[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nú stendur yfir sýning á verkum eftir Dag Sigurðarson í Nýlistasafninu. Sýningin er sú síðasta af þremur í eins konar þríleik um Dag, Rósku og Megas. Hjálmar Sveinsson átti hugmyndina í upphafi og stýrði veglegri bók og sýningu um Rósku árið 2000 en um Megas árið 2001 og Dag nú í ár ásamt Geir Svanssyni. ÞRÖSTUR HELGASON ræðir við þá um verkefnið og stöðu Dags, Rósku og Megasar í íslenskri menningu.
TÍMABIL hinna gáfuðu einstaklinga er liðið. Nú er kominn tími til að mannkynið verði gáfað." Þessi orð eru fengin úr ljóðabók Dags Sigurðarsonar Hundabærinn sem kom út árið 1963. Hjálmar Sveinsson segir þau vera nokkurs konar einkunnarorð bókar sem gefin hefur verið út af Máli og menningu í tilefni af sýningu á verkum Dags í Nýlistasafninu. Sýningin er sú þriðja í verkefni sem hófst í Nýlistasafninu árið 2000 þar sem sýnd voru verk eftir Rósku og gefin út bók um hana. Árið 2001 var hið sama gert um Megas. Hjálmar er hugmyndasmiðurinn á bak við verkefnið og sá um fyrsta hlutann um Rósku en Geir Svansson stýrði með honum bók og sýningu um Megas og Dag. Höskuldur Harri Gylfason hannaði bækurnar.

Hjálmar segir að sýningunum og bókunum hafi verið ætlað að veita sýn inn í líf og list þessara þriggja listamanna og einnig að vera heimild um það fjörmikla tímabil sem þeir eru allir sprottnir úr, sjöunda áratuginn þegar umbrot voru gríðarleg hér á landi bæði í menningu og pólitík.

Rætur í Fylkingunni

"Róska, Megas og Dagur eiga það öll sameiginlegt að vera sprottin úr róttæku og frjóu umhverfi sjöunda áratugarins," segir Hjálmar. "Þau voru í Æskulýðsfylkingunni en meðan þau voru virk þar þá ríkti anarkískur og bóhemískur andi yfir félagsskapnum. Starfið snerist ekki aðeins um pólitík heldur voru haldnar málverkasýningar og lesin upp ljóð. Bæði Dagur og Róska áttu þátt í útgáfu Neistans, tímarits félagsins, meðal annars með myndskreytingum. Það var svo ekki fyrr en 1972 eða '73 sem harðlínumarxistar náðu völdum í Fylkingunni en þá voru þau að mestu hætt þátttöku í starfinu. Megas hætti til dæmis alveg að mæta á fundi um þetta leyti og fór almennt að gera minna úr vinstriróttækni sinni. Andóf þeirra þriggja, sem var og er vissulega sterkt, var reyndar aldrei flokkspólitískt í þeim skilningi, það beindist meira að hinu ferkantaða íslenska samfélagi á þessum tíma."

Líf og list eitt og hið sama

Geir Svansson bendir á að það hafi verið mikill skapandi kraftur í kringum pólitík '68 tímans. "Það var til þess tekið hvað margir voru að sinna einhvers konar listsköpun, ef fólk var ekki að spila á tónleikum eða lesa upp þá var það að gefa út eða halda myndlistarsýningar. Það virðist hafa losnað um einhver höft. Það komst hreyfing á þetta staðnaða samfélag. En auðvitað hneyksluðust smáborgararnir á líferni þessa fólks og komu því kannski ekki auga á mikilvægi listarinnar sem var verið að búa til."

Hjálmar segir einmitt mikilvægt að hafa í huga tengslin milli lífs og listar hjá þessum listamönnum.

"Sérstaklega hjá Rósku og Degi. Það var beinlínis markmiðið að þetta yrði eitt og hið sama. Róska gekk kannski hvað lengst í þessum efnum og var sennilega eini íslenski listamaðurinn sem fór alla leið með þá hugmynd að gera líf og list að einu og hinu sama. Þetta var þekkt meðal erlendra listamanna á þessum tíma. Það var snúið frá hefðbundinni listsköpun sem þótti einungis borgaralegt stofustáss. Hið eiginlega hlutverk listamannsins var að skapa nýtt og réttlátt þjóðfélag. Kvikmyndaleikstjórinn Jean-Luc Godard, sem Róska kynntist á Ítalíu, var frægur fyrir að fylgja þessari afstöðu til hins ýtrasta.

