Ingimar Haraldsson er aðstoðarsparisjóðsstjóri.
Ingimar Haraldsson er aðstoðarsparisjóðsstjóri.
FORSVARSMENN Sparisjóðs Hafnarfjarðar og trúnaðarlæknir bankans áttu í gærmorgun fund með öllum starfsmönnum sparisjóðsins til þess að fara yfir atburði þriðjudagsins þegar rán var framið í útibúi sparisjóðsins í norðurbæ í Hafnarfirði.
FORSVARSMENN Sparisjóðs Hafnarfjarðar og trúnaðarlæknir bankans áttu í gærmorgun fund með öllum starfsmönnum sparisjóðsins til þess að fara yfir atburði þriðjudagsins þegar rán var framið í útibúi sparisjóðsins í norðurbæ í Hafnarfirði. Áður hafði verið haldinn fundur með starfsmönnum útibúsins eingöngu. Að sögn Ingimars Haraldssonar, aðstoðarsparisjóðsstjóra, var tilgangur fundarins að fá starfsmenn saman til þess að fara yfir málið. Hann segir fundinn meðal annars hafa verið vettvang fyrir starfsfólk til að koma með athugasemdir og ábendingar. "Við töldum þörf á því að fara yfir atburðinn frá ýmsum sjónarhornum, bæði gagnvart fólkinu og meðal annars gagnvart öryggisbúnaði og innréttingum."

Ingimar segir að starfsmönnum bankans hafi brugðið mjög við atburðinn. "Starfsmönnum útibúsins var sérstaklega brugðið en þeir hafa staðið sig alveg frábærlega vel eftir á og allir voru mættir til vinnu daginn eftir," sagði Ingimar.

Lögreglan fær vísbendingar

Að sögn Lögreglunnar í Hafnarfirði er bankaræninginn enn ófundinn. Lögreglan hefur rætt við allmarga en enginn hefur verið handtekinn eða yfirheyrður með réttarstöðu grunaðs manns vegna bankaránsins á þriðjudagsmorgun. Vísbendingar um ræningjann berast enn til lögreglu. Lýst er eftir ræningjanum sem var klæddur í ljósa hettupeysu og brúnar buxur. Hann er talinn milli tvítugs og þrítugs, um 170 cm á hæð og við ránið í Sparisjóði Hafnarfjarðar við Reykjavíkurveg bar hann brúnan bakpoka. Ekki hefur enn fengist upplýst af hversu miklu var stolið.