FRÍSTUNDAHELGI verður haldin í Reykjanesbæ dagana 25. til 27. apríl næstkomandi. Þar verða ýmis áhugamál íbúa í Reykjanesbæ kynnt ásamt jaðaríþróttum og landsmenn hvattir til að heimsækja bæinn og skoða það sem fyrir augun ber.
FRÍSTUNDAHELGI verður haldin í Reykjanesbæ dagana 25. til 27. apríl næstkomandi. Þar verða ýmis áhugamál íbúa í Reykjanesbæ kynnt ásamt jaðaríþróttum og landsmenn hvattir til að heimsækja bæinn og skoða það sem fyrir augun ber.

Þeir sem koma að frístundahelgi í Reykjanesbæ eru, auk bæjarins, Tómstundabandalag Reykjanesbæjar, Íþróttabandalag Reykjanesbæjar, skólar og félagsmiðstöðvar, björgunarsveitin Suðurnes, skátafélögin Heiðarbúar og Víkverjar auk fyrirtækja í Reykjanesbæ. Verkefnisstjóri er Jón Marinó Sigurðsson.

Fram kemur á heimasíðu Reykjanesbæjar að dagskrá frístundahelgarinnar er að taka á sig mynd. Meðal annars verður boðið upp á frístundatilboð hjá hótelum, gistiheimilum og veitingahúsum, opnuð verður sýning á Poppminjasafni Íslands í anddyri Frumleikhússins, myndlistarsýning barnanna verður haldin í skrúðgarðinum í Keflavík, keppt verður í brids, hraðskák og tölvuleikjum svo eitthvað sé nefnt.

Með því að efna til frístundahelgarinnar vill menningar-, íþrótta- og tómstundaráð Reykjanesbæjar hvetja áhugamannafélögin til að markaðssetja sig betur og laða þar með til sín fólk sem e.t.v. hefur áhuga á að taka þátt í starfi viðkomandi félags á ársgrundvelli.