SAMFYLKINGIN setur fram níu forgangsmál í komandi alþingiskosningum sem koma eiga til framkvæmda á næstu fjórum árum.
SAMFYLKINGIN setur fram níu forgangsmál í komandi alþingiskosningum sem koma eiga til framkvæmda á næstu fjórum árum. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, talsmaður Samfylkingarinnar, kynnti kosningaáherslurnar í stefnuræðu á vorþingi Samfylkingarinnar í gær og sagði:

"1. Við ætlum að hækka skattleysismörkin um 10 þúsund krónur eða um 130 þúsund á ári. Með þessari aðgerð lækkar skattbyrði á öllum um sömu krónutölu eða um 50 þúsund krónur á ári á einstaklingum og um 100 þúsund krónur á hjónum. Fyrsti áfangi komi til framkvæmda 1. janúar 2004 og síðari áfangi lækkunar verður skoðaður í tengslum við endurskoðun skattkerfisins.

2. Við ætlum að lækka virðisaukaskatt af matvælum og öðrum varningi sem ber nú 14% vsk í 7%.

3. Þremur milljörðum verður varið í hækkun barnabóta. Markmiðið er að bæta hag barnafjölskyldna og draga úr jaðaráhrifum skattkerfisins. Ótekjutengdar barnabætur, að fjárhæð 45 þúsund krónur, verði greiddar með öllum börnum til 18 ára aldurs. Auk þess verða frítekjumörk tekjutengdra barnabóta hækkuð verulega frá því sem nú er. Þessar aðgerðir skila barnafjölskyldum 75 þúsund krónum á ári að meðaltali.

4. Komið verði á afkomutryggingu fyrir lífeyrisþega og lágtekjufólk og varið til þess um þremur milljörðum króna.

5. Felld verða niður stimpil- og þinglýsingagjöld vegna húsnæðiskaupa. Það lækkar útgjöld vegna kaupa á meðalíbúð um 200 þúsund krónur.

6. Hluti af endurgreiðslu námslána verði að fullu frádráttarbær frá skatti í 7 ár eftir að námi lýkur. Það nær til 16 þúsund einstaklinga og fjölskyldna.

7. 2.400 leiguíbúðir verða byggðar og keyptar á kjörtímabilinu í samráði við sveitarfélög, félagasamtök og lífeyrissjóði með hagstæðum kjörum fyrir lágtekjufólk.

8. Fjárfestingar í mannauð og menntun verða auknar um þrjá milljarða með endurbótum á öllum skólastigum og með auknum framlögum til rannsókna og frumkvöðlastarfs.

9. Síðast en ekki síst ætlum við að taka upp viðræður við samtök launafólks, atvinnulífsins og hagsmunasamtök lífeyrisþega um endurskoðun á skatta-, bóta- og almannatryggingakerfinu. Markmið endurskoðunarinnar verði að lækka enn frekar skattbyrði og lækka sérstaklega jaðarskatt á fólki með lágar og meðaltekjur."