Geysileg viðurkenning"

"Mannslíkaminn hafnar þannig ekki kítósaninu sem myndar blóðkökk í sári og stöðvar þannig blæðingu með því að líma saman sárið. Það hafa verið gerðar ýmsar tilraunir í þessa veru en þetta mun í fyrsta sinn sem þessi vara er sett á markað. Það felst geysileg viðurkenning í því að vara frá okkur skuli vera sú fyrsta sinnar tegundar sem er viðurkennd af heilbrigðisiðnaðinum," segir Jóhannes.

Tilraunir með noktun kítósans í sáraumbúðir hófust fyrir aðeins tæpum tveimur árum og hlutu þær samþykki bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitsins í nóvember sl. Jóhannes segir að HemCon hafi þróað sáraumbúðirnar í samstarfi við bandaríska herinn og það hafi vissulega hjálpað til við að umbúðirnar fengu skjóta afgreiðslu og viðurkenningu frá bandarískum yfirvöldum.

Hann segir að kítósan hafi ótal eiginleika og möguleikarnir til hagnýtingar því margir. Hinsvegar sé efnið í sumum tilfellum of dýrt til að hægt sé að nýta eiginleika þess. "Í þessu tilfelli er verið að nýta einstaka eiginleika kítósans og önnur efni með sömu eiginleika eru ekki til. Við erum með fleiri járn í eldinum, enda stærsti framleiðandi kítósans á Evrópumarkaði og höfum meðal annars tekið þátt í Evrópuverkefni sem miðar að því að nota kítósan til lækninga á beinbrotum. Samstarfið við HemCon hefur hinsvegar skilað okkur hvað lengst inn á heilbrigðismarkaðinn. Þetta er mjög stórt skref í rétta átt og á vafalaust eftir að skila okkur lengra inn á þennan markað."

Geta bjargað þúsundum mannslífa

Sáraumbúðirnar þykja bylting í gerð slíkra umbúða, sem hafa nánast ekkert þróast í marga áratugi. Í grein í bandaríska dagblaðinu New York Times fyrr í þessum mánuði segir að kítósan-sáraumbúðirnar geti bjargað þúsundum mannslífa, enda sé blæðing helsta dánarorsök hermanna á vígvellinum, þar sem oft geti orðið löng bið eftir réttri meðferð. Þá er talið að umbúðirnar muni einnig nýtast almennum borgurum, enda megi árlega rekja um 70 milljónir heimsókna á bráðamóttökur bandarískra sjúkrahúsa til útvortis blæðinga. Hafa læknar þegar leitað eftir því að fá að nota umbúðirnar, m.a. í áhættusömum heilaskurðaðgerðum. Í greininni kemur fram að bandaríski herinn hafi þegar pantað 20 þúsund sáraumbúðir sem framleiddar eru úr kítósan.