Margrét Bóasdóttir
Margrét Bóasdóttir
Ljóðasöngvar eftir Schubert og Wolf. Margrét Bóasdóttir sópran, Miklós Dalmay píanó. Upplestur söngtexta: Tinna Gunnlaugsdóttir. Sunnudaginn 15. marz kl. 16.

"ÁSTIN og afbrýðin" var yfirskrift á tónleikum Margrétar Bóasdóttur og Miklósar Dalmay í Salnum á sunnudag. Skýringin fólst í viðfangsefninu. Fyrst í tólf völdum ástarvísum úr miklum ljóðasöngvasjóði Schuberts, en eftir hlé í sönglögum Hugos Wolf við fjögur ljóð eftir Goethe og ellefu þýzkþýdd ljóð úr spænsku og loks Ítölsku ljóðabókunum svokölluðu. M.ö.o. mikil og metnaðarfull dagskrá eftir tvö fremstu tónskáld greinarinnar þar sem vandað var til eftir föngum, enda allt sungið blaðlaust.

Því miður er ekki alveg óþarft að taka slíkt fram, enda þónokkuð um að hérlendir ljóðasöngvarar stytti sér leið með aðstoð nótnapúlts. Þó e.t.v. skiljanlegra í landi þar sem nýting tiltekinnar dagskrár verður aldrei nema smábrot af því sem gerist í fjölmennari löndum. Þar geta hljómlistarmenn auðveldlega treinað sér sama verkefnið svo mánuðum og misserum skiptir. Má í því sambandi kalla undrunarefni hvað íslenzkir hljómlistarmenn leggja oft mikinn undirbúning á sig fyrir örfá eða jafnvel aðeins eitt flutningstækifæri.

Tinna Gunnlaugsdóttir leikkona las upp viðkomandi ljóðaþýðingu Kristjáns Vals Ingólfssonar á undan hverju lagi, og var það skemmtileg tilbreyting frá venjulegum frágangi söngtexta í tónleikaskrá. Byrjað var í léttasta Schubertenda með Lachen und Weinen, Heimliches Lieben, Klärchens Lied og Seligkeit, þar sem síðasttalda tókst bezt. Liebhaber in allen Gestalten, Das Mädchen, Vergebliche Liebe og Die Männer sind mechant komu næst, og þótti undirrituðum textatúlkunin þar frekar litarýr, m.a.s. í jafnþakklátu og "píköntu" lagi og karlakveinstöfum Seidls. Hæga ballaðan Blondel zu Marien hóf síðustu Schuberthrinuna og fylgdu Du liebst mich nicht, Daß sie hier gewesen og Bei Dir (Með þér - minnti í textaúrvinnslu Seidls óneitanlega á samnefndan söngtexta Jónasar Árnasonar) í kjölfarið. Píanóleikur Dalmays var laufléttur við hæfi, en inntónunaröryggi söngvarans mátti stöku sinnum vera meira. Einkum úr því að töluvert var um slétta raddbeitingu, sjálfsagðan tjáningarþátt í ljóðasöng enda þótt ætti sízt við á efstu og kraftmestu nótum, sem fyrir vikið áttu til að skorta fyllingu og hlýju.

Söngtúlkunin varð viðameiri í hinum blóðheitu suðrænu ástarsöngvum meistara Wolfs, og var forvitnilegt að upplifa muninn á þjóðarskapgerð Spánverja og Ítala eins og þar kom fram. Afkomendur Íbera virtust mun jarðnærri og skapheitari en ítölsku stúlkurnar, sem báru aftur meira innra með sér þótt héldust þóttafyllri og kenjóttari hið ytra. Hér reyndi meira á píanistann en í Schubert. Stundum raunar svo mjög að sönglínan virtist aukaatriði. Samt féll hvergi skuggi á meistaralegan leik Miklósar, mótaðan ýmist af markvissum skapþunga eða munaðarfullum þokka, en ávallt tandurskýran. Meðal hápunkta hjá Margréti mætti í Goetheljóðunum nefna hið gáskafulla Philine (textafrösunin hefði að vísu mátt vera frjálslegri í takti, nær "kabaretti") og hið seiðandi Die Bekehrte, en inntónuninni skjátlaðist aftur á klímöxum hins stormandi Hoch beglückt in deiner Liebe.

Í spænsku ljóðunum var snareygur telpusvipur yfir kastaníettudansinum In dem Schatten meiner Locken, en áköfustu veiin og sveiin í Wehe der[...] hljómuðu frekar skræk. Kankvísi fyrstu tveggja ítölsku laganna skilaði sér hins vegar ágætlega með geisladoppóttum stuðningi Miklósar (Du denkst[...]) og Nein, junger Herr, og töluverður næmleiki var einnig yfir Wir haben beide lange Zeit geschwiegen. Raddfyllingarskortur efra hlaut hins vegar að hrjá nokkuð hin krefjandi og ástríðufullu lokalög Man sagt mir[...] og Wenn du mein Liebster steigst zum Himmel auf.

Ríkarður Ö. Pálsson