Róska fer að hanna veggspjöld fyrir pólitískar hreyfingar á Ítalíu. Hún hannar líka frægt tímarit að nafni Lotta continua en upp úr samnefndri hreyfingu spretta rauðu herdeildirnar á Ítalíu. Hún hellir sér síðan út í ljósmyndun og kvikmyndir sem þóttu framsæknustu listmiðlarnir á áttunda áratugnum og nær alþýðu manna en málverkið og skáldsagan.

Dagur gekk aldrei svona langt. Hann var með rómantískari hugmyndir um listsköpunina. Engu að síður gat hann ekki hugsað sér að stunda list sína eins og hver annar daglaunamaður. Hann lagði sjálfan sig undir dag og nótt. Og í lífsafstöðu bóhemsins felst að afneita hinum borgaralegu gildum, að taka ekki þátt í hversdagslífi borgaranna. Dagur var í raun fyrirrennari íslensku hippakynslóðarinnar. Hann var sennilega eina íslenska bítskáldið, hann las Allen Ginsberg og önnur bítskáld en hjá þeim kom meðal annars fram þessi samþætting á lífi og list og einnig andúð á vitsmunadýrkun."

Ísbrjótar

Hjálmar segir að Dagur, Róska og Megas hafi tvímælalaust verið eins konar ísbrjótar í íslensku menningarlífi á sjöunda áratugnum.

"Það var engu líkara en það lægi íshella yfir þessu samfélagi á tímabilinu milli 1955 og 1970. Þetta var ótrúlega ferkantað, þröngsýnt, svart og hvítt þjóðfélag. Það virðist hafa verið lítil lífsgleði ríkjandi, fólk leyfði sér ekki að bregða á leik nema um helgar þegar það fór á brjálæðislegt fyllerí.

Helga Novak, sem er eitt af helstu ljóðskáldum Þýskalands síðustu áratuga, var unnusta Dags á sjöunda áratugnum og bjó hér í nokkur ár. Hún er austur-þýsk og dökk yfirlitum enda voru þau kölluð dagur og nótt og þóttu afar glæsilegt og flott par. Í grein sem hún skrifar í bókina um Dag segist hún aldrei gleyma því hatri sem þau mættu í augnaráði fólks þegar þau Dagur gengu um götur hér, héldu utan um hvort annað, töluðu hátt og hlógu. En, eins og Helga segir, þá var bannað að hlæja og tala hátt og kyssast úti á götu í Reykjavík árið 1962.

Þetta er lítið dæmi um þungann sem var yfir samfélaginu á þessum tímum. Og það er engin spurning að lífsnautnamaðurinn Dagur á ásamt Rósku og Megas stóran þátt í að brjóta ísinn og gera þetta að skemmtilegra, fjölbreyttara og víðsýnna samfélagi."

Geir segir það mikilvægan þátt í þessu verkefni að veita skýrari sýn á þetta tímabil í íslenskri menningarsögu.

"Það þarf að mínu mati að endurskoða sjöunda áratuginn rækilega, og þann áttunda. Það má til dæmis benda á að þeir þrír listamenn sem við fjöllum um eru ekki hluti af opinberri listasögu eða bókmenntasögu, nema að litlu leyti og alls ekki í réttu hlutfalli við framlag þeirra.

Þetta var mikið átakatímabil. Andófið sem þessir þrír listamenn stóðu fyrir stuðaði allar stofnanir samfélagsins. Og kannski þess vegna hefur þeim verið ýtt til hliðar í kjölfarið. Þau eru ekki með í sögunni. Við lítum svo á að þessar þrjár bækur geti verið góðar heimildir í endurskoðun þessa tímabils."

Gegn afstrakti og atómljóðum

"Samt viljum við ekki stilla þeim Degi, Rósku og Megasi upp sem einhverjum fórnarlömbum íhaldssams og þröngsýns samfélags," heldur Hjálmar áfram. "Það er til dæmis rétt að halda því til haga að flestum bókum Dags var tiltölulega vel tekið á sínum tíma. Megas hefur alltaf átt traustan og nokkuð breiðan hóp aðdáenda. Og Rósku var líka hampað á tímabili, allavega í Þjóðviljanum. En þau voru samt úti á jaðrinum, þau voru andófsfólk. Þau gerðu ekki aðeins uppreisn gegn borgaralegu gildismati og líferni heldur einnig gegn borgaralegum smekk. Hann birtist í því sem íslenskum borgurum þótti á þeim tíma vera framúrstefnuleg og nútímaleg list en það var annars vegar afstraktmálverkið og hins vegar atómljóðið.

