Söngsveitin Fílharmónía og hljóðfæraleikarar á æfingu fyrir tónleikana á morgun og þriðjudaginn.
Söngsveitin Fílharmónía og hljóðfæraleikarar á æfingu fyrir tónleikana á morgun og þriðjudaginn.
Söngsveitin Fílharmónía flytur Messías eftir Händel á aðaltónleikum starfsársins í Langholtskirkju. Stjórnandi kórsins, Bernharður Wilkinson, sagði SÚSÖNNU SVAVARSDÓTTUR frá tengslum sínum við verkið.
AÐALTÓNLEIKAR starfsársins hjá Söngsveitinni Fílharmóníu verða í Langholtskirkju á sunnudag og á þriðjudag kl. 20. Á efnisskránni er Messías eftir Händel og er óhætt að segja að einvalalið mæti til leiks til þess að taka þátt í flutningnum. Stjórnandi kórsins er Bernharður Wilkinson, sem einnig er aðstoðarhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, einsöngvarar á tónleikunum verða Hulda Björk Garðarsdóttir sópran, Sesselja Kristjánsdóttir alt, Eyjólfur Eyjólfsson tenór og Ágúst Ólafsson bassi - en herrarnir tveir eru við nám og störf erlendis; Eyjólfur í Englandi og Ágúst í Finnlandi. Undirleik annast Kammersveit Reykjavíkur undir forystu Rutar Ingólfsdóttur.

Söngsveitin, sem á sér yfir fjörutíu ára sögu, hefur áður flutt Messías - en þó ekki í tíð núverandi stjórnanda, sem hefur starfað með henni frá 1996. Þegar Bernharður er spurður hvers vegna hefði verið ákveðið að ráðast í Messías núna segir hann að það hafi einfaldlega verið tími til kominn að Söngsveitin flytti þetta glæsilega verk aftur. "Þetta er ein helsta kórperla sem samin hefur verið," segir hann og það er alveg á hreinu að ef einhver getur fullyrt það er það Bernharður. Sjálfur hefur hann verið starfandi tónlistarmaður frá sjö ára aldri, þegar hann hóf að syngja í kór Westminster Abbey í London. "Þar söng ég Messías á hverju ári og þess vegna höfðar þetta verk kannski sérstaklega til mín. Ég var í sópranrödd," segir hann og bætir því glettnislega við að hann sé það ekki lengur. "Ég held að útilokað sé fyrir mig að reyna að leika þær listir í dag."

Jólasnjór og páskaliljur

Händel samdi Messías á nokkrum dögum árið 1741. Textinn er byggður á ritningargreinum úr Biblíunni og fjallar um ævi Krists. "Fyrsti hlutinn er dálítið jólalegur," segir Bernharður, "en seinni hlutarnir tveir eru meira í ætt við páska og það á vel við hér á Íslandi. Við erum svo heppin að hafa alltaf jólasnjóinn ennþá þegar páskaliljurnar springa út."

Fyrir utan aðdáun Bernharðs á verkinu segir hann að Messías sé eitt af draumaverkefnum allra kóra. Það þarf töluvert mikla tækni til þess að flytja verkið og góða einsöngvara; þetta sé Händel eins og hann gerist bestur "Ég er yfir mig ánægður með einsöngvarana sem við höfum fengið til liðs við okkur að þessu sinni," segir Bernharður. "Það er ekki aðeins að við séum með báðar fastráðnar söngkonur Íslensku óperunnar, heldur taka einstaklega efnilegur tenór og bassi þátt í flutningnum."

Hver er Eyjólfur Eyjólfsson?

"Eyjólfur er ungur og lítt þekktur í dag, en ef hver landsmaður þekkir hann ekki vel eftir tvö ár er ég illa svikinn. Hann var upphaflega flautuleikari, nemandi Gunnars Gunnarssonar, en fór síðan að læra söng hjá Þórunni Guðmundsdóttur í Hafnarfirði og er nú við nám í Guildhall School of Music and Drama í London. Eyjólfur sótti um námsvist í öllum bestu tónlistarháskólum í Bretlandi og fékk jákvætt svar frá þeim öllum. Hann valdi Guildhall og er þar á fyrsta ári. Ég kynntist honum fyrst í Hljómeyki og miðað við það sem ég hef heyrt til hans spái ég honum glæstri framtíð. Ágúst hefur verið kynntur til sögunnar sem einsöngvari hér á landi, þótt hann sé vissulega sjaldséður gestur hér. Hann er við nám og störf í Finnlandi - en kemur reyndar líka úr Tónlistarskólanum í Hafnarfirði, þar sem hann var nemandi Eiðs Gunnarssonar, og þeir sem hafa heyrt hann hefja upp raust sína eru ekki í vafa um að þar fari einstaklega hæfileikaríkur söngvari.

Nú, söngkonurnar okkar, þær Hulda Björk Garðarsdóttir og Sesselja Kristjánsdóttir, eru báðar starfandi við Íslensku óperuna, hafa komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands og tekið þátt í ýmsum tónleikum. Þetta eru geysilega sterkar og góðar söngkonur sem fengur er að að fá til samstarfs."

Stór kórverk og íslensk tónlist

Þegar Bernharði var boðið að taka við Söngsveitinni Fílharmóníu árið 1996 segir hann að sér hafi strax litist vel á það.

"Það lá svo beint við," segir hann, "vegna þess að ég hef fengist við kórsöng alla ævi. Pabbi var kórstjóri. Hann var til dæmis með BBC-útvarpskórinn á sínum tíma, allt þar til hann fór á eftirlaun. Í dag er hann 83 ára og er enn að stjórna kórum, fara á kóramót og námskeið og allt mögulegt sem tilheyrir. Hann segir að þetta haldi sér á lífi - og ætli það sama eigi ekki við um mig."

Bernharður hefur lagt áherslu á að Söngsveitin Fílharmónía hafi ætíð á takteinum íslensk og erlend lög til flutnings, með eða án undirleiks, og hefur hann stjórnað kórnum á nokkrum tónleikum með slíkri efnisskrá undanfarin ár. Hann hefur einnig haldið áfram á þeirri braut sem fyrirrennarar hans mörkuðu um flutning stórra kórverka. Undir hans stjórn hefur Söngsveitin meðal annars flutt Gloriu Vivaldis, Nelson-messu Haydns, Sálumessu Mozarts og vorið 2000 stjórnaði Bernharður frumflutningi söngsveitarinnar, Selkórsins og Sinfóníuhljómsveitar Íslands á Immanúel eftir Þorkel Sigurbjörnsson, auk þess sem hann fór með kórana tvo til St. Pétursborgar í september í fyrra þar sem þeir komu fram í Sjostakovits-salnum ásamt Hljómsveit tónlistarakademíunnar í St. Pétursborg. Á efnisskránni var Requiem eftir Mozart, auk þess sem kórarnir kynntu heilt prógramm af íslenskum tónverkum.

Þegar Bernharður er spurður hvernig leggist í hann að vinna Messías með sínum ágæta kór og ungu einsöngvurum segir hann: "Það er alltaf gaman að takast á við Messías - og ég hlakka mjög mikið til að halda þessa tónleika."