Hafþór Hafsteinsson, forstjóri Atlanta, skrifaði, ásamt forsvarsmönnum Íslandsbanka, Landsbanka og Sparisjóðs vélstjóra, undir sambankalán upp á 1,3 milljarða króna til félagsins, á flugi yfir Íslandi í gær.
Hafþór Hafsteinsson, forstjóri Atlanta, skrifaði, ásamt forsvarsmönnum Íslandsbanka, Landsbanka og Sparisjóðs vélstjóra, undir sambankalán upp á 1,3 milljarða króna til félagsins, á flugi yfir Íslandi í gær.
FLUGFÉLAGIÐ Air Atlanta gerði í gær samkomulag við Landsbanka, Íslandsbanka og Sparisjóð vélstjóra um sambankalán að upphæð 16,67 milljóna dollara, eða sem nemur um 1,3 milljörðum króna.
FLUGFÉLAGIÐ Air Atlanta gerði í gær samkomulag við Landsbanka, Íslandsbanka og Sparisjóð vélstjóra um sambankalán að upphæð 16,67 milljóna dollara, eða sem nemur um 1,3 milljörðum króna. Láninu er ætlað að fjármagna nýleg kaup félagsins á sex flugvélum af gerðinni Boeing 747, en félagið hefur til þessa leigt vélarnar. Skrifað var undir samninginn í Boeing 747 vél Air Atlanta í 23.000 feta hæð yfir landinu.

Lánin eru tvö, annað til þriggja og hitt til fimm ára. Hafþór Hafsteinsson, forstjóri félagsins, sagði við þetta tækifæri að það væri sérstakur heiður fyrir Air Atlanta að bankarnir skyldu treysta félaginu og hafa nægilega trú á því til að veita því þetta lán.

Sýnir trú fjármálafyrirtækja

Í fréttatilkynningu frá félaginu segir: "Athygli vekur að Air Atlanta tekst að ná hagstæðum lánasamningum á sama tíma og miklir erfiðleikar hrjá öll alþjóðleg flugfélög. Fjöldi flugfélaga hefur orðið gjaldþrota á síðustu tólf mánuðum og nú ógnar stríð í Mið-Austurlöndum enn frekar rekstri flugfélaga um allan heim. Sýnir þetta þá trú sem fjármálafyrirtækin hafa á framtíð Air Atlanta og sveigjanlegu rekstrarformi félagsins."

Þá segir að það teljist einnig til tíðinda að íslenskar fjármálastofnanir bjóði nú alþjóðlegum fyrirtækjum á borð við Air Atlanta lán og aðra fjármálaþjónustu sem sé að öllu leyti samkeppnishæf við þjónustu öflugra erlendra banka.