*HERDÍS Þorgeirsdóttir hefur lokið doktorsprófi í lögum við lagadeild Lundarháskóla. Doktorsvörnin, sem var öllum opin, fór fram í Konungshúsinu í Lundi 21. mars sl.
*HERDÍS Þorgeirsdóttir hefur lokið doktorsprófi í lögum við lagadeild Lundarháskóla. Doktorsvörnin, sem var öllum opin, fór fram í Konungshúsinu í Lundi 21. mars sl. Ritgerð Herdísar er á sviði alþjóðalaga en titillinn er "Journalism Worthy of the Name: A Human Rights Perspective on Freedom within the Media". Andmælandi var Kevin Boyle prófessor við lagadeild háskólans í Essex á Englandi, yfirmaður bresku mannréttindastofnunarinnar og stjórnarformaður Article 19 International Centre Against Censorship í London. Í dómnefnd sátu Isi Foighel fyrrum dómari við Mannréttindadómstól Evrópu og prófessor við lagadeild Kaupmannahafnarháskóla, Olle Mäenpää við lagadeild háskólans í Helsinki og Katarina Tomasevski prófessor við lagadeildina í Lundi.

Doktorsverkefnið er rannsókn á tjáningarfrelsi fjölmiðla eða ritstjórnarlegu sjálfstæði þeirra út frá sjónarhóli Mannréttindasáttmála Evrópu. Réttarverndin er jafnframt skoðuð í samanburði við önnur ákvæði alþjóðlegra Mannréttindasáttmála og þeirrar verndar sem fjölmiðlar njóta í stjórnskipun í vestrænum ríkjum, þá sérstaklega Bandaríkjunum. Rannsóknin beinist að því hve virk réttarverndin er innan ritstjórna fjölmiðla og hvaða verndar blaðamenn njóti gegn íhlutun einkaaðila, eigenda fjölmiðla og auglýsenda. Hún beinir athyglinni að þeim jákvæðu skyldum sem leiði af lagaákvæðinu ekki síst með tilliti til þróunar í dómaframkvæmd og í ljósi breyttra aðstæðna frá því að sáttmálinn tók gildi. Niðurstaða er m.a. sú að réttarframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu sé mun víðtækari en ætla hefði mátt í byrjun og snúi ekki aðeins að hinu sígilda sambandi einstaklinga andspænis ríkisvaldi heldur taki einnig tillit til sambands á milli einkaaðila ekki síst í ljósi þess að mörk ríkisvalds og stórfyrirtækja eru óljósari en fyrr. Á grundvelli niðurstaðna kemur Herdís með tillögur um úrbætur til að tryggja sjálfstæði fjölmiðla. Bókin verður gefin út af Kluwer Law International síðar á þessu ári.

Herdís Þorgeirsdóttir er önnur íslenskra kvenna til að ljúka doktorsprófi í lögum.