Nemendasýning Dansskóla Jóns Péturs og Köru verður haldin á Broadway Hótel Íslandi á morgun, sunnudaginn 6. apríl kl. 13. Miðasala hefst kl. 12.
Nemendasýning Dansskóla Jóns Péturs og Köru verður haldin á Broadway Hótel Íslandi á morgun, sunnudaginn 6. apríl kl. 13. Miðasala hefst kl. 12. Þar munu nemendur í barna- , unglinga- og fullorðinshópum skólans koma fram með sýnishorn af því sem þeir hafa lært í vetur. Meðal þeirra sem koma fram á sýningunni eru margfaldir Íslandsmeistarar og núverandi Norðurlandameistarar í dansi, segir í fréttatilkynningu. Frítt er fyrir 11 ára og yngri og eldri borgara en aðgangseyrir fyrir 12 ára og eldri er kr. 600.

Göngugarpar ÍT-ferða ganga á Helgafell. ÍT-ferðir hafa ákveðið að stofna gönguklúbb, Göngugarpar ÍT-ferða sem hittast á sunnudagsmorgnum kl. 10.30. Byrjað verður á að ganga á Helgafellinu fyrir sunnan Hafnarfjörð, á morgun, sunnudaginn 6. apríl. Næstu göngur verða: sunnudaginn 13. apríl, gengið á Trölladyngju, sunnudaginn 20. apríl verður gengið á Keili og sunnudaginn 27. apríl verður gengið í Búrfellsgjá og þaðan í Valaból. Alla þessa daga verður hist við Hafnarfjarðarkirkjugarð kl. 10.30.