SIR Christopher Meyer, fyrrverandi sendiherra Bretlands í Washington, segir að Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, hafi talið George W. Bush Bandaríkjaforseta á að hefja ekki stríð í Írak skömmu eftir hryðjuverkin 11. september 2001.
SIR Christopher Meyer, fyrrverandi sendiherra Bretlands í Washington, segir að Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, hafi talið George W. Bush Bandaríkjaforseta á að hefja ekki stríð í Írak skömmu eftir hryðjuverkin 11. september 2001. Þetta kemur fram í heimildamynd sem sýnd var í PBS-sjónvarpinu bandaríska í fyrrakvöld.

Sendiherrann fyrrverandi segir að menn í bandaríska hernum hafi fyrstu dagana eftir hryðjuverkin lagt fast að Bush að láta til skarar skríða gegn Saddam Hussein. Þegar Blair hafi rætt við Bush í Camp David, sveitasetri forsetans í Maryland, nokkrum dögum síðar hafi honum tekist að telja forsetann á að leggja fyrst til atlögu við hryðjuverkasamtökin al-Qaeda og stjórn talibana í Afganistan.

"Þetta var skoðun Tony Blairs: Hvað sem þú gerir í Íraksmálinu ættir þú að einbeita þér að brýnasta verkefninu og það er að uppræta al-Qaeda og setja talibanastjórninni úrslitakosti," sagði Sir Christopher.

Að sögn sendiherrans fyrrverandi ákvað Bush að "bíða með Írak þar til seinna". Eftir að stjórn talibana var komið frá völdum hafi Blair sagt Bush að leita þyrfti friðsamlegra lausna á Íraksdeilunni áður en hervaldi yrði beitt gegn Saddam.

Sir Christopher sagði að Tony Blair hefði boðist til þess að reyna að telja leiðtoga Evrópuríkja á að styðja hernað gegn stjórn Íraks. "Blair sagði: Ef þið viljið gera þetta upp á eigin spýtur hafið þið hernaðarmátt til þess, en við teljum að jafnvel stórveldi eins og Bandaríkin þurfi að gera þetta með bandamönnum," sagði sendiherrann fyrrverandi.