ÍSLENSKUR sjávarútvegur verður að bregðast rétt við þeirri ógn sem að greininni og ímynd hennar steðjar úti á mörkuðunum, annars gætu afleiðingarnar orðið uggvænlegar. Þetta sagði Svein Berg, forstjóri norska fiskútflutningsráðsins, á Fiskiþingi í gær.
ÍSLENSKUR sjávarútvegur verður að bregðast rétt við þeirri ógn sem að greininni og ímynd hennar steðjar úti á mörkuðunum, annars gætu afleiðingarnar orðið uggvænlegar. Þetta sagði Svein Berg, forstjóri norska fiskútflutningsráðsins, á Fiskiþingi í gær.

Svein Berg rakti á Fiskiþingi hvaða aðferðum norska fiskútflutningsráðið hefði beitt við markaðssetningu víðsvegar um heiminn. Ráðið annast markaðssetningu sjávarafurða, öflun hvers konar markaðsupplýsinga og skilgreinir markaðsaðgengi og sér ennfremur um almannatengsl fyrir norska sjávarútveginn í heild. Hann sagði að norskur sjávarútvegur hefði fjárfest gríðarlega í markaðssetningu og kynningu norskra sjávarafurða á mörkuðum um allan heim en fullyrti að markaðssetningin skilaði sér margfalt í krónum og aurum. Ráðið fær árlega um 3 milljarða íslenskra króna til ráðstöfunar í formi skatts sem tekinn er af útflutningi norskra sjávarafurða. Til samanburðar má nefna að Útflutningsráð Íslands fær árlega um 300 milljónir króna til ráðstöfunar úr ríkissjóði.

Berg sagði að þannig væri mikið lagt upp úr því að gæta orðspors norsks sjávarfangs á markaðnum, enda væri til mikils að vinna en útflutningsverðmæti þess var um 313 milljarðar íslenskra króna á síðasta ári eða 5-6% af heildarútflutningi Norðmanna en um 15% þegar olía og gas væri frátalið.

Öfgakenndar og órök- studdar fullyrðingar

Svein Berg sagði sjávarútveginn stöðugt þurfa að vera á varðbergi fyrir þeirri ógn sem að greininni og ímynd hennar steðjaði. Umræðan um sjávarafurðir væri oft öfgakennd og órökstudd og það væri ekki verjandi að sitja aðgerðarlaus undir slíku og bíða þess að ástandið lagaðist. Mikilvægi þess að bregðast rétt við væri seint áréttað nógu oft. Í því sambandi væri mikilvægt að fulltrúar allra aðila í greininni; stofnana, samtaka og fyrirtækja, kæmu sér saman um viðbrögð og aðgerðir. Þetta hefði norska fiskútflutningsráðið gert með góðum árangri enda væri litið svo á í Noregi að norski sjávarútvegurinn hefði ekki efni á skakkaföllum vegna mismunandi skilaboða innan greinarinnar.

Svein Berg nefndi sem dæmi áróður umhverfissamtaka gegn þorski í Svíþjóð sem fullyrða að þorskur sé í útrýmingarhættu. Það hafi haft mikil áhrif á þorskneyslu Svía og þorskútflutning Norðamanna til Svíþjóðar. Svein Berg sagði að eflaust mætti til sanns vegar færa fullyrðingar umhverfissamtaka um þorsk í Eystrasalti en alls ekki um þorsk í Barentshafi, þar sem Norðmenn veiða mest af þorskafla sínum. Norska fiskútflutningsráðið hefði vegna þessa blásið til umfangsmikillar ráðstefnu í Svíþjóð um þorsk sem vakið hefði mikla athygli, m.a. í fjölmiðlum. Sagði Svein að þannig hefði tekist að koma réttum skilaboðum á framfæri til sænskra neytenda.

Hann sagðist þess fullviss að umræða af þessu tagi héldi áfram, hvort sem mönnum líkaði betur eða verr. Þess vegna þyrfti að bregðast við henni á réttan hátt, annars gætu afleiðingarnar orðið uggvænlegar. Í því sambandi mætti alls ekki útiloka samstarf við umhverfissamtök, heldur vinna með þeim. Ekki væri hægt að þverskallast við þeirri staðreynd að slík samtök væru komin til að vera. Norska fiskútflutningsráðið útilokaði því ekki samstarf við neinn á meðan það þjónaði hagsmunum Norðmanna og norsks sjávarútvegs.