Ingibjörg Sólrún sagði Samfylkinguna vilja fara aðra leið í skatta- og velferðarmálum en ríkisstjórnin. Samfylkingin vilji skoða af alvöru fjölþrepa skattkerfi og samhliða taka upp viðræður við aldraða og öryrkja um afkomutryggingu "svo enginn þurfi a
Ingibjörg Sólrún sagði Samfylkinguna vilja fara aðra leið í skatta- og velferðarmálum en ríkisstjórnin. Samfylkingin vilji skoða af alvöru fjölþrepa skattkerfi og samhliða taka upp viðræður við aldraða og öryrkja um afkomutryggingu "svo enginn þurfi a
INGIBJÖRG Sólrún Gísladóttir, forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar, skoraði á Davíð Oddsson forsætisráðherra að mæta sér í kappræðum um skattamál, á fundi flokksins í Salnum í Kópavogi í gær.

INGIBJÖRG Sólrún Gísladóttir, forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar, skoraði á Davíð Oddsson forsætisráðherra að mæta sér í kappræðum um skattamál, á fundi flokksins í Salnum í Kópavogi í gær. Sagði hún bilið milli fátækra og ríkra hafa aukist stöðugt á valdatíma núverandi ríkisstjórnar. Skattbyrði hefði aukist á þá tekjulægstu en minnkað á þá sem mestar tekjur hafa, þvert á loforð ríkisstjórnarflokkanna.

Vel á annað hundrað manns sótti fund Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi í gærkvöld þar sem Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar og Ingibjörg Sólrún fóru fyrir þremur af efstu frambjóðendum flokksins í kjördæminu. Ingibjörg sagði tíma til kominn að leiða til öndvegis "lýðræðislegri, frjálslyndari, gegnsærri og umburðarlyndari stjórnarhætti" en nú tíðkuðust. Sagðist hún ekki síst vilja sjá breytingar í skatta- og velferðarmálum og rifjaði upp loforð ríkisstjórnarflokkanna tveggja fyrir síðustu kosningar um að lækka skatta.

"Efndirnar birtast í því að stærra hlutfall af landsframleiðslu okkar fer nú í skatta en raunin var fyrir rúmum áratug. Skattbyrði á Íslandi hefur þyngst meira á þessum tíma en annars staðar í OECD ríkjum. Bótaþegar, sem ekki greiddu neina skatta þegar ríkisstjórnin tók við, greiða nú milljarð í skatta á ári." Hún sagði persónuafslátt ekki hafa haldið í við þróun verðlags. Skattleysismörk væru nú 69.575 krónur á mánuði en væru ríflega 94.000 ef ríkisstjórnin hefði ekki afnumið með lögum viðmiðun persónuafsláttar við verðlagsþróun. Þó álagningarhlutfall tekjuskatts hefði verið lækkað vægi það ekki upp á móti því hve skattleysismörkin væru lág.

Skattbyrði hefði þyngst hjá öllum nema þeim sem lægstar hefðu tekjurnar. Þannig hefði skattbyrði hjóna með 2,5 milljóna króna árstekjur þyngst um 10%. Skattbyrði hjóna með 18 milljóna árstekjur hefði aftur á móti minnkað um 8%. Sagði Ingibjörg ríkisstjórnina benda á, í þessu sambandi, að einnig yrði að horfa á kaupmáttaraukninguna. "Það blasir við að 18 milljóna króna hjónin hafa fengið talsvert meiri kaupmáttaraukningu en hjónin sem hafa hálfa þriðju milljón í árstekjur. Hluti af kaupmáttaraukningu þeirra hefur farið í skatta, en ekki hinna," sagði Ingibjörg.

Bilið milli ríkra og fátækra eykst

Hún sagði bilið milli ríkra og fátækra hafa aukist stöðugt. Tekjur þeirra 10% sem lægstar hefðu tekjurnar á Íslandi hefðu hækkað um 60% frá árinu 1995, en tekjur þeirra 5% sem mestar tekjur hafa hefðu aukist um 134%. "Munurinn á hópunum árið 1995 var sjöfaldur, hann er tífaldur í dag."

Ingibjörg sagði að ríkisstjórnin hefði frá árinu 1995 skert barnabætur um ríflega 8 milljarða króna. Ríkisstjórnin skýrði þetta með því að tekjur fólks hefðu aukist mikið og þannig hefði dregið úr tekjutengdum bótagreiðslum. "En hverju lofuðu þeir fyrir síðustu kosningar? Þeir lofuðu að draga úr tekjutengingu í barnabótakerfinu, sem þeir höfðu reyndar sjálfir ákveðið að tekjutengja tveimur árum áður," sagði Ingibjörg. Efndirnar hefðu falist í að taka upp ótekjutengdar barnabætur, 3.000 krónur á mánuði, fyrir börn upp að sjö ára aldri. Allar aðrar barnabætur væru tekjutengdar og byrjuðu að skerðast við 58 þúsund króna laun á mánuði hjá einstæðri móður og 116 þúsund króna laun hjá hjónum. "Þær byrja með öðrum orðum að skerðast við laun sem eru undir fátækramörkum," sagði Ingibjörg.

Á þenslutíma gætu verið rök fyrir því að hækka skatta, en þá ættu yfirvöld að gangast við þeirri ákvörðun en ekki afneita henni. "En ríkisstjórnin er í afneitun. Við hin viljum gagnsæjar ákvarðanir og sanngjarnar leikreglur en ekki blekkingarvef. Við viljum stjórnvöld sem standa og falla með ákvörðunum sínum en væna ekki aðra um misskilning og heimsku. Við erum ekki öll asnar, Guðjón! Stjórnarandstæðingar, hagfræðingar, fréttamenn, eldri borgarar, verkalýðshreyfingin og aðrir sem hafa vogað sér að benda á hvernig skattbyrðin hefur þróast, við erum ekki öll asnar. Er ekki kominn tími til að forsætisráðherra stígi niður af stalli sínum og ræði þessi mál við okkur dauðlega frambjóðendur á opinberum vettvangi? Ég er til, hvað með hann?" spurði Ingibjörg.

Vilja uppræta fátækt í íslensku samfélagi

Hún sagði Samfylkinguna vilja fara aðra leið í skatta- og velferðarmálum en ríkisstjórnin hefði farið og hefði boðað á næsta kjörtímabili. Flöt lækkun á álagningarhlutfalli tekjuskattsins myndi enn og aftur skila meiri fjármunum í vasa hátekjufólks en lágtekju- og millitekjufólks. "Við viljum skoða af alvöru fjölþrepa skattkerfi sem hefur þá kosti að það dregur úr skattbyrði þeirra sem hafa meðaltekjur og þar undir og það dregur úr áhrifum jaðarskatta."

Hún sagði að einnig vildi Samfylkingin taka upp viðræður við samtök öryrkja og aldraðra um afkomutryggingu svo enginn þyrfti að una fátækt eða óvissu um kjör sín. Þá vildi Samfylking að teknar yrðu upp ótekjutengdar barnabætur með öllum börnum upp að átján ára aldri. "Enda vita allir sem eiga börn að það er síst ódýrara að vera með ungling á framfæri en sjö ára krakka. Það eru önnur útgjöld en ekki minni. [...] Með þessum aðgerðum viljum við vinna að því að uppræta fátækt í íslensku samfélagi. Það er ekki samboðið okkar ríku íslensku þjóð að 10 þúsund einstaklingar búi við kjör sem komi í veg fyrir að þeir geti lifað í samfélaginu til jafns við aðra."