Dagur byltir íslenskri ljóðlist með því að stilla ljóðrænni fegurð og stríðni götustráksins upp við hlið dulúðugra, torræðra og hátíðlegra ljóða atómskáldanna. Hann opnar alveg nýja leið. Hann er skrýtin blanda af götustrák og rómantíker. Síðan málar hann fígúratíf, expressjónísk, pólitísk og erótísk málverk sem gengu þvert á afstraktið sem vel menntaðir og víðsýnir borgarar hömpuðu hvað mest. Þessi verk Dags þóttu beinlínis frámunalega hallærisleg.

Sama má segja um Rósku sem málar expressjónísk, pólitísk og erótísk verk. Kannski má segja að hið pólitíska og erótíska hafi einkennt neðanjarðarlistina í gegnum tíðina. Og hugmyndin er vitanlega sú að almenningur skilji betur myndlist af því tagi."

Hið þjóðlega og alþýðlega hafið á stall

Uppreisnin gegn hinni opinberu eða viðurkenndu list birtist einnig í upphafningu á þjóðlegri alþýðulist.

"Alþýðan er í raun hafin á stall," segir Hjálmar. "Dagur leitar í þulurnar en hann var barnabarn Theodóru Thoroddsen sem endurvakti þuluformið á fyrri hluta tuttugustu aldarinnar. Það er meira að segja púkkað undir stofumálara. Róska deildi hart á myndlistargagnrýnanda Morgunblaðsins í grein í Þjóðviljanum árið 1969 og tekur upp hanskann fyrir hið hefðbundna landslagsmálverk, segir að það sé að minnsta kosti heiðarlegra en listasnobbið í kringum FÍM-málarana. Og Megas vinnur markvisst með íslenska bókmenntahefð, Íslendingasögurnar og rímurnar, og blandar því saman við slangur götunnar í Reykjavík. Á bak við þetta var sú trú að það fælist mikill kraftur, jafnvel byltingakraftur í list alþýðunnar. Þau fundu mikla fegurð í þjóðlegu hefðinni sem afstraktmálurunum og menntamönnunum þóttu óbærilega hallærisleg."

"En raunin er hins vegar sú," bætir Geir við, "að Dagur og Róska og Megas eru nær kviku samtímans í þessum "alþýðlegu" verkum sínum en módernistarnir. Þau nútímavæða hefðina og tala þannig beint til almennings. Þau nota talmál í stað upphafins og lærðs stíls og þau fjalla um pólitískar spurningar dagsins."

Í einu orði ómódernísk

Að mati Geirs og Hjálmars nær þessi tilraun til þess að endurvekja þjóðlega alþýðuhefð hæstum hæðum í ljóðabókinni Rógmálmur og grásilfur eftir Dag sem kom út árið 1971.

"Margir sem komu að máli við okkur við vinnslu bókarinnar töldu þetta eina bestu ljóðabók síðustu áratuga hér á landi," segir Hjálmar. "Í henni eru mjög sterk þuluáhrif. Það er markvisst unnið með hrynjandi og endurtekningar sem skapar ákveðna sefjun. Áhrifin eru mjög sterk. Honum tekst að endurheimta galdurinn í hljómfalli orðanna."

Í upphafningu á þessu einfalda tjáningarformi, á hljómfalli orðanna fremur en merkingarlegu samhengi þeirra, birtist einnig andúð á rökhyggju samtímans.

"Þau andæfðu auðvitað tilhneigingu til þess að meta hluti út frá verðgildi þeirra og þau andæfðu öllum tilraunum til þess að fella fólk í lýðfræðilegt eða stofnanalegt samhengi þar sem einstaklingurinn var bara hluti af einhverri fyrirfram gefinni heild. Dagur taldi til dæmis að skólar gerðu ekkert gagn, þeir eyðilegðu bara sjálfstæða og skapandi hugsun.

Þau tefldu hinu líkamlega og náttúrulega gegn rökhyggju samtímans."

"Þau eru sem sé í einu orði ómódernísk," bætir Geir við.

Lífernið mengar sýn fólks

Geir segir að það sé kannski engin tilviljun að þeir Hjálmar hafi fengið áhuga á að vinna þetta verkefni.

