Gamla frystihús Síldarvinnslunnar á Neskaupstað þar sem eldur kom upp við tökur á Hafinu árið 2001. Húsið skemmdist mjög mikið í brunanum.
Gamla frystihús Síldarvinnslunnar á Neskaupstað þar sem eldur kom upp við tökur á Hafinu árið 2001. Húsið skemmdist mjög mikið í brunanum.
SÍLDARVINNSLAN í Neskaupstað hefur stefnt kvikmyndafélaginu Sögn ehf. og Tryggingamiðstöðinni hf. (TM) vegna 76 milljóna króna tjóns sem varð þegar efri hæð gamla frystihússins á Neskaupstað eyðilagðist í eldsvoða 8. desember 2001.

SÍLDARVINNSLAN í Neskaupstað hefur stefnt kvikmyndafélaginu Sögn ehf. og Tryggingamiðstöðinni hf. (TM) vegna 76 milljóna króna tjóns sem varð þegar efri hæð gamla frystihússins á Neskaupstað eyðilagðist í eldsvoða 8. desember 2001. Tjónið varð þegar eldur sem verið var að kvikmynda fyrir kvikmyndina Hafið fór úr böndunum.

Lögmaður Síldarvinnslunnar, Gísli Baldur Garðarsson hrl., segir að kröfur fyrirtækisins byggist á því að tjónið hafi orðið vegna þess að starfsmenn kvikmyndafélagsins kveiktu eld inni í húsinu í sterkum vindi. Í stefnunni kemur fram að skv. mæli Veðurstofunnar var meðalvindur 15 m/sek. þegar tökur hófust en gekk á með hviðum. Gísli segir að leiða megi að því sterkar líkur að óforsvaranlegt hafi verið að kveikja eldinn við þessar aðstæður. Um þetta sé þó deilt í málinu.

Íkveikjuatriðið var tekið upp snemma morguns en Gísli bendir á að tökum hafi ítrekað verið frestað vegna of mikils vinds. Ákvörðun um að hefja tökur hafi alfarið verið í höndum kvikmyndagerðarmanna og forsvarsmenn Síldarvinnslunar ekki hafðir með í ráðum. Húsið var brunatryggt hjá TM en Gísli segir að það sé lögfræðilegt álitaefni hvort því beri að greiða tjónið. Í raun hafi ekki verið hjá því komist að fara með málið fyrir dómstóla.

Aðspurður segir Gísli að þegar Síldarvinnslan veitti leyfi fyrir kvikmyndtökum hafi forsvarsmenn kvikmyndafélagsins lagt fram yfirlýsingu um að félagið væri tryggt fyrir tjónum hjá Sjóvá-Almennum. Af hálfu Sagnar hafi því verið lýst yfir að félaginu verði stefnt til réttargæslu.

Notkun fellur ekki undir skilmála

Hjálmar Sigurþórsson, deildarstjóri tjónadeildar Tryggingamiðstöðvarinnar hf., segir að TM hafi selt Síldarvinnslunni lögbundna brunatryggingu fyrir húsið. Sú trygging hafi miðast við notkun hússins sem frystihúss, ekki sem kvikmyndavers, og iðgjöld verið í samræmi við það.

"Menn settu upp kvikmyndaver í húsinu og þetta íkveikjuatriði, án þess að nokkuð hafi verið talað við okkur," segir Hjálmar. Tjónið hefði ekki orðið, nema vegna þess að húsið var notað sem kvikmyndaver og sú notkun falli ekki undir tryggingaskilmálana. Hjálmar minnir á að af hálfu kvikmyndafélagins hafi forsvarsmönnum Síldarvinnslunnar verið tjáð að kvikmyndafélagið væri tryggt fyrir öllum tjónum. Síðar hafi komið á daginn að tryggingafélag þess, Sjóvá-Almennar, hafi ekki talið sig hafa tryggt fyrir því tjóni sem varð.

Hjálmar segir að það gagnkvæman skilning hjá TM og Síldarvinnslunni að málið þurfi að fara fyrir dómstóla.