Vernharð Þorleifsson
Vernharð Þorleifsson
JÚDÓKAPPINN Vernharð Þorleifsson getur ekki varið Íslandsmeistaratitla sína í júdó í Austurbergi í dag - þar sem hann er meiddur á öxl og gekkst undir aðgerð vegna þess fyrr í vikunni.
Það er leiðinlegt að þurfa að gefa eftir titlana en málið er að ég er með gigt í öxlinni sem er búin að hrjá mig nokkuð lengi og það var ekkert annað að gera en að koma heim og láta laga þetta. Meiðslin voru farin að há mér bæði andlega og líkamlega og ég varð að hætta á mótaröðinni," sagði Vernharð í samtali við Morgunblaðið en hann býr og æfir í Svíþjóð en kom heim um síðustu helgi til að láta framkvæma aðgerðina.

Vernharð segist ekki verða lengi frá og vonast til að geta verið kominn aftur á ferðina eftir 2-3 vikur.

Stefnan tekin á Aþenu

"Ég stefni á að vera með á Evrópumótinu sem haldið verður í Þýskalandi í maí og ef allt gengur að óskum er möguleiki á að ég keppi á Norðurlandamótinu í Svíþjóð sem haldið verður tíu dögum á undan Evrópumótinu. Aðalmótið hjá mér og Bjarna á þessu ári verður síðan í október en þá fer heimsmeistaramótið fram í Japan. Það mót er gríðarlega mikilvægt en fimm efstu sætin gefa sæti á Ólympíuleikana í Aþenu og þangað er stefnt á að fara. Það er ekki óraunhæft að stefna á eitt af fimm efstu sætunum á HM þar sem ég varð sjöundi í fyrra."

Vernharð segist ekki taka áhættu á að mæta í Austurberg og fylgjast með Íslandsmótinu.

"Ég bara treysti sjálfum mér ekki. Ég mætti meiddur á Íslandsmót nýkominn úr liðþófaaðgerð fyrir nokkrum árum og ég gat ekki setið á mér. Ég skellti mér í gallann sem varð til þess að ég hálfeyðilagði hnéð. Ég á ekki von á öðru en að Bjarni Skúlason vinni opna flokkinn ásamt því að hann taki sinn flokk og ef hann gerir það ekki verð ég illa svikinn. Hann er í fantaformi."

Bjarni líklegur til afreka

Íslandsmótið fer að þessu sinni fram í íþróttahúsinu Austurbergi og verður keppt í sjö þyngdarflokkum karla og kvenna ásamt því að keppt verður í opnum flokki.

Flest besta júdófólk landsins verður á meðal keppenda að Vernharð Þorleifssyni undanskildum. Keppnin hefst klukkan 11, undanúrslit hefjast kl. 15, síðan koma úrslitaglímur í kjölfarið.

Þar sem Vernharð getur ekki keppt ætti Bjarni Skúlason að sigra í opna flokknum auk þess sem hann kemur nær örugglega til með að bera sigur úr býtum í -90 kg flokki þar sem hann keppir. Bjarni hefur undanfarna mánuði dvalið í Svíþjóð þar sem hann hefur æft ásamt Vernharð og báðir hafa þeir tekið þátt í nokkrum alþjóðlegum mótum í vetur, svoköllum A-mótum. Máni Andersen gæti hugsanlega veitt Bjarna keppni í -90 kg flokknum en hann er ungur og efnilegur júdómaður.

Fleiri ungir júdómenn gætu látið að sér kveða á mótinu, þar á meðal Snævar Jónsson sem keppir í -73 kg flokki.

Hjá konunum er talið að baráttan um sigurinn í opnum flokki standi helst á milli Gígju Guðbrandsdóttur og Önnu Soffíu Víkingsdóttur. Þær keppa báðar í -70 kg flokki og hafa verið að vinna hvor aðra til skiptis á undanförnum mótum. Anna er núverandi Norðurlandameistari í -70 kg flokki en hún ásamt Gígju hefur verið að keppa á mótum erlendis í vetur.