"Við erum af kynslóð sem sigldi í kjölfarið á þeim Rósku, Megasi og Degi. Við vorum ekki þátttakendur í því sem gerðist þótt við fylgdumst kannski að einhverju leyti með. En 68-kynslóðin sjálf hefur að miklu leyti snúið baki við þessari arfleifð sinni. Þetta er kynslóðin sem situr núna við kjötkatlana og maður fær það stundum á tilfinninguna að verstu óvinir Megasar séu af henni. Fólkið sem kann að meta hann sé af yngri kynslóðum sem sjái verk hans úr svolítilli fjarlægð og líti ekki svo á að það sé þörf á einhverri réttlætingu á verkum hans."

"Ég held að líferni þessara þriggja listamanna hafi að ósekju mengað mjög sýn fólks á verk þeirra," segir Hjálmar, "ekki síst fólks af þeirra eigin kynslóð sem var sjálft sprottið úr þessu afturhaldssama og þröngsýna samfélagi sjötta og sjöunda áratugarins. Það virðist sem fólk geti ekki losað sig við þessa fordóma, svo við notum bara viðeigandi orð. Það var vissulega mikil óregla á þeim öllum, mislengi og misoft. Og þau voru ögrandi. Í ljóði eftir Dag sem nefnist "Borgaralegt stillubein" er lýst huggulegri stofu þar sem flaska og epli og stífur dúkur eru á borði. Síðan kemur einhver og étur eplið inn að kjarnhúsinu, skilur eftir brunagöt í dúknum og hellir að endingu flöskubrotum yfir allt klabbið. Á vissan hátt gerðu þau þetta. Þau voru götukrakkarnir sem komu inn í kökuboð íslenskrar menningar og settu allt á annan endan, eyðilögðu, brutu og brömluðu. Og þeim hefur aldrei verið fyrirgefið. Fólk getur ekki fyrirgefið þeim vegna þess hvernig þau lifðu lífi sínu. Það getur ekki fyrirgefið þeim að þau skyldu ekki einhvern tímann verða fullorðin, taka sig á og hætta þessari vitleysu eins og fólk almennt gerði. Það átti bara að skemmta sér fram til tvítugs en síðan verða fullorðinn og fara að haga sér eins og maður.

Þessi viðhorf eru enn mjög sterk. Við höfum orðið varir við það í vinnu okkar að þessum bókum. Þær eru kallaðar rónatal sem á að vera brandari en sýnir fyrst og fremst að fólk getur enn ekki sætt sig við líferni þessara listamanna, það sér ekki verkin fyrir persónunum á bak við þau."

Enn að stuða

Sýningin sem nú stendur yfir á verkum Dags er ekki hefðbundin myndlistarsýning, að sögn Geirs.

"Þarna eru textar og ýmsar heimildir, sömuleiðis ljósmyndir af listamanninum. Þarna eru einnig tréristur frá 1960 og '62 sem hann vann með Helgu Novac. Þarna eru síðan verk frá 1970 fram til ársins 1994. Hann var alla tíð málandi og tók listina mjög alvarlega. Hann stúderaði heilmikið liti og málara. Hann hreifst mjög af expressjónískum málurum og sósíal-natúralískum mexíkóskum málurum sem höfðu það að leiðarljósi að koma skilaboðum til alþýðunnar með list sinni.

Það hefur komið fram að fáir kunna að meta list Dags, að minnsta kosti fæstir "alvöru" málarar. Hann þótti klunni með pensilinn og anatómían var kolröng. En hann var ekki sjálfur að sækjast eftir slíkum hlutum. Ég þykist líka vita að það eru ekki allir ánægðir með að svona myndlist skuli vera sýnd í Nýlistasafninu. En mér þykir það satt að segja mjög skemmtilegt að núna erum við annars vegar að sýna mjög framsækna samtímalist eftir Serge Comte og hins vegar verk Dags sem aldrei hafa verið viðurkennd en eru sannarlega hluti af íslenskri nútímalist og menningarleg verðmæti. Ég hugsa að ekkert annað safn hefði treyst sér til að setja upp þessar tvær sýningar, hvað þá á sama tíma. Ég held að þetta sé lýsandi fyrir grasrótarhlutverk Nýlistasafnsins.

Og það er gaman að vita til þess að Dagur sé enn að stuða fólk, ekki síður en framsæknasta samtímalist. Það sýnir í raun ákveðna móderníska afstöðu sem er enn ríkjandi hérlendis, það er enn álit manna að einhver ein tegund listar hafi forræði yfir aðrar tegundir. Gegn slíkri hugsun unnu þau Dagur, Róska og Megas og gera greinilega enn."

throstur@mbl.is