Brian Gorlic, svæðisfulltrúi Flóttamannastofnunar SÞ.
Brian Gorlic, svæðisfulltrúi Flóttamannastofnunar SÞ.
"ENN hafa ekki flóttabörn komið til Íslands en það mun gerast og þá er mikilvægt að vera undir það búinn," segir Brian Gorlic, svæðisfulltrúi Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna fyrir Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin.

"ENN hafa ekki flóttabörn komið til Íslands en það mun gerast og þá er mikilvægt að vera undir það búinn," segir Brian Gorlic, svæðisfulltrúi Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna fyrir Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin. Hann ræddi um vanda flóttabarna á árlegri ráðstefnu um hælisleitendur á vegum Rauða kross Íslands, en ráðstefnan var haldin í samvinnu við Flóttamannastofnun SÞ. Ráðstefnuna sátu m.a. fulltrúar Barnaverndarstofu, Umboðsmanns barna, dómsmálaráðuneytisins, lögreglunnar og Útlendingastofnunar.

Að sögn Gorlics má skipta flóttabörnum í þrjá meginflokka, þ.e. börn sem flúið hafa heimkynni sín eftir að hafa verið þvinguð til að gegna herskyldu, börn á flótta undan þrældómi af ýmsu tagi, s.s. kynlífsþrælkun eða vinnuþrælkun og börn á flótta frá stríðshrjáðum löndum og undan ofsóknum af ýmsu tagi. Öll eiga flóttabörnin sameiginlegt að hafa orðið viðskila við foreldra sína.

Árlega leita 150 til 400 flóttabörn hælis á hverju Norðurlandanna og segir Gorlic að Svíþjóð hafi byggt upp fyrirmyndarkerfi til að taka á móti börnunum. Settar hafa verið á stofn fjórar sérhæfðar móttökumiðstöðvar fyrir börn þar sem þeim er haldið aðgreindum frá öðrum hælisleitendum. Lögð er áhersla á skjóta afgreiðslu og sérhæfða félagsráðgjöf og fleira til að koma til móts við þarfir barnanna.

Sérhæfða aðstöðu fyrir börn vantar

"Flóttabörn án foreldrafylgdar hafa enn ekki komið til Íslands en mun koma að því e.t.v. ef til stríðs kemur í Írak. Það er margt sem yfirvöld og ýmis samtök geta gert til að búa sig undir komu þeirra, s.s. að koma á fót aðstöðu til að taka á móti þeim þar sem grundvallarþörfum þeirra er sinnt. Það er mikilvægt að þau fái skjóta afgreiðslu mála sinna. Í undirbúningsskyni væri gott að íslensk yfirvöld, í samvinnu við hlutaðeigandi samtök, skipulegðu sig í þessa veru. Þótt margt sé vel gert hér, virðist ekki vera gert sérstaklega ráð fyrir flóttabörnum í hælisleit."

Gorlic segir að búist megi við einni milljón flóttamanna frá Írak ef stríð brýst út. Líklegt sé að einhverjir þeirra leiti hingað til lands, þar á meðal flóttabörn sem orðið hafa viðskila við foreldra sína.

Í fyrra leituðu um 60 þúsund manns hælis á Norðurlöndunum, þar af 6 þúsund í Danmörku og 33 þúsund í Svíþjóð. Til samanburðar má nefna að 117 hælisleitendur komu hingað til lands í fyrra.